Geðheilsupistill: Við erum ekki hugur okkar

Ég vil meina að við séum þrír hlutar samankomnir. Líkami, sál og hugur.

En eitt það mikilvægasta sem ég hef lært á leið minni til bata er:

Við erum ekki hugur okkar og við getum stjórnað huga okkar!

Hugur okkar er eins og trippi sem þarf að temja. Það er aðallega hægt með tveimur aðferðum, með hugleiðslu og mindfulness. Annað hvort stjórnar þú huganum eða hugurinn stjórnar þér. Jógarnir segja að með því að sigrast á huganum getirðu sigrað heiminn

Tamningin tekur tíma og æfingu. En það verður enginn snillingur í neinu yfir nótt.

Ég mæli hiklaust með hugleiðslunámskeiði hjá Hugleiðslu- og friðarmiðstöðinni.

***********************************

Til að skýra betur út hvað mindfulness er set ég hérna inn texta sem ég fékk á blaði í gær sem útskýrir þetta svo vel. En ég var á fyrirlestri hjá Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar sem hét 10 hamingjuráð sem Ásdís Olsen hjá undur.is var með. Þetta er bara útdráttur.

Flest okkar eru ekki meðvituð um ósjálfráðar hugsanir og áhrif þeirra á líðan okkar. Fyrir marga er það merkileg uppgötvun að geta fjarlægt sig frá huganum og að geta fylgst með hugsunum sínum án þess að vera á valdi þeirra.”

“Það er sterk tilhneiging hjá okkur mannfólkinu að dvelja í huganum við liðna atburði eða velta fyrir okkur því sem gæti gerst í framtíðinni. Í huganum erum við líka gjarnan að skipuleggja og hafa áhyggjur af því sem gerðist eða á eftir að gerast. Á meðan erum við ekki til staðar á líðandi stund og lífið líður hjá án þess að við tökum eftir því.

Það kemur líka í ljós að við erum sjaldnast meðvituð um hvað það er sem stjórnar líðan okkar og gerðum. Vi ð höfum tilhneigingu til að vera á sjálfstýringunni og bregðumst svo gjarnan ómeðvitað við umhverfi okkar. Við vitum jafnvel ekki af hverju við erum stressuð, hrædd eða gröm. Núvitundin hjálpar okkur að skilja okkur sjálf, átta okkur á ósjálfráðu hugsunum okkar og hvernig okkir líður.”

“Núvitund er meðvitað ástand um sjálfan sig og umhverfi sitt á líðandi stund í vinsemd og sátt.
Núvitund miðar að því að efla sjálfsþekkingu, sátt og velvild í eigin garð og annarra.
Núvitund er vísindalega samþykkt aðferð sem gagnast m.a til að vinna bug á hugarangri og streitu og auka þannig vellíðan, heilbrigði og hamingju í daglegu lífi.”

“Hægt er að efla núvitund sína með ákveðnum æfingum sem felast einkum í því að draga athyglina til sín og vera með sjálfum sér og skynjun sinni á líðandi stund. Þá er dagleg ástundum mjög árangursrík, en hún felst í því að hugleiða í 20 mínútur á dag, með eða án leiðsagnar.”

***********************************

Æfingar til að þjálfa núvitund:
– Borðaðu eitthvað sem þér finnst rosalega gott að borða. Taktu eftir áferðinni á matnum, taktu eftir lyktinni, taktu eftir hvað gerist þegar þú stingur fyrsta bitanum upp í þig. Borðaðu hægt og hafðu allan hugann við matinn.
– Stattu í sturtunni og finndu hvernig vatnið fellur á þig. Finndu hitastigið, finndu vatnið við fætur þínar. Finndu sturtubotninn við fætur þínar. Njóttu stundarinnar og hafðu allan hugann við hana.
– Knúsaðu einhvern sem þér þykir vænt um. Finndu hvernig hendur þínar taka utan um viðkomandi. Finndu hvernig hendur viðkomandi taka utan um þig. Finndu hvernig líkamar ykkar mætast. Finndu vellíðunartilfinninguna hríslast um líkamann. Staldraðu við og njóttu.
… og svo framvegis og framvegis.

En mindfulness/núvitund snýst eiginlega bara um að: vera til staðar hér og nú, ekki í framtíðinni, ekki í fortíðinni. Upplifa allt sem er að gerast, akkúrat núna.

***********************************

Ég set hérna líka inn þessi 10 hamingjuráð sem Ásdís fór yfir og sem mér fannst vera algjör snilld. En hún er með námskeið og fyrirlestra og ég held ég geti alveg mælt með þeim. Allavega þessum fyrirlestri. Endilega kíkið á glærurnar sem ég linka á hérna neðst, en þar er fjallað nánar um þessi hamingjuráð.

10 hamingjuráð dr. Tal Ben-Shahar
(úr bókinni Meiri hamingja)
1. Góðar venjur – fastir siðir
2. Lærðu að mistakast – annars mistekst þér að læra
3. Hreyfing er eðlileg – hún á að vera regla en ekki frávik
4. Þakklæti breytir hugarfarinu
5. Hugleiddu, eykur lífsgæði þín og hamingju
6. Veldu þér félagsskap og umhverfi sem veitir þér vellíðan
7. Minna er meira – forgangsraðaðu
8. Leyfðu þér að vera mannleg(ur)
9. Veldu að vera heil(l) og skoðaðu gildi þín í lífinu
10. Gefðu af þér reglulega

***********************************

Núvitund – Hljóðhugleiðsla – Ásdís Olsen
Glærur – Núvitund og hamingja á forsendum jákvæðrar sálfræði – 10 hamingjuráð

***********************************

Kærleikskveðja,
Linda Rós

Leave a Reply