Starfsgetumat öryrkja

Ég var að lesa frétt fyrir nokkrum dögum um að áhugi sé fyrir því að allir öryrkjar fari í starfsgetumat, þar sem starfsgeta öryrkja er metin og ótekjutengdar hlutabætur gagnvart atvinnutekjum teknar upp. Í stað fyrirkomulagsins sem er núna í gildi.

Þetta hræðir að sjálfsögðu marga, ef ekki alla, öryrkja.

Hvað mun þetta þýða? Hverjir munu meta starfsgetu öryrkja? Það er enginn hæfari til þess en öryrkinn sjálfur en mun vera hlustað á hann? Verður öryrkjunum hjálpað að fá vinnu eða verður þeim bara hent út á guð og gaddinn? Ekki ættu þeir rétt á atvinnuleysisbótum.

Hvað mun þetta þýða fyrir fólk eins og mig sem er í hlutastarfi. Munu ráðstöfunartekjur mínar lækka við þetta? Munu bæturnar sem ég fæ verða lægri en ég er að fá í dag? Staðan hjá mér er sú að ég fæ það “há laun” að bæturnar eru ekkert miklar sem ég er að fá, en það munar um allt og mig hryllir við ef þær myndu lækka eftir starfsgetumat. Þetta hefur bara engan veginn verið kynnt nógu vel fyrir öryrkjum.

Bæturnar eru heldur ekki allt sem skiptir máli, heldur ódýrari tímar hjá sjúkraþjálfara (1461 kr, í staðinn fyrir 5842 fyrir fyrstu 5 skiptin og 4674 fyrir næstu skipti), ódýrari læknaheimsóknir og ódýrari lyf. Ég væri t.d að borga meira en 50 þúsund meira á ári fyrir sjúkraþjálfaraheimsóknir, og ég þarf þær til að geta stundað vinnu og lifað eins verkjalitlu lífi og hægt er.

Ég væri með hærri ráðstöfunartekjur ef ég væri í 100% vinnu. Í hinum fullkomna heimi fyndist mér að bæturnar ættu að bæta upp það tekjutap sem veikindi mín kosta mig. Allavega upp að hærra marki en þær gera í dag.

Ef ég hefði ekki dottið út af vinnumarkaði vegna veikinda væri ég talsvert tekjuhærri en ég er í dag, og hefði verið síðustu 7 árin. Við erum að tala um allmargar milljónir. Bara svona ef einhverjir eru að hugsa einhverja vitleysu eins og það sé val að vera öryrki eða ekki.

Nota hérna tækifærið og bendi á fyrri pistil: Þegar ég verð stór ætla ég að verða öryrki.

Ég er algjörlega hlynnt því að öryrkjum verði gert auðveldara fyrir að fara út á vinnumarkaðinn en er alls ekki sannfærð um að þetta sé rétta leiðin.

Rétta leiðin væri:

Að búa til atvinnumiðlun fyrir öryrkja. Þar sem öryrki getur komið og sagt hey mig langar til að vinna. Ég treysti mér að vinna við svona, svona og svona vinnu. Ég treysti mér til að vera í svona háu hlutfalli.

Og það er bara einfaldlega fundin vinna fyrir þetta fólk.

Margir öryrkjar, eins og ég, geta skuldbundið sig í ákveðið hlutfall á mánuði. Aðrir eiga misgóða daga og gætu skuldbundið sig í ákveðið hlutfall á mánuði, með sveigjanleika. Ef heilsan leyfir ekki þá bara mætir það ekki. Ef heilsan leyfir þá mætir það.

Hérna er ég bara að tala um þá sem eru vinnufærir. Sumir eru ekki vinnufærir og verða það aldrei en aðrir myndu verða vinnufærir ef þeir fengju nógu góða endurhæfingu. Sem skortir því miður í þessu þjóðfélagi.

Nota hérna tækifærið og bendi á annan fyrri pistil: Daumur öryrkjans.

Ég sé fyrir mér að hægt væri að stofna vinnustað sérstaklega fyrir öryrkja. Þar sem þeim er fundin einhver vinna sem þeir geta sinnt á staðnum.

Ég sé líka fyrir mér að það væri hægt að bjóða fyrirtækjum afleysingafólk. Ef t.d það koma upp veikindi og það vantar einhvern til að hlaupa í skarðið að hægt væri að hafa samband við vinnustaðinn og athuga hvort einhver gæti það. Hægt væri að vera í samstarfi við fyrirtæki sem gætu þurft hjálp yfir ákveðinn tíma dags eða ákveðinn tíma árs. Eins og dekkjaverkstæði, matsölustaðir og fleira.

Sé líka fyrir mér að fyrirtæki gætu ráðið öryrkja til reynslu og fengið eitthvað frá ríkinu fyrir það. Ef það gengur upp þá frábært, ef ekki þá væri enginn skaði.

Auðvitað myndi kosta að stofna svona atvinnumiðlun og vinnustað. En það er bara svo mikilvægt að þeir sem geta unnið geri það. Það er svo ótrúlega dýrmætt fyrir líkamlega, andlega og félagslega heilsu.

Ég er btw alveg til í að hjálpa ríkinu í að útfæra eitthvað svona. Verðið bara í bandi! ;)

Það þarf líka að kynna betur fyrir öryrkjum að þeir lækki ekki í ráðstöfunartekjum við að vinna. Ég get ekki komið út í mínus nema ég fari yfir 4.319.396 á ári eða 359.950 á mánuði. Þá detta bæturnar út og ráðstöfunartekjurnar lækka.

Ein króna til eða frá getur kostað mann ansi mikið, ef maður er kominn upp í þessa upphæð. Ein króna minna og ráðstöfunartekjur viðkomandi eru 313.072 á mánuði. Einni krónu hærri og þær detta niður í 275.351 á mánuði. Lauslega áætlað á vef TR (vantar inn í ýmis iðgjöld o.fl). Til að fá sömu ráðstöfunartekjur þyrftu launin að hækka úr 359.950 í 422.548 eða um 62.598. Sé alveg að það gangi við samningaborðið.

Sem er algjörlega fáránlegt. Að þetta haldist ekki í hendur. Ég trúi ekki að einhver ætti að geta komið út í mínus annars.

Fyrir utan að þetta er ekki bara spursmál um ráðstöfunartekjur. Heldur er þetta svo mikilvægt fyrir líkamlegu andlegu og félagslegu heilsuna. Fyrir utan fullt af styrkjum og fríðindum sem flestir geta fengið. Eins og styrki fyrir líkamsrækt, sjúkraþjálfun, sálfræðingi og fleiru. Og ódýran hádegismat í mörgum tilfellum.

Heilsa mín, líkamlega, andlega og félagslega, væri ekki nærri jafn góð ef ég væri ekki að vinna. Hún væri ekki nærri jafn góð heldur ef ég væri neydd til að vinna meira en ég treysti mér í. Að öllum líkindum væri ég 6 feet under því ég hefði gert sjálfsvígstilraun númer 2, og ekki hætt við eins og síðast. Í staðinn hefur ekki komið upp sjálfsvígslöngun hjá mér í um 4 ár! Sem var til staðar non stop í hátt í 20 ár.

Þegar ég var búin að ná þeim bata að treysta mér aftur út á vinnumarkaðinn þá var ég hjá VIRK. Og þeir vissu bara ekkert hvað þeir ættu að gera við mig. Því ég er háskólamenntuð og mér skildist að þeir hefðu bara ekkert reynslu af því að aðstoða háskólamenntaða að fá starf. Allavega ekki á þeim tíma.

Svo ég ákvað bara sjálf að finna mér eitthvað. Sótti um út um allt en fékk engin svör, nema í mesta lagi að engin hlutastörf væru í boði. Ég ætlaði því að finna eitthvað sjálfboðaliðastarf. En var svo bent á frístundaheimilin og réði mig þar í 20% starf. Ég vissi ekki hvernig vinnan færi í andlegu og líkamlegu hliðina. Hve mikið álag þetta væri. Svo ég réði mig bara í lægstu prósentu sem í boði var. Eftir nokkra daga var ég komin upp í rúmlega 30% og einhverjum vikum eftir það upp í rúmlega 40%. 50% er almennt hæsta hlutfall í boði þar. Núna er ég komin upp í 70% vinnu, í öðrum geira. Er því miður ekki viss um að ég muni nokkurn tímann treysta mér í hærra hlutfall en það. En það kemur bara í ljós.

En ef ég hefði ekki haft bein í nefinu til að fara að finna mér eitthvað sjálf og verið svo rosalega heppin að lenda á frístundaheimili þá er ég ekkert viss hvort ég væri nokkuð byrjuð að vinna í dag.

Og hryllir við að hugsa um hvernig staðan væri á andlegu, líkamlegu og félagslegu hliðinni.

Ég er menntaður tölvunarfræðingur og það vildi enginn ráða mig í starf. Nema frístundaheimilin. Bæði af því að það er mjög ljóst þegar fólk gúglar mig að ég hef átt við andleg og líkamleg veikindi að glíma. Og af því að ég get bara unnið hlutastarf. Það tók mig nokkur ár að fá aðra vinnu en á frístundaheimili Ekki það að það væri slæmt að vinna á frístundaheimili, en það var ekki það sem mig langaði að gera til 67 ár aldurs.

Það vill bara nánast enginn ráða öryrkja né í hlutastarf. Hvað þá bæði!

Ég vil nota þetta tækifæri til að benda öryrkjum á frístundaheimilin. Þetta er skemmtileg vinna. Ég meina hve margir fá borgað fyrir að perla, teikna, sitja úti í sólbaði, horfa á Disney myndir, og svo framvegis! Það er líka alltaf skortur á starfsfólki svo tiltölulega auðvelt að fá vinnu. Það er t.d bara hægt að sækja um NÚNA!

Ég vil líka nota þetta tækifæri til að þakka :

Gufunesbæ fyrir að ráða mig á frístundaheimili. Ég sakna oft vinnunnar, barnanna og samstarfsfélaganna.

Opnum kerfum fyrir að ráða mig sem þjónustufulltrúa á verkstæði og lager. Ég sakna oft vinnunnar, fjölskylduandrúmsloftsins og samstarfsfélaganna.

Advania fyrir að ráða mig sem hugbúnaðarprófara.

Leave a Reply