Frábær hlutastörf í boði á frístundaheimilunum

Ég hef verið að hvetja öryrkja og skólafólk til að sækja um vinnu á frístundaheimilum. Algjörlega fullkominn vinnutími fyrir fólk sem getur bara unnið takmarkað (10-50%, eftir hádegi). Það er alltaf mannekla svo það er auðvelt að fá vinnu. Undir 33% telst maður hlutastarfsmaður með minni réttindi, svo það getur borgað sig að reyna að komast í 33%.

Það er allskonar fólk sem vinnur á frístundaheimilunum. Ungt fólk í menntaskóla og háskóla. Fólk á ellilífeyrisaldri. Útlendingar sem tala litla íslensku. Útlendingar sem tala fína íslensku. Fólk í hjólastól. Og svo framvegis. Það eru alveg um 50 ár á milli yngsta fólksins og elsta.

Þetta er skemmtileg vinna. Ég meina hve margir fá borgað fyrir að perla, teikna, sitja úti í sólbaði, horfa á Disney myndir, og svo framvegis!

Alveg ágætlega launað þannig lagað séð. Sérstaklega miðað við að það er fáránlega erfitt fyrir fólk að fá hlutastörf. Svo það er oft þetta eða ekkert. Eins og í mínu tilfelli þegar ég var að stíga mín fyrstu spor aftur út á vinnumarkaðinn eftir veikindi.

Það eru líka ýmsir styrkir sem eru mjög góð búbót. Bæði frá St.Rv. og BSRB. Skólastyrkir, líkamsræktarstyrkir, tölvustyrkir, tómstundastyrkir, sjúkraþjálfunarstyrkir og svo framvegis.

Ég fékk samtals hundruði þúsunda í styrki þau rúmu 3 ár sem ég var þarna. Nánar tiltekið 663.900 frá St.Rv. og 107.363 frá BSRB. Frá hausti 2011 til janúars 2015. Já og ókeypis í sund!

Fyrir öryrkja er líka ótrúlega mikilvægt að komast aðeins að heiman og vinna. Gott fyrir andlegu, líkamlegu og félagslega hliðina. Launin eru aukaatriði. Eða voru það allavega í mínu tilfelli. Ég ætlaði upphaflega að finna sjálfboðaliðastarf þar til mér var bent á frístundaheimilin.

Rak samt augun í eitt sem mér fannst áhugavert þegar ég var að skoða launaflokkana. Dýrahirðar eru 21 launaflokki fyrir ofan frístundaleiðbeinendur. Frístundaráðgjafar eru reyndar 2 launaflokkum hærri en dýrahirðar, en það eru þeir sem eru með háskólamenntun, eins og ég. Þó svo það geri mann ekkert endilega að betri starfsmanni.

Mér finnst einhvern veginn meiri ábyrgð fólgin í að sjá um börn en dýr. Þó maður sé mikið að leika sér í vinnunni þá þarf maður að fást við ýmislegt sem kemur upp og það getur skipt virkilegu máli fyrir líðan barna hvernig það er gert.

Mér fannst líka athyglisvert þegar ég skipti um starf að ég fékk svipuð laun fyrir 70% vinnu á verkstæði og lager og ég hefði fengið fyrir 100% vinnu á frístundaheimili. En það er svona munurinn á einkareknu fyrirtæki í gróðabusiness og uppeldisstofnun hjá Reykjavíkurborg. En mér finnst svo að það ætti að vera öfugt. En ég hefði verið að fá um 300 þúsund á mánuði fyrir fulla vinnu á frístundaheimilinu, launin hafa hækkað aðeins síðan. Hefði fengið eitthvað minna á frístundaheimilinu án háskólamenntunar.

Það myndi skipta ótrúlegu máli að það væri fleira starfsfólk á frístundaheimilum sem væri uppeldismenntað eða sem hefði setið einhver námskeið. Já og ef hverjum starfsmanni væri ekki ætlað að sjá um 16-18 börn. Eeeen það er annað mál…

Allavega hvet fólk til að sækja um á frístundaheimilunum. Ég perlaði meira eftir þrítugt en fyrir þrítugt. ;)

Svo er ráðning bara yfir vetrartímabilið svo maður fær ofsa gott og langt sumarfrí! Reyndar ólaunað, en samt. Það sem ég sakna 2,5 mánaða sumarfríanna minna! :)

***

Starfsheiti og stig

Launatöflur

BSRB styrkir

St.Rv. styrkir

St.Rv. Gott að vita námskeið
(ég fór á mjög mörg námskeið þarna)


Warning: mysqli_query(): (HY000/1194): Table 'wp_comments' is marked as crashed and should be repaired in /home/lindaros/public_html/dagbok/wp-includes/wp-db.php on line 1924

Warning: mysqli_query(): (HY000/1194): Table 'wp_comments' is marked as crashed and should be repaired in /home/lindaros/public_html/dagbok/wp-includes/wp-db.php on line 1924

Leave a Reply