Þjónustumiðstöðin á Þingvöllum

Í gær stóð ég mína síðustu vakt í Þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum. Vá hvað það verður skrítið að eiga aldrei eftir að afgreiða túrista þar aftur. Eiga aldrei eftir að hella upp á kaffi, búa til pylsu, sturta niður úr pissuskálum né vísa ráðvilltum túristum til vegar.

Eiga aldrei eftir að ganga með hundinn frá Kárastöðum og niður í sjoppu. Jafnvel fá far þaðan aftur heim, eða ganga bara til baka!

Mynd: Eitt af skiptunum sem við Ronja mín gengum niður í sjoppu, fengum okkur í gogginn og héldum svo aftur heim.

Ég byrjaði að vinna í sjoppunni vorið 1991, 11 ára gömul. Ég man eftir að hafa suðað og suðað í gegnum tíðina að fá að vinna í sjoppunni, sem átti aldeilis eftir að bíta mig í rassinn því það varð ekki aftur snúið. Þetta sumar vann ég fullan vinnudag, flesta daga sumarsins. Og næstu 10 sumur á eftir.

Foreldrar mínir byrjuðu með sjoppuna 1986, þegar ég var 6 ára gömul. Pabbi 33, mamma 31 árs og brósi 11 ára. Þau hættu með búskap og fóru í sjoppureksturinn í staðinn.

Ég hafði bæði afskaplega mikla ánægju af þvi að vinna í sjoppunni, og ekki. Eins og þeir sem þekkja mig vita byrjaði ég að vera kvíðin 6 ára og þunglynd um þetta leyti. Mér fannst afskaplega gaman að vinna með skemmtilegu fólki. Mér fannst líka afskaplega gaman að fylla á. Það er eiginlega hálf vandræðalegt hve skemmtilegt mér finnst að fylla á. Passa upp á að allt snúi eins og sé í röð. En að afgreiða fólk, það fannst mér hræðilegt. Sérstaklega drukknu Íslendingana um helgar. *hrollur*

En eftir að ég byrjaði að vinna í sjálfri mér eftir sjálfsvígstilraun árið 2009 afgreitt smá af og til í sjoppunni! Ein sem ég hef unnið með í gegnum tíðina sagðist taka eftir rosalegum mun á mér. Einu sinni læddist ég helst með veggjum og reyndi allt til að þurfa ekki að afgreiða viðskiptavini. En það breyttist í að ég hafði heil mikla ánægju af því og gat spjallað um allt og alla, við allt og alla.

Mér hefur oft skort sjálfstraust á ýmsum sviðum. Sem hefur þó stór lagast eftir að ég fór að vinna í sjálfri mér fyrir tæpum 8 árum. Um daginn komu Englendingar búsettir í London í sjoppuna, ég spjallaði heilmikið við þau, var að loka eftir norðurljósaferð. Í staðinn fyrir að reka þau út og drífa mig í bæinn spjallaði ég við þau í örugglega góðan hálftíma. Þau minntust á hvað ég talaði rosalega góða ensku, og flestir á íslandi. Ég hváði, hef alltaf fundist ég tala ensku með svo miklum hreim og oft lengi að hugsa og finna réttu orðin, sérstaklega því ég tala ensku ekki að staðaldri og þá er maður svo ryðgaður. Þá sögðu þau að það væri bara „more impressive“! Ef bara maður gæti haldið um sjálfan sig það sem aðrir halda um mann!

En allavega. Þessi síðasta vakt mín í gær var æðisleg. Allt brjálað að gera! Algjörlega brjálað!

Ekkert af vanalega starfsfólkinu gat unnið svo ég fór þarna með kærastanum. Besti jóladagur ever! Líf og fjör við að kveðja sjoppuna. Það kom auðvitað ekki til greina að hafa lokað!

Við þorðum ekki annað en að taka hundinn minn með í sveitina því það átti að vera leiðinlegt veður og ef við yrðum strandaglópar í sveitinni með fulla sjoppu af túristum þá var enginn til að koma og hugsa um hundinn í bænum. Ég hélt að ég gæti bara sent kærastann og hundinn í góðan jólagöngutúr og ég mætti á svæðið með lesefni. Kærastinn átti bara að vera aðstoða ef á þyrfti. Það munaði litlu að ég færi bara ein! Sem betur fer gerði ég það ekki!

En túristarnir voru svangir! Því miður þá gerðum við ekki ráð fyrir allri þessari traffík svo pylsubrauðin kláruðust og súpuskeiðarnar. En þá skipti bara máli að hugsa út fyrir kassann. Súpunni var skellt í stóra bolla, fólk var bara mjög ánægt með það, mörgum finnst hvort sem er betra að drekka súpu en borða hana með skeið! Við fundum frosin rúnstykki og smurðum þau. Settum pylsur á diska í staðinn fyrir í brauð.

Við erum náttúrulega bara með opið út 28. desember svo við erum bara að reyna að eiga sem minnst á lager. Ég hef aldrei selt fyrir jafn háar upphæðir á einum degi, all margar færslur yfir 10.000 kr. Túristarnir voru að kaupa helling af kexi, snakki og bakkelsi til að eiga fyrir restina af deginum því þeir áttuðu sig greinilega ekki á því að flest væri lokað á jóladag. Hef aldrei heyrt jafn marga á einum degi kalla okkur Oasis.

Norðurljósaferðirnar voru algjörlega uppáhalds tímarnir mínir í sjoppunni. Mest afgreiddi ég ein 800 manns á einu kvöldi. Það var sko stuð! Það áttu ekki að koma svona margir en það bættust svo mörg rútufyrirtæki við á planinu óvænt. Gaman að hafa nóg að gera við afgreiðslu, flestir að kaupa heita drykki. Gaman að spjalla og fíflast við rútubílstjórana og leiðsögumennina. Ófáir sem hjálpuðu til. Hvort heldur sem var við að standa við kakóvélina að dæla út kakóbollum í tugavís eða fylla á. Nú eða hreinlega bara sópa og hreinsa af borðunum. Eða laga stíflaða vaska!

Ég hef ekki tölu á öllu því starfsfólki sem ég hef unnið með. Ég hef m.a unnið með þremur ættliðum, systur pabba, tveimur börnum hennar og einu barnabarni. Ég hef unnið með fólki frá flestum bæjum sveitarins. Heiðarbæ 1, Heiðarbæ 2, Skálabrekku 2, Heiðarási, Brúsastöðum og Mjóanesi. En starfsfólk úr sveitinni hafði alltaf forgang um vinnu. Mamma fékk mikið af unglingum senda til að kenna þeim að vinna. Við höfum alltaf verið heppin með starfsfólk. Flestir hafa unnið mörg sumur og þær 2 sem hafa verið þarna í fullri vinnu síðustu ár hafa verið þarna meira og minna, frá annars vegar um 1994 og hins vegar frá um 2001 (báðar byrjuðu um eða rétt eftir fermingu). Flest árin kom starfsfólkið úr sveitinni eða bjó á Kárastöðum. En hin síðari ár kom starfsfólkið flest keyrandi úr bænum. Breyttir tímar.

Sjoppan hefur breyst ansi mikið frá því við byrjuðum að vera með hana. Húsnæði og flest í því er í eigu Þjóðgarðsins. Fyrir árið 1996 vorum við með meirihluta húsnæðisins. Þjóðgarðurinn var með smá borð þar sem seld voru veiðileyfi og tjaldleyfi við. Þar fyrir aftan var lítið herbergi sem var bæði smá skrifstofa og þar var rúm fyrir þann sem vann þar. Við hjálpuðum stundum til við afgreiðslu og upplýsingagjöf.

En árið 1996 var húsnæðið allt tekið í gegn. Þjóðgarðurinn færðist lengst til vinstri og við fórum til hægri. En það hafði verið akkúrat öfugt. Við misstum heil mikið pláss við þetta. Mamma og pabbi þurftu að láta byggja, á eigin kostnað, smá viðbyggingu til að hafa lagerinn í. Litla herbergið sem var fyrrum gistiaðstaða og skrifstofa fyrir starfsmann þjóðgarðsins varð að okkar aðstöðu. Við gerðum það besta sem við gátum og erum með smá aðstöðu þar til að smyrja brauð og búa til súpu. Herbergið er líka skrifstofan okkar, og kaffistofa fyrir okkur og bílstjóra og leiðsögumenn.

Við áttum víst að fá glerborð með hillum í, fyrir sælgæti og minjagripi. En mig minnir að budget-ið hafi klárast og ákveðið að fara í ódýrari valkosti. Þessi nýja aðstaða var að miklu leyti ekki hentug. Sælgætið var til hliðar bak við afgreiðsluborðið, sem sást oft illa. Við hættum að selja minjagripi og veiðivörurnar voru allar geymdar bara í hillu undir borði. Eitthvað sem var allt til sýnis áður. Ég hef alltaf sagt að arkitektinn sem teiknaði þetta hafði augljóslega aldrei unnið í sjoppu. ;)

En mamma hefur svo sem aldrei verið mikið fyrir að kvarta, né pabbi minn heitinn. Svo það var bara gert það besta úr öllum aðstæðum.

Þjóðgarðurinn fór svo að vera í samkeppni við okkur, sem mér fannst mjög skrítið. Það byrjaði á póstkortum og svo bættist ýmislegt við. Það væri náttúrulega alveg eðlilegt ef ríkið myndi eiga húsnæði í miðbænum, leigja það út til einstaklings sem selur póstkort og byrja svo sjálft að selja póstkort úti í horni í beinni samkeppni við leigjandann?

Á sínum tíma hefði mér fundist eðlilegt að við hefðum fengið allt húsnæðið fyrir okkur, að það hefði verið gert smá eldhús og aðal áherslan á að þjónusta túristana sem best með veitingar. Að þjóðgarðurinn hefði bara byggt annað húsnæði fyrir sig, eins og kom svo uppi á Haki á einhverjum tímapunkti. Túristum finnst afskaplega ruglingslegt að það séu 2 upplýsingamiðstöðvar á Þingvöllum, sem ég skil vel.

En það sá kannski enginn fyrir hve mikil aukning yrði á túristum. En að minnka svona svakalega okkar hluta á sínum tíma held ég að hafi verið afskaplega mikil skammsýni.

Fyrstu árin var sjoppan bara opin yfir sumarið, já og yfir páskana minnti mamma mín mig á í gær. Svo lengdist alltaf afgreiðslutíminn smám saman. Opið um helgar í mánuðum sem hafði verið lokað alla daga. Núna í nokkur ár hefur verið opið alla daga ársins, nema þegar það hefur verið ófært og vegir lokaðir. Og jafnvel þá samt opið!


Mynd: Í staðinn fyrir að drífa okkur í bæinn þá héldum við sjoppunni opinni og enduðum á að gista á Kárastöðum, held það hafi örugglega verið þennan dag.

Ég man eftir að hafa hangið þarna all marga daga yfir engu í gamla daga. Eina helgina var ég ein þarna og það kom einn hópur af túristum, sem verslaði ekkert en bað um skóflu því þau höfðu fest sig. Þjóðgarðurinn var með alveg lokað á þessum tíma og var ekki með neina þjónustu. Ég lánaði þeim skóflu sem þeir komu og skiluðu. Komu svo aftur til að fá hana lánaða og skiluðu henni ekki eftir það. Svo ég kom bara út í tapi þá helgina! Hvað þá ef mamma hefði borgað mér laun! En þetta var bara þjónustu við túrista og fyrst hún gat ekki verið þarna þá fannst mér ekki annað en sjálfsagt að sitja þarna launalaust heila helgi. Maður sat við rafmagnshitablásara, kappklæddur í kuldanum og reyndi að hreyfa sig sem allra minnst frá þessum eina hlýja stað í húsnæðinu. Ahhh gömlu góðu tímarnir.


Mynd: Eitthvað að drekka (vá hvað ég sakna Epla Kristals), eitthvað að éta, handáburður, sími, bók, rafmagnshitablásari, flíspeysa og mjúkur púði fyrir bakið. Hvað meira þarf maður?!

Í gamla daga var líka meira um Íslendinga. Við vorum með opið til 23:30 öll kvöld til að þjónusta tjaldsvæðið. Fólk kom til okkar að pissa fyrir svefninn og bursta tennurnar og svona. Þá var enn vinsælt að koma til Þingvalla um verslunarmannahelgina. En það er langt síðan við fórum að hafa opið til 22:00. Útlendingarnir fara svo snemma að sofa. ;)

En nú eru breyttir tímar. Og móðir mín er að hætta rekstrinum um áramót. Eftir að hafa staðið vaktina þarna nánast alla daga ársins í hátt í 30 ár. Eftir hjartaáfallið 2013 hefur hún lítið sem ekkert getað unnið en hefur alltaf komið aðeins að afgreiða og tína rusl. Ef hún hefði ekki komið í gær að hjálpa okkur skötuhjúunum hefði ég örugglega endað í fósturstellingunni úti í horni á einhverjum tímapunkti. Það var fullt út að dyrum stanslaust i um 4 tíma!

Mynd: Mamma kom um daginn að tína rusl. Fannst vera heldur mikið af því og á endanum hringdi hún í Rúnar sinn til að fá liðsauka.

Ég reyndi allt sem ég gat til að fá Þingvallanefnd og þjóðgarðsvörð til að skipta um skoðun og leyfa mömmu að reka þetta þar til hún kæmist á ellilífeyrisaldur eftir 6 ár. Eða allavega eitthvað aðeins lengur. En enginn svaraði tölvupóstunum mínum. Enginn í Þingvallanefnd og ekki þjóðgarðsvörður.

Ég talaði við lögmenn, almenna lögmenn og sérfræðing í samkeppnismálum. Ég talaði við nokkra aðila í pólitíkinni, fyrrverandi og núverandi. Ég talaði við forsætisráðuneytið, þá komu loksins einhver svör en þeir höfðu ekkert með þetta að gera. Ég sendi tölvupóst á forsætisráðherra, en hann svaraði hvorki mínum né annarra um þetta málefni. Ég er ekkert sérlega hugrökk í svona málefnum en ég gat bara ekki annað en reynt að berjast. Hver myndi ekki gera það fyrir foreldri sitt, sem er að missa lífsviðurværið. Ég ætlaði svo að höfða til nýju Þingvallanefndarinnar en eins og flestir hafa tekið eftir þá hefur stjórnarmyndun gengið eitthvað hægt. Ég hef aldrei fylgst jafn mikið með stjórnarmyndunarumræðum!

Þó mamma geti ekki unnið eins og hún gerði þá skiptir þetta gífurlega máli upp á fjárhaginn. Að hafa rekstur og geta komið aðeins og afgreitt smá, tínt rusl og spjallað við starfsfólkið og viðskiptavini skiptir líka gífurlega miklu fyrir andlega og líkamlega heilsu hennar.

Þjóðgarðsvörður ætlaði að reka þetta óbreytt í 1-2 ár og til stóð að kaupa af okkur allt sem við eigum þarna, hillur, tæki og fleira. En það var svo hætt við það og það á víst að fara að endurgera alla sjoppuna. Sem var náttúrulega löngu orðið tímabært! Eftir 20 ár var ansi margt orðið sjúskað þarna. En við sem leigjendur gátum ekki eytt peningum í að vera að uppfæra eitthvað. Leigan okkar var búin að 2-2,5 faldast á um 5 árum. Fyrir utan nokkra tugi þúsunda sem fóru í rafmagnsreikninginn. Bara leiga og rafmagn var vel yfir 400 þúsund á mánuði. Fyrir ekki stærri rekstur en þetta. Svo var það rekstur á tveimur bílum og starfmannakostnaður.

Athyglisvert er líka að benda á að margt sem við kaupum frá heildsala fáum við dýrara frá heildsala heldur en ef við færum í Bónus eða Krónuna að kaupa það!

Svo þetta er nú ekki sú gróðramaskína sem margir halda kannski. Pabbi heitinn var alla sína ævi í annarri vinnu á veturna. Fyrsti nýi bíllinn leit dagsins ljós í kringum 2005 á heimilinu. Annars voru bara alltaf gamlar druslur á heimilinu. Mamma og pabbi fóru í fyrsta sinn saman til útlanda árið 2000 minnir mig og voru reyndar ansi dugleg við að fara til útlanda upp úr því. Enda áttu þau það alveg skilið eftir að þræla út í sjoppunni myrkranna á milli. Þau töldu ekkert eftir sér að vinna nokkra mánuði í röð án þess að taka einn einasta frídag. Jafnvel vinna um 10 tíma á dag, eða meira. Ég efast um að nokkur manneskja myndi ráða sig á tímakaupi þeirra í gegnum tíðina.

En jæja allt tekur sinn enda og þetta hafa verið ljúfsár 30 ár.

Mér finnst jafn rangt að ríkið reki sjoppu á Þingvöllum og að ríkið myndi reka sjoppu niðri í miðbæ.

Mér finnst jafn rangt að leita að rekstraraðila út fyrir sveitina. Jafn rangt og ef ég sem bý í Reykjavík myndi fara að taka yfir rekstur í Grindavík sem einhver hefði verið með í 30 ár og byggi á svæðinu. Sem væri búin að vera með 2 manneskjur í vinnu meira og minna frá annars vegar 1994 og hinsvegar 2001. Báðar voru í kringum 14-15 ára þegar þær byrjuðu þarna. Hvað þá af manneskju sem væri ekki heilsuhraust og hefði ekki nokkurn möguleika á að taka yfir annan rekstur eða fá sér aðra vinnu. Þó ég myndi flytja til Grindavíkur þá myndi mér finnast það jafn rangt.

En svona er lífið.

Ég vil þakka öllu skemmtilega fólkinu sem ég hef unnið með í sjoppunni og skemmtilega fólkinu í Þjóðgarðinum sem ég hef haft ánægju af að kynnast og njóta samvista við. Fjallgöngusumarið mikla er sérstaklega í miklu uppáhaldi!

Ég vil þakka öllum bílstjórunum og leiðsögumönnunum sem hafa stoppað hjá okkur.

Og svo náttúrulega öllum hinum!

Ást og friður
Linda Rós Helgadóttir,
Dóttir rekstraraðila Þjónustumiðstöðvarinnar á Þingvöllum (1986-2016) og starfsmaður (1991-2016)

Ef einhverjir eiga myndir á tölvutæku af sjoppunni eins og hún var í gamla daga (utan eða innan) eða af mömmu eða pabba í sjoppunni, eða okkur systkinunum, þá þætti mér vænt um að fá þær sendar á kisustelpa(att)gmail.com

***
http://www.visir.is/tota-a-karastodum-kvedur-sar-og-osatt-eftir-30-ar-a-thingvollum/article/2016161009055

http://www.visir.is/tota-a-karastodum-lokar-sjoppunni-28.-des/article/2016161229952

http://www.mbl.is/frettir/innlent/2016/10/05/thjodgardurinn_tekur_vid_rekstrinum_2/

http://www.visir.is/karastadamaedgur-osattar-vid-ad-rikid-vilji-reka-sjoppu-a-thingvollum/article/2016161229273

One thought on “Þjónustumiðstöðin á Þingvöllum

  • 26. December 2016 at 13:30
    Permalink

    Ríkið vill selja (gefa) allt og hefur verið að því en á sama tíma hirða lífsviðurværi fólks á sama tíma sem er afar sorglegt og leitt að lesa um Linda mín ?

    Reply

Leave a Reply