Örorka metin 25% lægri, bætur lækka um 96% í kjölfarið

Það er aldeilis langt síðan ég hef skrifað eitthvað hérna. Það er bara rosalega langt síðan ég hef fundið hjá mér þörf til að tjá mig. Ég hef stundum byrjað á einhverju en ekki náð svo langt að klára eitthvað.

Tilefni tjáningarþarfar minnar kemur ekki af hinu góða.

Síðan 2009 hef ég fengið fullar bætur frá Tryggingastofnun, fyrst endurhæfingalífeyri og svo örorkulífeyri. Ég hef þurft að senda inn endurnýjun á hverju ári sem hefur alltaf gengið í gegn þegjandi og hljóðalaust, þó maður hafi alltaf beðið í óvissu með tilheyrandi kvíða og stressi.

Ein ástæða bótanna, svona lít ég reglulega út.

Nú í ár var óvissan enn lengri en áður því TR vildi allt í einu fá staðfestingu aftur um að ég hefði sótt um í lífeyrissjóði. Sem ég þurfti ekki að skila fyrir árin 2009, 2010, 2011, 2012, 2013, 2015, 2016 og 2017. Ég þurfti bara að skila því 2014, og svo aftur núna greinilega. Svo í staðinn fyrir að fá niðurstöðu í málið í ca mars/apríl fékk ég ekki niðurstöðu fyrr en á þriðjudaginn síðasta. Örorka mín rann út 1. maí.

Niðurstaðan er sú að ég telst núna með 50% örorku en ekki 75%. Ég fæ því ekki lengur örorkulífeyri heldur örorkustyrk.

Maður skyldi halda að fyrst að einstaklingur með 75% örorku fái fullar bætur að einstaklingur með 50% örorku myndi fá hlutfallslegar bætur, sem væru þá 67%.

En nei það er ekki svo einfalt. Né gott.

Hér koma nokkrar tölur:

Fullar örorkubætur eru 300.000, fyrir skatt. 243.075 eftir skatt (ef aðili býr einn).
Fullar örorkubætur eru 238.594, fyrir skatt. 204.352 eftir skatt. (ef aðili býr ekki einn)

https://www.tr.is/tryggingastofnun/reiknivel-lifeyris/reiknivel

Útúrdúr: Finnst ykkur skrítið að margir öryrkjar láta maka eða börn eldri en 18 ára skrá lögheimili sitt annars staðar? Með tilheyrandi áhættu ef upp kemst um þetta. Því jú 18 ára barn sem ætti helst bara að vera í skóla og lifa áhyggjulausu lífi skerðir bætur foreldris. Því það er jú mikið ódýrara að eiga og búa með 18 ára barni en 17 ára barni. 18 ára einstaklingar eiga náttúrulega bara að fullorðnast, hætta vitleysunni að vera í skóla og lifa áhyggjulausu lífi og fara að borga heim og hafa fullorðinsáhyggjur. Ég get bara ekki hugsað þá hugsun til enda að vera einstæður öryrki með 18 ára barn á heimilinu. Bæturnar lækka því barnið er orðið “fullorðið” og lækka því nú býrðu allt í einu með “fullorðnum” einstaklingi. En þú átt samt enn barn sem þú þarft og vilt hugsa um.
Utúrdúr lokið.

Allar tekjur hafa svo áhrif á þetta, eftir eitthvað ákveðið lítið frítekjumark. Fjármagnstekjur, leigutekjur, launatekjur… Ef öryrkinn er giftur þá hafa fjármagnstekjur maka áhrif.

Ef ég t.d myndi vilja leigja út íbúðina mína og leigja annars staðar þá flokkast leigutekjurnar mínar sem tekjur, alveg sama þó ég væri að borga hærri leigu annars staðar.

Ég er í hlutastarfi og ég veit ekki alveg hve mikið það lækkar lækkaði bæturnar hjá mér, en það eru einhver tugi prósenta. En ég kem kom samt út í ágætum plús. Áhugi minn á að hanga heima hjá mér allan daginn er mjög takmarkaður svo ég vil vinna, þó það bitni á heilsunni. Það er oft sagt að það borgi sig ekki að vinna með örorkubótum en mín reynsla er að það borgar sig alltaf. Aðeins meiri peningur í pyngjuna, ýmis fríðindi ef maður er hjá góðu fyrirtæki og góðu stéttarfélagi og það er gott að hanga ekki alltaf heima hjá sér.

En já aftur að 50% örorkunni og örorkustyrknum.

Fullur örorkustyrkur er 29.469 kr. á mánuði.

Tekjutengdur og skattskyldur, þ.e ef þú ert með tekjur. Ef ekki þá færðu alveg heilar 29.469 krónur til að lifa af mánuðinn. Það er nú ekkert mál, er það?

Ég fæ væntanlega bara hlutfall af þessum örorkustyrk því ég er með 50% örorkumat, þeir sem eru með 74% örorkumat hljóta að fá hærri styrk. Ég veit samt ekkert um þetta en fyndist allavega ekki eðlilegt að það væri sama upphæð fyrir 50% og 74%. En það sem mér finnst og TR finnst fer nú oft ekkert saman.

Ég er í hlutastarfi og við það að verða úrskurðuð sem 50% öryrki en ekki 75% lækka bætur mínar frá TR um 96%!

Nei þetta er ekki innsláttarvilla.

Ég fæ 4% af þeim bótum sem ég var að fá frá TR.

Manni munar um allt og mig munar um þessi tugi þúsunda sem ég missi. Ég tilheyrði 25% tekjulægstu einstaklingum landsins. Ég tilheyri núna 10% tekjulægstu einstaklingum landsins.

Ég sé alveg í anda ganga upp hjá vinnuveitenda að lækka starfshlutfall starfsmanns um þessa prósentu og lækka launin um 96%.

En merkilegt nokk er þetta metin sem varanleg örorka en þarf ekki að biðja um endurnýjun á hverju ári eins og með 75% örorkuna. Vá hvað það væri þægilegt ef 75% örorkan virkaði eins.

Ef heilsa mín myndi allt í einu snar batna þá myndi ég náttúrulega auka vinnuna, hækka í tekjum og bæturnar myndi núllast út. Þetta segir sig bara sjálft!

Samkvæmt TR: “Örorkustyrkur er hugsaður fyrir einstaklinga sem bera verulegan aukakostnað vegna örorku sinnar til dæmis vegna lyfja, læknishjálpar eða hjálpartækja.”

Ef þessi styrkur er sérstaklega hugsaður fyrir þá sem bera aukakostnað vegna örorku sinnar, af hverju í ósköpunum fá þeir þá ekki örorkuafslátt!?

En ég flokkast nú sem almennur borgari í heilbrigðiskerfinu, svo þetta þýðir að ég muni fara að borga meira fyrir lyf, sjúkraþjálfun og læknaheimsóknir. Ég borgaði 400% meira fyrir sjúkraþjálfun og læknaheimsóknir í síðasta mánuði en ég var að gera sem öryrki.

Ég mun líka þurfa að fara að borga í sund, bifreiðagjöld o.fl.

Þetta eru tugi þúsunda á ári. Svo í raun hafa ráðstöfunartekjur mínar ekki lækkað um þessi 96% heldur talsvert mikið meira en það.

Hefur heilsa mín batnað síðustu árin, sem útskýrir þessa breytingu á örorkumat? Ekki vitundarögn.

Bakið hefur í raun versnað eftir að ég byrjaði í núverandi starfi. Á 3 mánaða tímabili frá september – desember fór ég í 19 sjúkraþjálfunartíma til að koma bakinu í lag.

Það hentar bara bakinu á mér ekkert voðalega vel að þurfa að sitja við vinnu. Né standa. Best væri að geta staðið, legið, setið og gengið til skiptis í vinnunni. Ef þið vitið um eina þannig þá endilega sendið mér skilaboð!

Ef einhvern vantar hlutastarfsmann í vinnu sem ég get sinnt heiman að og þegar mér hentar. Eins og að svara tölvupóstum, lesa yfir skjöl, setja upp einfaldar heimasíður, uppfæra heimasíður, miðla af reynslu minni af sjálfshjálp, endurhæfingu, bataferli eða heilbrigðiskerfinu, eða eitthvað þannig þá má endilega hafa samband við mig. En allar aukatekjur væru afskaplega vel þegnar.

Ég hef ekki heilsu til að fara í reglulegt hærra starfshlutfall, frekar herði ég sultarólina og held þeirri heilsu sem ég hef.

Mér finnst mjög skrýtið að þetta sé, að ég held, byggt á mati eins læknis á vegum TR sem ég hitti í smá stund. Sennilega “spilaði ég mig ekki” “nógu veika” eða var bara ekki nógu trúanleg.

Þegar ég fór í gegnum ferlið að fá bætur í upphafi þá hitti ég sjúkraþjálfara, sálfræðing og lækni. Ætti ég ekki að eiga rétt á að hitta aftur sjúkraþjálfara og sálfræðing? Það var reyndar sjúkraþjálfari með lækninum en hann skoðaði mig ekkert, hann var bara ritari fyrir lækninn. Ég áttaði mig ekki á þá né átta mig enn á því hvort hann var þarna til að meta mig eða bara skrifa niður.

Ætti ekki að hafa samband við mig um þessa breytingu og spyrja hvort ég vilji andmæla niðurstöðunni?

Eina sem ég get gert er að kæra þetta og það tekur að meðaltali 5,24 mánuði. En það er einmitt það sem ég er búin að gera og bíð spennt eftir svari í kringum 22. nóvember næstkomandi.

Hvað ef heilsu minni myndi hraka snögglega eða ég missa vinnuna?

Vitiði hve auðvelt það er að fá vinnu þegar maður er ekki andlega og líkamlega heilsuhraustur og getur bara unnið hlutastarf? Það er bara hreint ekki auðvelt. Það fyrirfinnst varla sá yfirmaður sem myndi frekar ráða þannig manneskju frekar en heilsuhrausta manneskju í fullt starf.

Ég er búin að vera að drepast í skrokkinum út af stressi og andlega heilsan er þannig að mig langar helst bara að finna helli einhvers staðar þar sem enginn finnur mig og bara vera þar. Takk Tryggingastofnun!

Núna er ég sjúklega hrædd um að missa vinnuna og fá ekki aðra vinnu. Sjúklega hrædd um að andlega og líkamlega heilsan versni og ég hafi ekkert öryggi til að falla á. Á ég þá að lifa bara á nokkrum þúsund köllum á mánuði? Takk Tryggingastofnun!

Takk elsku Tryggingastofnun fyrir að valda kvíðasjúklingi og bakverkjasjúklingi kvíða, óöryggi og stressi. Það var alveg nóg til staðar fyrir.

**********************************************

Samkvæmt reglugerð um örorkumat sem kærastinn fann á netinu, uppfylli ég staðalinn um 75% örorku bara strax við að haka við “Getur ekki setið án óþæginda”, þar fæ ég 15 stig. Það er svo vel hægt að draga saman í 12 stig í andlega hlutanum sem uppfyllir þá staðalinn tvisvar.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti
379/1999
Reglugerð um örorkumat.
https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/379-1999

Ef einhver vill draga í efa með að ég finni fyrir “óþægindum” þegar ég sit. Svona eins og læknirinn augljóslega gerði.

Sérstakur stóll í vinnunni
Bakpúði í bílnum
Bakpúði í vinnunni til að taka með á fundi
Bakpúði í sófanum heima sem ég ligg alltaf á (ég sit ekki heima hjá mér nema þegar ég borða),
Líkamskoddinn í rúminu sem ég nota líka í sófanum þegar ég er xtra slæm og get ekki legið án svakalegra verkja
Bakpúðarnir sem voru notaðir í annað en fá núna að ferðast með í leikhús, bíó og svo framvegis.

Leave a Reply