Álftavatn og Selvík – Paradís á jörð

Ég er svo gífurlega heppin að hafa fengið núna 5 ár í röð að eyða viku í Selvík við Álftavatn í Grímsnesi, en það er orlofshúsasvæði Landsbankans.

Ég algjörlega elska þennan stað.

Elska, elska, elska.

Álftavatn er mjög grunnt svo maður getur eiginlega vaðið það allt saman. Ótrúlega fallegt vatn og ótrúlega fallegar eyjar í því.

Ég eyði árlegu vikunni í að vaða í vatninu, synda í vatninu, fara á árabát út á vatnið og fara á kajak út á vatnið. Já og ganga um í Þrastarskógi.

Ég er hálf að vona að umsjónarmennirnir fari að hætta og ég geti fengið að taka við!

Fengi samt örugglega ekki að vera með hund þar, né önnur dýr. *dæs* Ég held það sé ekkert annað vatn á Íslandi sem er svona æðislegt. Þarf mögulega að fara að flytja til útlanda svo ég fái tvær óskir mínar uppfylltar. Að búa við stóran fallegan skóg til að ganga um í og fallegt vatn til að vaða í og synda í.

Er líka að hálf vona að ég verði svo heppin að eignast sumarhúsalóð þarna eða sumarbústað, alveg við vatnið. Ég væri meira að segja tilbúin að selja íbúðina mína og flytja bara þarna ef ég fyndi réttu lóðina eða rétta bústaðinn!

Ég myndi samt reyna að fá í gegn breytingu á götunafni. Neðan-Sogsvegar er með því óþjálla sem ég hef heyrt.

Ég var meira að segja að gæla við að reyna að hafa samband við eigendur þarna og athuga hvort einhver væri í söluhugleiðingum. En eftir að ég missti örorkubæturnar þá er það enn fjarlægari draumur en það var.

Landsbankinn er alveg klárlega á besta staðnum við vatnið, þeir eiga landið alveg við Þrastarskóg. Það er samt alveg spotti að göngusvæðinu um Þrastarskóg og það væri vel hægt að leyfa fleiri bústaði þarna við vatnið en Ungmennafélagið má ekki selja né leigja lóðir þarna. *hágrát*

Ég fór nokkrum sinnum á kajak, algjört morð fyrir bakið á mér en ég kældi það alltaf vel niður með að synda í vatninu eftir á. Elska að vera á kajak á þessu vatni.

Ég ákvað að prófa að ganga alla göngustígana, þeir eru margir illa eða ekki merktir svo ég fann ekki einn göngustíginn fyrr en eftir nokkrar tilraunir.

Ég fór líka út á árabát sem mér finnst líka mjög gaman. Ein helsta gleði pabba var að fara út á bát á Þingvallavatni að vitja um og alltaf þegar ég fer að róa á árabáti þá finnst mér ég vera að heiðra minningu pabba og vera nærri honum.

Í fyrra uppgötvaði ég að hægt væri að ganga á milli og í kringum allar eyjarnar, svo það gerði ég held ég 5 daga í röð! Í ár viðraði því miður ekki til þess þó að veðrið hafi verið framar vonum miðað við rigningar&skítakuldatíðina.

Leave a Reply