Elsku Ronja mín

Hún elsku Ronja mín fór yfir regnbogabrúnna í gær.

Þessi mynd var tekin rétt áður en við fórum til dýralæknisins.
F. 07. maí 2008 D. 5. febrúar 2019

Just this side of heaven is a place called Rainbow Bridge.

When an animal dies that has been especially close to someone here, that pet goes to Rainbow Bridge. There are meadows and hills for all of our special friends so they can run and play together. There is plenty of food, water and sunshine, and our friends are warm and comfortable.

All the animals who had been ill and old are restored to health and vigor. Those who were hurt or maimed are made whole and strong again, just as we remember them in our dreams of days and times gone by. The animals are happy and content, except for one small thing; they each miss someone very special to them, who had to be left behind.

They all run and play together, but the day comes when one suddenly stops and looks into the distance. His bright eyes are intent. His eager body quivers. Suddenly he begins to run from the group, flying over the green grass, his legs carrying him faster and faster.

You have been spotted, and when you and your special friend finally meet, you cling together in joyous reunion, never to be parted again. The happy kisses rain upon your face; your hands again caress the beloved head, and you look once more into the trusting eyes of your pet, so long gone from your life but never absent from your heart.

Then you cross Rainbow Bridge together….

Author Unknown

Ég vissi að þessi dagur myndi koma og ég vissi að hann yrði erfiður en vá hvað ég vildi óska að dýralæknirinn hefði bara gefið mér sömu sprautur og Ronju.

Ég er búin að vera að æla af vanlíðan og ég kem varla mat niður. Ég hef ekki grátið svona mikið síðan pabbi minn dó. Mig langar ekki til að lifa án hennar. Ég var búin að vera þunglyndislaus í um 5 ár en datt niður haustið 2017 og er búin að vera mjög sveiflusöm síðan. Mitt þunglyndi er þannig að ég dett alltaf í svakalega dauðalöngun. Ég vissi að þetta áfall yrði erfitt en þegar maður er ekki á góðum stað fyrir þá er áfallið enn verra.

Ég hef ekkert elskað jafn heitt og hana Ronju mína. Enginn í mínu lífi hefur verið mér mikilvægari en Ronja mín. Ronja var nefnilega miklu meira en bara hundur. Hún var mitt besta geðlyf, minn besti félagsskapur og ég get bara ekki ímyndað mér fullkomnari hund. Við vorum sennilega saman að meðaltali um 18 klukkutíma á dag alla hennar ævi. Ég væri ekki á lífi ef hún hefði ekki verið til staðar.

Ég myndi gefa aleigu mína til að fá hana aftur sem hvolp og eiga með henni önnur 10 ár.

Síðustu 6 mánuðir voru sérstaklega dýrmætir því ég var ekki að vinna og gat verið heima með Ronju næstum allan sólarhringinn. Það voru margir dagar sem ég vildi ekki skilja hana eina eftir eða sem allra minnst. Því heilsan hennar var mjög mis slæm síðustu 14 mánuði lífs hennar.

Síðasti mánuðurinn hennar var líka óendanlega dýrmætur því það kom snjór, sól og gott veður! Þó það væri kalt. En síðasta ár reyndist okkur Ronju oft erfitt því það var ekki gott að fara með hana mikið út í rok og rigningu. Mér fannst hún hressast við snjóinn og sólina.

Síðan í júlí 2008 get ég talið á fingrum mínum hve oft ég fór í göngutúr á höfuðborgarsvæðin og nágrenni ein. Það hefur ekki gerst að ég hafi farið ein út úr húsi mínu í göngutúr án Ronju. Ég hef farið þúsundi göngutúra í hverfinu, alla með Ronju.

Ég get að sama skapi talið á fingrum annarrar handar hve oft ég hef gist heima hjá mér eða á Kárastöðum án Ronju. Það hefur bara gerst ef ég hef verið að fara í næturflug.

Ég hef einstaka sinnum verið ein heima hjá mér allan þennan tíma, þá hefur Ronja verið hjá dýralækni, verið farin í pössun út af ferðalögum okkar eða Kjartan hefur farið með hana eitthvert.

Ronja svaf upp í hjá mér og lá annað hvort ofan á mér eða nálægt mér þegar við vorum heima.

Í rúm 10 ár hef ég alltaf hugsað um að hún væri ekki of lengi heima og því var hver einasti dagur hugsaður með það í huga. Það fóru oft miklar pælingar og skipulag í þetta hjá okkur Kjartani. Þetta var aldrei nein kvöð eins og margir halda. Það er engin binding að eiga hund ef það er það líf sem maður velur sér.

Ronja var í forgangi á þessu heimili. Ef ég lá á öxlinni hans Kjartans og var að horfa á sjónvarpið og hún kom og vildi liggja á bringunni á honum þá færði ég mig. Ef ég lá í sófanum og Ronja var steinsofandi á mér eða leið illa þá borðaði ég mat í sófanum sem Kjartan færði mér. Það okkar sem var undir Ronju hafði engin önnur verkefni en það, og hitt okkar sá um að það okkar sem var undir Ronju þyrfti ekki að standa upp heldur var rétt allt. Þetta var reyndar mun meira áberandi eftir að hún varð hjartveik fyrir rúmu ári síðan. Fyrir þann tíma voru allar stundir með Ronju dýrmætar en eftir að hún varð eldri og lasin urðu allar stundir enn dýrmætari.

Við ákváðum að fara ekkert erlendis í fyrra því við vildum eiga allar stundirnar sem við gátum með henni, vildum ekki leggja á neinn að sinna henni svona óheilsuhraustri og við vildum ekki lenda í að hún myndi veikjast alvarlega eða deyja meðan við værum úti. Við leyfðum okkur eina árlega sumarbústaðaferð þar sem hundar eru bannaðir því hún borðaði ágætlega á þeim tíma og við höfðum frábæra pössun þar sem beðið var um hana í pössun.

Ég get ekki lýst viðbrigðunum við að vera allt í einu án hennar. Þetta er dálítið eins og að hafa verið semi síamstvíburi en vera allt í einu einn.

Það er svo mikið tómarúm eftir.

Það er oft sagt að tíminn líði svo hratt en þegar ég hugsa til tímans sem ég átti með Ronju þá man ég varla eftir lífi mínu án hennar.

Ég ætla að skrifa hérna minningargrein um hana, aðallega bara fyrir mig til að eiga í framtíðinni. Því minningar dofna.

Það hjálpar mér líka að vera að skrifa þetta. Gefur mér tilgang, dreifir huganum frá sársaukanum þó ég sé að skrifa um Ronju, og eyðir tímanum sem virðist vera óendanlega langur.

Lífið með Ronju

Ronja kom inn í líf mitt í júní 2008 þegar ég og þáverandi sambýlismaður minn ákváðum að fá okkur hund. Við fórum á stúfana og fundum got hjá henni Maríu Tómasdóttur sem er með Ljúflings ræktunina. Gotið fæddist þann 7. maí 2008.

Ættbókarnafn Ronju er Ljúflings Æsa Brá. Mér fannst Æsa Brá fallegt nafn og íhugaði að halda því, en fyrrverandi var ekki sammála svo úr varð að Ronja varð Ronja.

Þann 16. júlí 2008 var hún orðin nógu stór til að flytja til okkar, á 10 vikna afmælisdaginn sinn. Vá hvað ég man gleðina. Ég hef bara aldrei elskað neitt jafn heitt frá fyrstu kynnum.

Ég meira að segja elskaði hana óendanlega þegar ég hleypti henni út í garð sem hvolpi að meðaltali 4-5 sinnum yfir nóttu til að hún gæti pissað. En ég tók þann pólinn í hæðina að fara alltaf með hana út þegar ég heyrði í henni frekar en að hún væri að pissa inni.

Sambýlismaðurinn þáverandi vildi alls ekki að Ronja væri uppi í húsgögnum og ég var algjörlega sammála því enda pempía fram í fingurgóma og gat ekki hugsað mér til dæmis að hafa hund upp í rúmi. Þvílíkur viðbjóður! Ég var líka alin upp í sveit þar sem hundar máttu í besta falli vera í forstofunni og hafði átt hund sem einmitt var bara úti eða í forstofunni. Nema reyndar þegar ég var ein heima þá kom hann alltaf og stalst til að leggjast fyrir framan hurðina mína. Ég hugsaði alltaf að hann væri að passa mig. Elsku Jerry minn.

Jerry
F. Vor 1989 D. 13. ágúst 2003

En já pempían ég var ansi snögg að skipta um skoðun um leið og Ronja kom á heimilið. Upp í rúm og sófa vildi ég þennan hund! En þáverandi var ekki á sama máli og Ronja fékk ekki að vera hjá mér uppi í rúmi nema einstaka sinnum þegar hún stalst til þess og þáverandi sá ekki til. Vá hvað það voru yndislegar stundir.

Ég eyddi fyrstu mánuðunum með henni liggjandi á gólfinu með henni eða með hana í sólbekk inni, en þar mátti hún liggja hjá mér.

Já ég var algjör gólfmotta á þessum tíma og hefði náttúrulega ekki átt að láta vaða svona yfir okkur Ronju. En sem betur fer breyttust aðstæður fljótt.

Þó ég hefði fengið Ronju þá var ég mjög þunglynd á þessum tíma, sem var einmitt helsta ástæða þess að við fengum okkur Ronju. Þó Ronja hefði hjálpað mikið þá endaði ég 4. janúar 2009 ein uppi í sumarbústað með svefntöflur og gasofn og ætlaði að binda endi á líf mitt. Ég var svo glöð að vera loksins loksins loksins komin á þennan stað. Að vera loksins loksins loksins að eiga minn síðasta dag, að ég ákvað að taka ekki svefntöflurnar því ég þyrfti þess ekki. Ég ætlaði bara að sofna út frá gasofninum og njóta þess.

En það fór augljóslega ekki alveg þannig. Ég fór að hugsa um alla þá sem þyrftu að upplifa sorg eftir að ég færi. Pabbi minn hefði tekið sitt eigið líf rúmum 4 árum fyrr. En það sem ég gerði loka útslagið með að ég stóð upp og opnaði út var að í einhverri rælni opnaði ég tölvupóstinn minn í símanum og sá að daginn eftir væri Cavalier ganga. Það var s.s hugsun mín um Ronju sem gerði loka útslagið.

Ekki það að ég hafi farið í þessa göngu því þáverandi vildi ekki fara með mér og ég var bara ekki í neinu ástandi til að fara ein með Ronju. En það er önnur saga.

Nokkrum vikum eftir þetta ákvað ég að hætta að vinna og fara að vinna í sjálfri mér. Ég fann ekki þann stuðning sem mig vantaði hjá þáverandi og mig langaði til að prófa að standa á eigin fótum svo ég batt enda á sambandið og flutti til mömmu.

Mamma hefur aldrei verið sérstaklega hrifin af dýrum innan dyra og ég var því smá óróleg með að vera að koma með Ronju þangað. En ég held það hafi verið á fyrsta kvöldinu okkar, þar sem við mamma lágum í sitthvorum sófanum að horfa á sjónvarpið og Ronja stóð á gólfinu og reyndi að komast upp í sófa en ég var eitthvað að reyna að fá hana af því, að mamma sagði en æj hana langar svo að vera uppi í sófa, viltu ekki leyfa henni það? Og upp frá þeim degi varð Ronja að þeirri dekurrófu sem hún átti fæðingarrétt til! Upp í sófa kom hún og upp í rúm kom hún! Þarna hefur hún verið um 9 mánaða gömul og þurft að hírast á gólfinu í um 7 mánuði. Alls ekki prinsessum sæmandi.

Ég fann strax þegar hún var komin svona í fangið á mér í sófanum og við lappirnar á mér í rúminu hvað það gerði mér gott og vildi óska að ég hefði fengið það fram strax í upphafi.

Við Ronja bjuggum hjá mömmu í sennilega um 10 mánuði en þá byrjaði ég á Hvítabandinu og ákveðið var að ég myndi flytja í íbúð kærasta mömmu tímabundið og hann myndi flytja til hennar. Hann var að vinna úti á landi og var alltaf hjá henni þegar hann var í fríi. Þar bjuggum við hamingjusamar í tæp 2 ár þar til ég keypti mér íbúð og þar bjó hún restina af lífi sínu.

Við Ronja bjuggum einar í mörg ár og ég hefði ekki lifað þau ár án hennar. Hún uppfyllti mína þörf fyrir félagsskap að ansi miklu leyti. Hún var alltaf til staðar. Alltaf til í knús og klapp og sótti mikið í það. Ef hún vildi fá klapp þá átti hún það til að finna höndina á manni og setja snoppuna undir og lyfta hendinni yfir hausinn á sér.

Íbúðin mín er í fjölbýlishúsi og er ekki með sérinngangi en þegar ég flutti inn fékk ég leyfi fyrir Ronju. Það voru 2 aðrir hundar í húsinu og eftir að við fluttum inn bættist nýir íbúar við með einn hundinn í viðbót. en svo þegar þau vildu bæta við öðrum hundi þá fór allt í lás og allt í einu var komið annað hljóð í fólkið hérna og engir fleiri hundar leyfðir í húsinu. 2 íbúðir voru seldar út af þessu en ég var bara ekki í fjárhagsaðstöðu til að flytja og við Ronja vorum bara nokkuð ánægðar 2 saman en mig langaði alltaf að fá mér annan hund, sérstaklega til að hafa einhvern eftir hjá mér þegar Ronja færi. Það var líka alltaf talað um að ég hefði leyfi fyrir einum hundi og þegar Ronja færi að ég myndi fá leyfi áfram fyrir einum hundi. En svo var bakkað með það allt saman.

Við skötuhjú höfum verið að leita að nýju húsnæði í alveg 1,5 ár núna en við finnum ekkert sem okkur langar í, sem við höfum efni á. Okkur langar í lítið parhús, raðhús eða einbýlishús með góðri lóð, nálægt skemmtilegum gönguleiðum en við höfum bara ekki fundið neitt. Okkur langar ekki að búa í hávaðasömu fjölbýlishúsi þar sem maður heyrir allt sem nágrannarnir gera. Við erum svo heppin hérna að meðalaldurinn er mjög hár, bara eldri hjón fyrir ofan okkur og íbúðin við hliðina á okkur tóm megnið af árinu. Við vildum frekar bíða og reyna að finna draumaheimilið, eða nálægt því, frekar en að flytja bara til að flytja. Ég hélt líka að við hefðum lengri tíma með Ronju.

Okkur dreymir líka um að flytja annað hvort við Álftavatn, í göngufæri við Þrastarskóg, á Kárastaði og taka við eftir mömmu, eða eignast vatnalóð í Skálabrekkulandi sem frændfólk mitt á en því miður er áhugi þeirra líka mikill og þau ætla ekki að selja neina lóð við vatnið. Ég elska vatn og tré og náttúruna og líður hvergi betur en í Þingvallasveitinni og við Álftavatn.

Ég var heldur ekki viss hvort að Ronja myndi sætta sig við að fá hvolp á heimilið, eftir að hafa verið svo mikil prinsessa alla sína tíð og heilsa hennar hafði ekki verið góð síðustu 14 mánuði lífs hennar. Svo þó ég hefði getað fengið mér annan hund þá er ég ekki viss um að ég hefði gert það. En vá hvað ég væri þakklát núna ef ég hefði annan hund til að hugga mig.

Ég er líka hrædd núna um að ég myndi alltaf bera saman nýjan hund við Ronju og að sá nýi myndi aldrei verða eins stór partur af mér. Sem væri öðruvísi ef hann hefði komið á meðan Ronja var á lífi.

Frá því ég skildi við fyrrverandi voru nokkrir karlmenn sem komu og fóru, sem voru mishrifnir af Ronju, og Ronja mishrifin af þeim.

En svo kom einn fyrir rúmum 5 árum inn í líf okkar og ég get alveg sagt ykkur það að ég er ekki alveg viss stundum hvort hann byrjaði með mér út af mér, eða út af Ronju. Hann algjörlega féll fyrir henni, og hún algjörlega féll fyrir honum. Hún tók hann oft fram yfir mig. Það stækkaði hjarta mitt einn meira. Ást mín á þeim báðum óx við að sjá þeirra samband.

Ronja elskaði Kjartan sinn mikið

Hann Kjartan minn átti erfiðara en ég með að neita Ronju um eitthvað. Ég var frekar ströng á mataræði við hana því ég hafði lesið svo mikið um að það væri ekki gott fyrir hunda að fá mjög mikið auka við þurrmatinn sinn. Þeir gætu bara fengið í magann af því og það væri bara ekki gott fyrir þá. Svo hún fékk oft eitthvað smá gott en ekki mikið í einu.

En Kjartan minn fór að verða afskaplega klaufskur eftir að hann fór að vera á þessu heimili. Allskonar matur bara óvart datt á gólfið, Ronju til afskaplega mikillar gleði. Það var heldur ekki mikið eldað á þessu heimili fyrir komu Kjartans sem útskýrði líka ákveðinn skort á góðgæti fyrir hana.

Við Ronja vorum líka með þá reglu að uppi í rúmi átti hún bara að vera við eða fyrir neðan rass því ég vildi ekki hafa hana uppi á kodda. Því var fljótlega breytt eftir að Kjartan kom á heimilið. Aðallega bara hans megin samt. Ég reyndi að halda í reglurnar mín megin og Ronja virti það, og fór bara upp á kodda Kjartans megin.

Persónuleiki Ronju

Ég er náttúrulega ekki alveg hlutlaus þegar ég segi að Ronja hafi verið besti hundur í heimi. En ég veit samt að fáir hundar hafi komist nálægt henni í því.

Hún var afskaplega blíð og góð við alla. Vildi alltaf heilsa öllum og var alltaf til í klapp og klór og til í að liggja í fanginu á hverjum sem er.

Hún vildi alltaf að allir væru saman. Ef við fórum í göngutúr og fórum í sitthvora áttina þá var hún ekki sátt og vildi bara elta hinn aðilann.

Hún var alltaf til í göngutúr og betlaði þá marga.

Hún gelti nánast aldrei og það fór svo lítið fyrir henni að það gætu liðið ár þar til fólkið í fjölbýlishúsinu fattar að hún er dáin.

Hún var með svakalega ADHD á sínum yngri árum. Það mikið að Helga Finnsdóttir dýralæknir gaf mér lyf fyrir hana. Ég vissi ekki einu sinni að ADHD lyf væru til fyrir hunda! En ég átti að gefa henni þau tvisvar á dag og ég var alltof oft að gleyma því og mér fannst ég ekki sjá þannig mun á henni. Ég leit líka alltaf á að þetta væri bara hennar persónuleiki og hún var stillt og góð heima við.

Ég ætlaði alltaf að eiga vel upp alinn hund. Fór með hana á 2 námskeið og ein æfingin var þannig að maður átti að ganga með hundinn við hliðina á sér þar til hún var komin fram úr þá átti maður að bakka og snúa við þegar hundurinn var kominn aftur að manni og endurtaka. Ég get svo svarið að það er far í göngustígnum þar sem ég æfði þetta þegar Ronja var hvolpur. Ég hefði örugglega getað þjálfað hana til að vera betri í innkalli en ég held samt að hún hafi bara verið þannig að hún hefði aldrei hlýtt alveg. Ég var líka einhvern veginn hrædd um að missa persónuleikann hennar ef ég færi að sýna henni mikinn aga.

Þegar hún var hvolpur á hvolpanámskeiði þá sátu eða lágu hinir hvolparnir rólegir meðan við vorum í bóklegu. Sváfu oft bara á borðinu, í fanginu á eigandanum eða á gólfinu. Ronja aftur á móti var glaðvakandi allan tímann, í svaka stuði og skildi bara ekkert í því af hverju það væri ekki meira stuð í okkur mannfólkinu, og hinum hvolpunum.

Ég verð samt að viðurkenni að ég var búin að steingleyma hve hyper hún var á sínum yngri árum fyrr en ég fór að skoða gömul myndbönd. Ég myndi giska á að hún sé kannski 1 árs þarna. Þó ég hafi alltaf elskað Ronju jafn heitt þá verð ég nú að viðurkenna að það var afar ljúft að geta sleppt henni lausri á hinum ýmsu stöðum án þess að eiga það á hættu að hún væri komin 2 km í burtu á núll einni.

Hún róaðist svo með aldrinum. Fyrstu árin hennar treysti ég henni aldrei að vera lausri svo hún fékk engar lausagöngur nema við værum í fjallgöngum langt frá byggð og svo seinni árin úti á Geldingarnesi. Hún var svo snögg að hlaupa og hvarf bara úr augsýn oft! En síðustu árin var hún orðin rólegri og við farin að leyfa henni að vera lausri á hinum ýmsu stöðum.

Uppáhalds minningarnar

Ronja að bíða eftir vatninu sínu
 • Þegar Ronja stökk upp í baðkar, eða upp á klósettið og þar upp á borð og beið eftir að skrúfað yrði frá krananum.
 • Þegar Ronja vildi klapp og setti snoppuna undir höndina á manni svo hún færi yfir á hausinn hennar.
 • Þegar hún settist fyrir framan útidyrahurðina og vildi fá göngutúrinn sinn.
 • Hver einasti göngutúr með henni.
 • Þegar hún lá ofan á mér. Ég oft tímdi ekki að færa mig svo ég lá mikið lengur en ég ætlaði og var oft orðin banhungruð og næstum pissandi á mig. Þetta gilti sérstaklega um síðasta árið hennar.
 • Þegar hún lá upp við mig uppi í rúmi steinsofandi.
 • Þegar hún betlaði mat. Þetta voru sérstaklega dýrmætar minningar eftir að hún hætti að vilja borða fyrir 9 mánuðum síðan.
 • Sældarsvipurinn á henni þegar hún fékk klappið sitt og klórið sitt.
 • Þegar hún stökk um eins og kanína í háu grasi eða miklum snjó.
 • Hún var alltaf falleg og yndisleg en auðvitað sérstaklega falleg og yndisleg þegar hún svaf.
 • Þegar hún gróf eitthvað og var með mold á nefinu.
 • Öll prakkarastrikin hennar.
 • Ástin sem hún sýndi mér, Kjartani og öllum sem hana hittu.
 • Blíðan í henni við lítil börn.
 • Þegar hún streittist á móti þegar ég reyndi að setja hana niður en hún vildi vera lengur.
 • Þegar hún var lítil og fannst voða sport að taka upp nærbuxurnar mínar af baðherbergisgólfinu og hlaupa með þær út í garð.
 • Að hún vildi alltaf vera með manni.
 • Þegar hún kom inn í sturtuna til mín og vildi fá að drekka. Hún var almennt annars ekki hrifin af vatni og böðun.
 • Lífsgleðin.
 • Henni brá alltaf svo þegar ég hnerraði (ég hnerra ekki mjög pent), hún átti til að stökkva alveg upp í sófanum og niður á gólf.
 • Hreystin í fjallgöngum. Meðan ég labbaði kannski 20 km fór hún örugglega þrisvar sinnum meira en það, og átti sko nóg inni.
 • Henni fannst gaman að liggja með mér eða án mín úti í sólbaði. Var stundum bara sofandi ein á sólbekknum.
 • Hún vildi alltaf að allir væru saman. Ef við Kjartan fórum t.d ekki að sofa á sama tíma þá átti hún það til að rápa á milli okkar þar til Kjartan kom upp í.
 • Á kvöldin þegar hún var þreytt þá vildi hún fara upp í rúm að sofa. Átti til að sitja bara fyrir framan svefnbergið og horfa á okkur, með svipnum: þið eigið að koma að sofa núna. Yfirleitt beið hún eftir okkur en einstaka sinnum fór hún ein að sofa uppi í rúmi.
 • Á morgnana átti hún til að vekja okkur því hún vildi fara fram í stofu og kúra þar. Þá ofan á manni. Fá fyrst smá klapp og klór og svo vildi hún bara sofa ofan á okkur.
 • Hún elskaði að borða snjó. Hún gat alveg gert okkur vitlaus að heimta mööööörgum sinnum á dag að fara út að fá sér smá snjó.
 • Ef stólarnir voru ekki settir upp við eldhúsborðið þá átti hún til að fara upp á borð og ná sér í smá mat. Einu sinni náði hún sér í smá pizzu, einu sinni í smá kjúkling. Einu sinni kom ég bara að henni sitjandi uppi á borði voða saklaus, ekkert til að borða þar samt.
 • Hún vildi alls ekki fara út að pissa eða gera stykkin sín í vondu veðri, bara ekki að ræða það. Einhvern tímann var ég veik og áttaði mig á því að hún væri ekki búin að gera neitt í næstum sólarhring því veðrið var svo vont. En hún var aftur á móti allltaf til í að fara í göngutúr, alveg sama hvernig veðrið var. Þar til hún var orðin eldri borgari reyndar, þá fannst henni rok og kuldi ekki sérstaklega skemmtileg blanda.
 • Hún varð þrjóskari með aldrinum og í staðinn fyrir að ég veldi leiðina þá fór hún að gera það. Hún bara stoppaði, spyrnti við fótum og þverneitaði að halda áfram ef það var ekki í þá átt sem hún vildi fara. Þetta var sennilega síðasta hálfa árið hennar.
 • Henni fannst gott að sofa upp við eitthvað. Þegar hún var yngri svaf hún oft á milli lappanna á okkur en þegar hún varð eldri fór henni að finnast betri að vera öðru hvoru megin við okkur. Hún svaf nú yfirleitt alltaf meira Kjartans megin, sérstaklega síðustu árin, því hann hreyfir sig minna og var því traustari að sofa upp við. Ég fékk mér svona líkamskodda til að sofa með út af bakinu og henni fannst voða gott líka að sofa við hann.
 • Ronju var yfirleitt ekkert rosalega vel við vatn eða að vera blaut. Var ekki hrifin af baðinu sínu og úti í rigningu átti henni til að verða bara kalt og fara að skjálfa. En allt í einu um ca miðjan aldur fór henni að finnast voða gaman að vaða og synda. Hún byrjaði á þessu í sumarbústaðaferð þegar hún var að elta einhvern fugl yfir á.
 • Átti til að grafa góðgæti eins og góðum hundi sæmir. Stundum úti í garði en oftar inni. Hún setti þá eitthvað í sófann eða út í horn einhvers staðar og mokaði svo yfir með trýninu, einhverju alveg ósýnilegu.
 • Hún vildi alltaf kúra eftir bað, sérstaklega síðustu mánuðina sína. Fyrst var hún þurrkuð með handklæði svo hljóp hún um að reyna að þurrka sig og nuddaði sér við blómapotta, sófa, ofna, veggi og fleira. Svo hoppaði hún upp á mann og fékk teppi yfir sig. Ef maður var ekki nógu snöggur upp í sófa þá sat hún og horfði á mann með augnaráði sem lýsti yfir óþolinmæði.
 • Þegar ég var á nagladýnunni fannst henni oft mjög gott að koma og kúra ofan á mér. Fyrst þá færði ég hana alltaf en síðustu mánuðina voru allar stundir dýrmætar og ég leyfði henni að liggja á mér.
 • Henni fannst voða gott að sofa ofan á töskum á gólfinu, bæði sem hvolpur og þegar hún varð eldri og mátti sofa hvar sem er.
 • Henni fannst voða gott að sleikja eyru og nudda sér upp við skeggið á Kjartani. Ég var ekki mikið fyrir að leyfa henni að sleikja mig en hún fékk einstaka sinnum að sleikja eyra eða nef, eða greip bara tækifærið stundum. Ég reyndi að fá hana til að sleikja mig síðasta daginn hennar en hún var bara of verkjuð til þess að sýna því áhuga.
 • Þegar hún var hvolpur stóð ég hana að því að vera að éta krækiber, bláber og hrútaber af lynginu. Ég vissi ekki fyrir þann tíma að hundar gerðu þetta eða hvort þetta væri í lagi! Hún gerði þetta alltaf af og til svo í gegnum tíðina. Bara síðast í haust.
 • Hún gat verið snillingur að stela af manni mat. Maður var kannski að fara að stinga einhverju upp í sig í sófanum og allt í einu var kominn hundskjaftur utan um hinn endann á því sem maður var að borða.
 • Ronja var elskuð af mörgum, en það voru margir sem voru ekki hrifnir af henni, sérstaklega ekki á hennar yngri árum þegar hún var dálítið æst og gat verið stressuð á nýjum stöðum eða við nýtt fólk.
 • Við vorum svo heppin að Ronja átti marga aðdáendur svo við vorum ekki í vanda með pössun. Einn passarinn ætlaði sko ekki að leyfa henni að vera uppi í rúmi en það tók Ronju bara eina kvöldstund að breyta þeirri ákvörðun.
 • Einu sinni kom Kjartan heim með gulan hjálm á hausnum og Ronju leist bara ekkert á þetta og gelti bara á hann.
 • Hún vissi alltaf muninn á göngufötum og venjulegum fötum. Þegar ég fór í göngufötin átti hún til að hoppa hæð sína í loft upp en ef ég fór í önnur föt átti hún til að fara bara inn í búrið sitt því hún vissi að hún væri ekki að fara með. En við búrvöndum hana sem hvolp og hún var alltaf glöð í búrinu þar til hún varð hjartveik fyrir ári síðan og þá hættum við að setja hana inn í búr. Hún átti til að fara inn í búrið að sofa á næturna eða fara þar inn ef ég fór í sturtu. Svo henni leið greinilega vel þar og leit á þetta sem sinn stað.
 • Hún slapp stundum út, sama hve varkár maður var þá nýtti hún öll tækifæri. Einu sinni var ég að máta kjól sem ég var nýbúin að kaupa, rauk út berfætt á eftir henni og hljóp einhverja hundruði metra þar til ég fann hana og náði henni. Yfirleitt dugði að veifa taumnum hennar til að hún kæmi hlaupandi. Því það var klárlega skemmtilegra að fara með manneskjunni sinni í göngutúr frekar en að vera einn laus úti.
 • Einu sinni hafði ég ekki fest beislið hennar almennilega svo það losnaði af henni og allt í einu var ég bara í göngutúr með beisli í eftirdragi!
 • Henni fannst gaman að leika við nágrannahundana en annars var hún ekki mikið fyrir aðra hunda, hún var yfirleitt meira fyrir hundaeigendurna. Ég tók að mér að passa aðra hunda eitt árið og hún var ekki sérstaklega hrifin af þeim. Virti þá eiginlega bara ekki viðlits.
 • Hún hjálpaði alltaf til þegar maður tók hana upp. Hoppaði upp með afturfótunum. Alveg til hennar síðasta dags.
 • Hún var yfirleitt í búri í bíl en fékk einstaka sinnum að sitja hjá manni sem hún kaus að sjálfsögðu fram yfir búrið. Ef hún fékk að sitja hjá manni frammi þá fannst henni mjög skemmtileg að horfa út en svo lagðist hún niður og lagði höfuðið oftar en ekki ofan á handlegginn á Kjartani sem var þá að keyra.
 • Hún fékk ca tvisvar að vera með höfuðið út á smá ferð og fílaði það sko í botn.
 • Oft var ég í tölvunni þegar hún kom og lagðist á bringuna á mér, þá sá maður ekkert lengur á skjáinn svo það eina í stöðunni var þá að sjálfsögðu bara að leggja frá sér tölvuna. Eða hagræða sér einhvern veginn. Maður færði ekki Ronju!
 • Stundum settist hún fyrir framan sjónvarpið sem þýddi að hún vildi athygli. Oftast göngutúr.
 • Hún gat verið mjög vanaföst ef það var einhver vani til staðar. Eins og í rúmt ár fórum við alltaf í göngutúr fyrir vinnu, um hálf 10 á morgnana. Þá var ekkert í boði að sofa út um helgar. Hún settist bara upp í rúminu og starði á mann þar til maður drattaðist á fætur og með hana út.
 • Ef það var enginn til að kúra með henni en það voru óhrein sængurver á gólfinu eða blaut svitastorkin gönguföt af mér, þá valdi hún að kúra þar frekar en uppi í sófa eða rúmi.
 • Einu sinni vakti hún mig eldsnemma uppi í sveit og ég elti hana fram. Þá vildi hún fara fram að gefa kettlingunum “sínum”. Það kom smá vökvi og allt úr spenunum. Ég hafði ekkert tekið eftir þessu og kettlingarnir voru fluttir upp í hesthús eftir þetta, enda áttu að verða útikettir.

Önnur minningabrot

Þegar Ronja hafði enn matarlystina
 • Hún var aldrei mikið fyrir að borða þurrmatinn sinn en gerði það nú alltaf samt framan af, aðeins með aldrinum þurfti að setja eitthvað smá gotterí út á hann þar til í vor þegar hún hætti að vilja að borða. Hún fékk stundum magaónot og vildi þá bara fara út að borða gras. Eða éta plönturnar mínar inni. En ég byrjaði að safna plöntum fyrir um 2 árum síðan og var fljót að sjá að ég yrði að safna plöntum sem væru í lagi fyrir Ronju eða setja þær þar sem hún næði ekki til.
 • Þegar Ronja fór að missa nætursjónina þá keyptum við næturljós með hreyfiskynjara fyrir hana og settum tröppu sem Kjartan smíðaði fyrir framan rúmið svo hún gæti hoppað upp á hana áður en þyrfti ekki að hoppa beint upp í rúm.
 • Síðasta rúma árið gáfum við Ronju tvenn lyf tvisvar á dag en ekki saman. Hún þurfti svo yfirleitt að borða klukkutíma eftir lyfin. Þetta var heljarinnar skipulag þegar ég var að vinna líka. En þetta gekk alltaf upp.
 • Síðasta sumar hafði ég svo miklar áhyggjur af henni því hún var farin að endast svo stutt í göngutúrum, kannski bara 1-2 km. Ég keypti þá IKEA bakpoka til að setja hana í, fékk gefins barnakerru fyrir hana og keypti moby wrap fyrir hana. En svo bara hresstist hún við aftur og ég held hún hafi bara tvisvar farið í bakpokann, aldrei í kerruna og bara mátað moby wrapið.
 • Hún fór svakalega úr hárum, alltaf. Talið var að það væri út af ADHD-inu í henni. Svo ég prófaði að láta raka hana einu sinni og Ronja var bara svo gífurlega hress með það. Hún var svakalega heitfeng og henni leið bara illa í fullum feld. Þá vildi hún ekki kúra mikið heldur lá bara á gólfinu á hliðinni og maður bara sá á henni að henni var heitt.

Lærdómur

Ronjukrútt lítil

Þegar ég eignaðist Ronju hafði ég bara átt sveitahund sem barn og kunni ekki alveg að eiga borgarhund og þurfa að hugsa sjálf alveg um hundinn.

Ég lærði ýmislegt á leiðinni sem mig langaði að skrifa niður.

Í fyrsta lagi þá er mjög mikilvægt að fara með hundinn í sprautur og ormalyf á réttum tíma. Ég er búin að vera að horfa á Dr. Jeff þætti á Animal Planet og hef séð hvað Parvo getur verið slæmt.

Í öðru lagi þá er mikilvægt að vera með réttan búnað ef maður á ofvirkan hund sem togar mikið í tauminn. Það er ekki gott fyrir hálsinn á hundunum ef fólk er bara með venjulega hálsól. Ég hef svo oft séð fólk bara með venjulega hálsól á hundinum og sárvorkenni hálsinum á þeim. Ég átti fyrst beisli þar sem taumurinn var festur að ofan en var svo ráðlagt að kaupa beisli þar sem taumurinn er festur á hálsinum. Mæli hiklaust með þannig.

Eftir að Snapchat kom til sögunnar tók ég fullt af myndum og videóum og sendi á Kjartan eða á alla vini mína. En vistaði fæst af því niður og það eru því tapaðar dýrmætar minningar. Ekki festast í að nota Snapchat heldur takið upp videó og myndir til að eiga! Ronja gerði fullt af krúttlegum hlutum næstum alla sína ævi en ég á ekki myndbönd af nema broti af því. Ég sé svakalega eftir því núna að hafa ekki verið duglegri að passa upp á svona minningar.

Ef hundurinn er eitthvað skrítinn farið alltaf með hann til dýralæknis eða hringið í einn. Myndi líka mæla með að skrifa niður einkenni og dagsetningar til að eiga fyrir framtíðina, svo maður geti rakið til baka hvenær eitthvað byrjaði.

Að tryggja getur verið gífurlega mikilvægt. Ég greiddi 130.394 kr í tryggingar. Ég fékk frá endurgreitt frá tryggingunum fyrir dýralæknakostnaði 392.307 kr. Ég veit ekki hvað ég borgaði sjálf því tryggingarnar borga aldrei allt.

Það þarf að gera ráð fyrir að það kosti að eiga hund.

Það er nauðsynlegt að tannbursta hunda alveg frá byrjun, eða gefa þeim eitthvað gott að naga fyrir tennurnar. Ronja var dugleg að naga fyrstu árin sín en svo bara einn góðan veðurdag hætti hún því. Ég held mögulega að það hafi valdið einhverjum óþægindum í tönnum. Hún vildi jú reyndar alveg fiskroð þar til fyrir svona ca ári síðan.

Það er nauðsynlegt að gera ráð fyrir kostnaði við tannsteinshreinsun ca 1 sinni á ári. Mismunandi eftir tegundum. Þetta er um 18-20 þúsund á ári. Getur víst orðið mjög dýrt ef það þarf að taka tennur eins og endajaxla. Muna samt að tannsteinn og tannskemmdir gerast hjá hundum alveg eins og okkur. Þó ég tannbursti mig tvisvar á dag þá safna ég miklum tannsteini.

Það er gott að gefa hundum glúkósamín eða eitthvað annað svipað þegar þeir eldast og fara að stirðna, fá gigt.

Það er gott að gefa þeim Pro-Kolin eða eitthvað svipað ef þeir eru gjarnir á að fá í magann.

Veikindi Ronju

Ronja var frekar heilsuhraust framan af. Hún fékk einu sinni slæma magapest og einu sinni flogakast. Hún var líka ekki með góðar tennur og þurfti að fara reglulega í tannsteinshreinsun frá ca 4 ára aldri og var ekki með mikið af tönnum eftir þegar hún dó. Hún var með vígtennurnar og nokkrar tennur fyrir aftan.

En Cavalierar eru því miður ekki meðal heilsubestu hundanna. Ég las einhvern tímann að ástæðan væri sú að í seinni heimsstyrjöldinni voru bara 6 eftir og allir Cavalierar sem til eru í dag eru undan þessum 6.

Þegar Ronja var 9 ára fór allt að fara niður á leið hjá elsku litla yndinu mínu. Um 9 ára afmælið tók ég eftir að það væri eins og hún væri að lóða en hún átti ekki að byrja að lóða fyrr en einhverjum mánuðum seinna og það var líka einhver skrítin útferð sem kom inn á milli. Eftir nokkrar dýralæknaheimsóknir og símtöl kom í ljós að þetta væru alvarlegar legbólgur og legið var tekið. Hún sýndi óvenju lítil einkenni miðað við svona alvarlegar bólgur, þess vegna kom þetta ekki í ljós strax. Hún fékk svo sýkingu í skurðinn og þurfti meðferð við því.

Hún var svo góð í nokkra mánuði eða þar til í október 2017. En við vorum þá í sveitinni meðan mamma var erlendis. Við fórum nokkra mjög góða göngutúra niður í þjóðgarð, alveg 11-13 km göngutúra og Ronja var bara mjög hress allan tímann þó ég yrði vör við smá þreytu inn á milli. En svo bara allt í einu varð ég vör við að hún var farin að vera með hrothljóð þó hún væri ekki sofandi og allt í einu gat hún ekki gengið meira en ca 2 km, þá var hún alveg uppgefin. Þetta gerðist bara á ca viku.

Ég fór með hana til dýralæknis út af þessu og út af því að hún var léleg að borða og oft með truflanir í maganum. En það var svo ekki fyrr en í janúar 2018 þar sem kom í ljós að þetta væri hjartamurrið sem væri komið og hún var sett á hjartalyf.

Stuttu seinna sáum við að afturlappirnar á henni voru farnar að skjálfa í göngutúrum. Í ljós kom að hún væri komin með vöxt í hrygginn sem var að valda henni sársauka þá bættust við verkjalyf. Þetta er víst ekki algengt í Cavalier, heldur algengari í stærri hundum.

Stuttu seinna hætti Ronja að vilja borða og síðustu ca 9 mánuðina borðaði hún ekki þurrmat. Aðallega bara mat sem Kjartan eldaði ofan í hana og það voru sko ýmsar steikurnar sem runnu niður í hana. Meðal annars fékk hún carpaccio! Stundum virkaði að gefa henni eitthvað gott að borða og hún borðaði þá sjálf en yfirleitt ekki. Þá þurfti að stinga upp í hana mat og oft loka munninum og strjúka undir munninn til að fá hana til að kyngja. Þá vildi hún oft borða eftir það, komin með smá í magann og smá matarlyst. En yfirleitt þurfti þá að handmata hana.

Það að gefa henni að borða þessa 9 mánuði gat oft verið alveg upp í klukkutíma verk. Stundum byrjaði maður á einhverju eins og eggjum en nei hún vildi það ekki, þá prófaði maður kannski hrátt kjöt en nei hún vildi það ekki, þá kannski prófaði maður slátur og hún vildi það. En daginn eftir vildi hún ekki slátrið en vildi kannski egg. Þetta var alveg svakalega erfitt tímabil. Maður vorkenndi henni og það var svo erfitt að vita ekki af hverju hún vildi ekki borða. Var hún bara lystarlaus, var henni illt í maganum, var henni illt í hryggnum, var henni illt í tönnunum, eða hvað var að valda þessu. Hún fékk stundum stera og það hjálpaði í byrjun með að auka matarlystina en hún andaði svo hratt og þungt á þeim.

Ég fór með hana til 4 lækna og örugglega yfir 15 sinnum síðasta árið. En aldrei fannst neitt sem var að valda lystarleysinu, ekki fyrr en síðasta föstudag.

En Ronja byrjaði að slefa í nóvember og ég var búin að fara með hana mörgum sinnum til dýralæknis út af því. Ekkert fannst að. Hún fór í tannsteinshreinsun í byrjun desember þar sem þurfti að taka 2 tennur en slefið hætti ekki. Hún fór í röntgen á tönnum fyrir 3 vikum, allt var í lagi þar.

En svo í síðustu viku var hún farin að kúgast oft og gat varla sofið út af þessu. Hún vildi mikið bara vera úti í skítakuldanum sem var mjög ólíkt henni. Hún vildi ekki koma inn úr göngutúrunum. Og á fimmtudaginn þegar Kjartan strauk af henni slef þá vældi hún og rauk undir sófa. Við áttum tíma daginn eftir og þar kom í ljós við ómskoðun að hún væri með sýkingu í munnvatnskirtlum og sennilega með æxli. Hún fékk heim sýklalyf og stera og ég var svaka vongóð því dýralæknirinn hennar var farinn þegar við sóttum hana og ég vissi því ekki þetta með æxlið fyrr en á mánudaginn þegar ég hringdi í hana. Þetta var sennilega búið að vera að grassera í hálft ár eða meira og sennilega ástæða þess að hún vildi aldrei borða.

Heimurinn hrundi. Við vonuðumst til að fá að vera með hana fram yfir helgi og fá að kveðja hana. Við áttum tíma á fimmtudaginn og ég vonaðist til að þar myndi koma í ljós að þetta hefði bara verið sýking sem væri farin og það væri ekkert æxli. En því miður fór það ekki svo. Henni versnaði svo hratt að við gátum ekki beðið eftir fimmtudeginum heldur fórum með hana í gær. Það var ekki hægt að skera þetta eða gera neitt við þessu. Ég er ekki viss heldur að ég hefði lagt þannig á hana, svona gamla.

Það var mikið á Ronju lagt síðasta rúma ári hennar.

Hún var líka orðin að mestu heyrnalaus og var farin að sjá illa.

Ég veit ekki hvort ég hefði gert rétt í að láta svæfa hana fyrr, en ég fór alltaf að ráðum dýralæknanna. En þeir vissu ekki af æxlinu fyrr en það var komið á það stig að Ronja var orðin það svakalega verkjuð að það fór ekki fram hjá neinum. Ég veit ekki hve mikið það var að trufla hana þessa 9 mánuði sem hún vildi ekki borða eða þessa 3 mánuði sem slefið lak úr henni. Hundar eru snillingar í að fela vanlíðan sína. Ég veit ekki hvort það hefði skipt einhverju ef æxlið hefði fundist fyrr. Það hefði samt sennilega undirbúið okkur betur undir endann.

Ég vona bara að hún hafi ekki þjáðst mikið og fangið og klórið okkar Kjartans hafi gert verkina bærilegri.

Hinn hinsti dagur

Við fórum með Ronju út á Geldinganes til að leyfa henni að njóta sinnar síðustu lausagöngu. En það var bara svo svakalega hvasst og nístandi kalt svo hún hljóp bara aðeins um á ströndinni en hljóp svo bara að bílnum og vildi komast inn. Eins og sjá má á myndbandinu var hún merkilega hress, sem gerði þetta allt saman enn erfiðara.

En í göngutúrnum deginum áður hefði hún einmitt bæði hlaupið að bílnum þegar við vorum að fara í göngutúrinn og koma úr honum. Ég veit ekki af hverju, hún hafði aldrei gert þetta áður. Hún vissi sko alveg hvaða bíll væri sinn. En hvert hún vildi fara veit ég ekki. Kannski vildi hún bara komast inn í hann til að komast eitthvert inn eða kannski hafði hún einhverjar skoðanir á hvern hún vildi heimsækja eða hvar hún vildi labba. Ef bara Ronja hefði getað talað.

Eftir Geldinganes fórum við með hana til mömmu Kjartans sem þótti svo vænt um hana, til að leyfa henni að kveðja og bróðir Kjartans kom líka til að kveðja. Þetta var fullkomin stund því Ronja lá lengi í fanginu á mér. Þegar við ætluðum að fara stóð ég upp og ætlaði að setja hana niður en hún bara þrýsti á móti og vildi ekki að ég setti sig niður. Svo ég settist aftur með hana og við áttum enn lengri æðislega stund saman. En svo vildi hún fara og liggja ein og við fórum með hana heim þar sem hún skyldi ekkert í allri þessari athygli og uppáþrengni og vildi bara sofa ein í hennar skoti í sófanum. Allur sófinn var sko hennar en hún átti sér skot þar sem enginn sat eða lá eða neitt dót var sett í. Þar lágum við hjá henni, klöppuðum henni, dáðumst að henni, tókum myndir af henni og leyfðum henni að sofa aðeins þar til tíminn var kominn.

Þunglyndi

Ég er búin að vera að glíma aftur við þunglyndið sem hvarf alveg frá 2012-2017. Helstu ástæðurnar fyrir þunglyndinu er króníska ógleðin sem hefur rænt mig getu minni til að gera hluti sem ég elska eins og að dansa og hefur rænt mig getu minni til að stunda loftfirrtar þolæfingar sem er það eina sem getur haldið mér frá þunglyndi.

Einnig fundum við yfirgefinn kettling í einum göngutúranna haustið 2017 og mig langaði svo til að eiga hann og þeim Ronju kom svo vel saman. En ég vissi að fólkið í fjölbýlishúsinu myndu aldrei leyfa tilveru hans hérna svo ég lét hann frá mér grátandi til Villikatta. Það var eiginlega allt niður á móti eftir það.

Heilsa Ronju hafði svo náttúrulega mikil áhrif á mig. Ég hélt oft að hún væri að fara frá okkur síðasta rúma árið. En alltaf braggaðist hún inn á milli og ég bjóst við að hún myndi lifa allavega út haustið.

Húsnæðismál valda mér líka mikilli vanlíðan, að mega ekki gera það sem maður vill heima hjá sér eins og að fá sér hund og kött hefur valdið mér mikilli vanlíðan. Mér finnst dálítið eins og maður sé í fangelsi. Að finna ekki húsnæði sem mig langar í veldur líka vanlíðan. Svo er ég bara svo vanaföst, elska staðsetninguna á íbúðinni minni og elska íbúðina mína og langar bara ekki til að flytja en neyðist til þess út af fólkinu í fjölbýlinu.

Ég var líka í vinnu sem ég var ekki ánægð í. Ég hélt stundum að ég hefði verið ráðin til að fyrirtækið gæti sagst vera með öryrkja í vinnu eða til að geta sagst vera með manneskju í minni stöðu í vinnu. Ég var reyndar komin í smá verkefni í annarri deild sem var mjög skemmtilegt með frábærum hópi og frábæru skipulagi. Ég vildi óska að ég hefði verið ráðin þar inn frá upphafi. Ég get alveg sagt ykkur það að vera í vinnu sem maður er ekki ánægður í er algjörlega mannskemmandi. En ég var bara svo þakklát fyrir frjálsa vinnutímann sem gaf mér tíma til að hugsa um Ronju þegar hún þurfti á því að halda og ég var svo hrædd um að fara eitthvað annað. Fyrir utan það að vera öryrki í leit að hlutastarfi er eins og að leita að nál í heystakki.

Ég var búin að vera að vinna mjög mikið að heiman út af heilsu Ronju og heilsa mín var búin að vera mjög slæm. Ég var búin að vera hálf sofandi megnið af árinu 2018, í B12 sprautum, járn ígjöf og fleira. Ég var í raun ekki vinnufær megnið af árinu 2018 og er ekki búin að vera að vinna það sem af er ári.

Mig hefur ansi oft síðasta 1,5 árið ekki langað til að lifa lengur og í morgun er ég búin að gera eitthvað sem ég hef ekki gert árum saman, að gúgla sjálfsvígsaðferðir. Svakalegt hvað það eru komnar meiri og betri upplýsingar en þegar ég skoðaði þetta síðast fyrir mörgum mörgum árum. Ég vildi bara óska að maður gæti gert þetta auðveldlega. Ég er bara ekki nógu hugrökk til að binda endi á líf mitt. Ef ég gæti farið til dýralæknisins og látið hann um þetta þá myndi ég ekki hika.

En ég veit ég gæti ekki gert Kjartani mínum þetta og ég veit að þetta mun vonandi líða hjá. Það er bara svo erfitt að vinna sig upp úr þunglyndinu þegar eina leiðin sem maður kann er ófær vegna ógleðinnar.

Framhaldið

Tvær steinsofandi í sveitinni

Mig langar í annan hund. Eða nei mig langar ekki í annan hund. Mig langar að hafa Ronju mína hjá mér.

En ég kann ekki lengur að eiga ekki hund.

Ég kann ekki, og finnst bara hundleiðinlegt og tilgangslaust, að fara ein í göngutúr í hverfinu.

Ég kann ekki lengur að sofa án hunds.

Ég kann ekki lengur að vera ein heima hjá mér.

Tíminn líður svo ógnarhægt þegar maður hefur ekki félagsskapinn og tilganginn.

Ég kann ekki, og finnst bara hundleiðinlegt og tilgangslaust, að fara ein í göngutúr í hverfinu. ég kann ekki lengur að sofa án hunds. Ég kann ekki lengur að vera ein heima hjá mér. Tíminn líður svo ógnarhægt þegar maður hefur ekki félagsskapinn og tilganginn.

Margir klukkutímar á dag fóru í að viðra Ronju, klóra henni og klappa og liggja undir henni. Ómetanlegir klukkutímar dag eftir dag, í meira en áratug.

Ég fór í einstaka göngutúr áður en ég eignaðist Ronju en ég held ég geti alveg sagt að eftir að ég eignaðist Ronju þá hafði ég farið á meðal ári í fleiri og lengri göngutúra en allt líf mitt þar áður til samans.

Mig langar aftur að eiga Cavalier. Því þeir eru svo blíðir og góðir og fullkomnir. Nema heilsufarið á þeim er ekki gott og ég veit ekki hvort ég geti réttlætt það fyrir mér að fá mér annan Cavalier. Sá Cavalier gæti fengið hjartamurr á fyrstu árum sínum, og alla hina kvillana.

Ég veit bara ekki hvaða tegund önnur ætti að koma til greina. Hvaða tegund hefur ljúfleika Cavaliersins en ekki heilsufarsvandann. Hvaða tegund sé eins mikill kúrari og Cavalierinn. Eins og Ronja.

Ronja, ég elska þig, þú munt alltaf eiga þinn risastað í hjarta mínu. Ég trúi ekki endilega á eftirlíf en ég hugsa samt um þig hlaupandi um í fallegu grasi og sé þig svo í fanginu á feðrum okkar Kjartans þar sem þú færð dagsskammtana af klappi og klóri.

Ég vil þakka öllum sem elskuðu Ronju og öllum sem pössuðu Ronju innilega fyrir allt. Hún elskaði ykkur öll til baka og var svo glöð hjá ykkur öllum.

Halló! Ekki sofa! Út að ganga!

Leave a Reply