Lífið og tilveran

Árum saman var ég svakalega opin með allt og bloggaði eins og vindurinn. En undanfarin ár hef ég sjaldan haft þörf fyrir það, og orðin feimnari einhvern veginn.

En þegar Ronja dó þá fann ég þessa skrifþörf aftur og eyddi fyrstu 3 dögunum eftir að hún dó í að skrifa um hana. Það hjálpaði mér rosalega mikið, gaf mér eitthvað að gera og það var gott að rifja upp minningar og skoða myndir og myndbönd. Mig langaði líka til að eiga þessa minningu um hana í framtiðinni.

En ég ákvað þá að birta færsluna ekki. Fannst þetta of persónulegt, hallærislegt, vildi yfirfara þetta betur, og svo hugsaði ég ég líka hver vill lesa ca 700 blaðsíðna minningargrein um hund. Það þyrfti nokkur eintök af Mogganum undir þetta! ;)

En ég ákvað að gera færsluna opna. Ef einhver hefði áhuga á.

Tek fram að geðheilsan er mikið betri í dag. Ég byrjaði á geðlyfjum sem ég hafði verið án í örugglega um 8 ár, þau komu mér yfir það versta þó Kjartan greyið þyrfti að eiga mjög dofna kærustu í nokkrar vikur. Ég var eins og hálfgerður zombie. Þið hefðuð átt að heyra gleðina þegar ég fór að pússa skítugan baðherbergisspegil.

Ég fékk yndislegan cavalier í pössun sem eiginlega bjargaði bara geðheilsunni minni. Ég er einmitt að horfa á hann steinsofandi núna.

Það voru svo margir búnir að segja að það væri svo erfitt að fá sér nýjan hund því maður væri alltaf að bera þann nýja við þann sem maður missti, og sá nýi myndi aldrei standast samanburðinn. Ég komst að því að það er bara algjört bull.

Ég er búin að vera að passa yndislegan hund sem mér þykir orðið mjög vænt um. Ég ber hann mjög mikið saman við Ronju en það er ekki á betri eða verri hátt. Hann er bara öðruvísi. Þegar ég eignast aftur hund þá verður það eins. Það kemur enginn í staðinn fyrir Ronju, það myndast bara nýr staður fyrir nýjan hund.

Ég sakna Ronju óendanlega og dagarnir eru sveiflugjarnir en tíminn læknar öll sár.

Ég lít bjartsýn til framtíðarinnar. Ætla til útlanda í vonandi um 7 vikur, svo í sumarbústað í 1 viku. Ætla að fá hvolp í sumar og vonandi fer draumahúsnæðið að detta á markaðinn. Eða við byggjum það bara! Svo þyrfti ég svo að fara að komast í vinnu!

Leave a Reply