Brjósklosaðgerðin

Bakið á mér er ekki orðið gott eftir aðgerðina, en það var eiginlega ljóst fyrirfram. Brjósklosið var orðið svo risastórt að ef það hefði stækkað meira þá hefði ég getað farið að missa stjórn á hægðum og tilfinningu í nærbuxnalínu samkvæmt læknanema sem ég talaði við. En vonandi mun ég geta komið bakinu í lag núna án þess að brjósklosið sé að skemma fyrir mér.

————————
Brjósklosaðgerð tekur heilar 20 mínútur! Ég var voðalega stressuð fyrir hana og langaði ekkert til að fara en þetta var svo ekkert mál.

Ég fór á miðvikudeginun upp á spítala og talaði við svæfingalækni, aðstoðarlækni og hjúkrunarfræðing. Ég var ekki nógu ánægð með svæfingalækninn sem sagði þegar ég sagðist vera stressuð og að mig langaði alls ekki í aðgerðina að ef ég myndi fara til sjúkraþjálfara þá þyrfti ég ekkert á aðgerðinni að halda og sagði svo að ég væri svo ung og ég væri með léleg gen greinilega ! Eftir að hafa talað við hann þá lá við að ég væri hætt við aðgerðina ! En fór svo og talaði við yndislegan aðstoðarlækni sem ætlar að verða geðlæknir og myndi ég sko alveg vilja hafa hana sem geðlækninn minn, var mjög áhugasöm t.d um að ég hefði verið að læra árvekni. Hún sagði að ef brjósklosið (“risastóra brjósklosið”) myndi stækka meira þá gæti það farið að þrýsta á taugarnar og gæti valdið því að ég myndi fara að missa stjórn á þvagi og hægðum og missa tilfinningu í nærbuxnalínu og gæti valdið varanlegum skaða. Já nei takk, ég sannfærðist alveg eftir þetta að aðgerðin væri málið, kann vel við að hafa tilfinningu allstaðar og stjórn á hægðum. Ég fór svo heim með upplýsingabækling og blöð um mætingu og fleira.

Tókst að fara að sofa fljótlega eftir miðnætti og vaknaði hálf 7 í dimmri íbúð en rafmagninu hafði slegið út um nóttina, sem betur fer þurfti ég bara að slá upp lekaliðanum í íbúðinni en ekki niðrí geymslu. Var frekar kvíðin fyrir þessu öllu en besti vinur minn undanfarnar vikur var á msn og það dreifði huganum og hressti mig að tala við hann (takk S.K fyrir allt!). Guðrún frænka kom svo og sótti mig um 7:20 og við vorum komnar upp á spítala um 20 mínútum seinna. Þá fór ég í sturtu og svo upp í rúm, um 8:45 var komið og náð í mig. Fór þá niður á skurðdeildina og þar fékk ég einhver lyf og saltvatn í æð og svo var ég bara svæfð. Ætli aðgerðin hafi ekki verið búin fyrir 10 og þá fór ég á vöknun, vaknaði þar með gífurlegan skjálfta í öllum líkamanum, fannst það mjög óþægilegt og hann var frekar lengi en svo hætti hann. Var komin upp á stofu um hálf 1 og fékk þá loksins eitthvað að drekka. Svaf svo að mestu fram að kvöldmat sem var um 7 leytið. Fiskibollur með kartöflum og belgbaunum eða eitthvað álíka, hefði verið betra með sósu en það mátti slafra þessu í sig. Fékk “appelsínusafa” með, veit ekki alveg hverjum datt í hug að kalla þetta appelsínusafa, smakkaðist eins og blanda af goslausu vondu appelsínu og vondu appelsínudjúsi. Fékk svo tekex með smjöri og osti aðeins seinna. Um kvöldið las ég bara og svaraði sms-um, uppfærði facebook statusinn einhvern tímann um daginn. Morguninn eftir var ég svo vöknuð um 6 leytið, dottaði eitthvað fram að morgunmat samt og fékk brauð með smjöri og osti og ógeðslegt hálft epli og hrikalega vondan hafragraut í morgunmat.

Annars gekk aðgerðin bara mjög vel, ég var með mikinn dofa í hægri löppinni, neðst, sem er alveg eðlilegt eftir svona aðgerð (það jafnaði sig smá saman á nokkrum mánuðum, það er samt enn smá óstöðugleiki í henni). Svo voru vandamál með þvagblöðruna, var ekki að ná að tæma hana almennilega, var ómskoðuð alveg 6 sinnum held ég en það var alltaf minna og minna magn eftir í henni svo mér var hleypt heim á áætluðum tíma. Hitti lækninn og sjúkraþjálfara í morgun, fór svo í sturtu og Rúnar kom og sótti mig rúmlega 11. Sjúkraþjálfarinn var voða hissa þegar hún spurði hvort að doðinn væri meiri eða minni en fyrir aðgerð og ég sagði að það hefðu ekki verið neinir verkir eða doði í löppunum og spurði mig hvort ég hefði ekki örugglega verið í brjósklosaðgerð. Víst mjög óalgengt að þeir sem komi í aðgerðina séu með sprækar lappir.

Svo þarf ég bara að taka því rólega í nokkrar vikur, gera nokkrar æfingar sem sjúkraþjálfari fór yfir með mér. Svo eru það bara göngutúrar, göngutúrar, göngutúrar. En Aron skurðlæknir sagði að sjúkraþjálfun væri alveg fín en það sem er lang gagnlegast eru göngutúrar.

Mér fannst svo áhugaverð þessi mynd af brjósklosinu, enda allir alltaf að spyrja út í hvað brjósklos er og svona svo ég bað hann Aron um að prenta út mynd fyrir mig, sem hann gerði með glöðu geði :-) Er s.s með 2 brjósklos á myndinni, þetta efra var tekið (stóra svarta bungan neðarlega á myndinni, í hvítu línunni), hitt er ekki neitt neitt og verður vonandi ekkert verra og er fyrir neðan.

brjosklos

skurdur

Leave a Reply