Geðheilsupistill: Listin að njóta lífsins

Höfundur: Guðmundur Helgi Helgason (birt hér með leyfi hans)
Skrifað: 12.5.2009

Það er nokkuð öruggt að flest okkar upplifum mjög mikinn hraða í samfélaginu í dag, ef eitthvað, virðist hann vera hraða á sér. Við erum með allar þessar tölvur, síma og sjónvörp, tæki sem virðast vera orðin lífsnauðsynleg. Helst þurfum við að gera marga hluti í einu, borða og lesa OG horfa á sjónvarpið á sama tíma. Hverjar eru helstu afleiðingarnar?

Við gleymum oftar hvað við vorum að gera. Hver stund sem við lifum er oft á tíðum hálf stund, þar sem athyglin er dreifð á marga staði. Þetta býr til þannig áhrif að maður tekur lítið eftir mörgum hlutum sem veldur því að fáir af þeim eru skráðir sem mikilvægir hlutir í minnisskráningunni.

Við tökum ekki tímann til að virkilega njóta augnabliksins sem við erum að upplifa, sem sagt lífsins.
Stór partur af athyglinni fer í að finna lausnir í framtíðinni, svo ákaft að við gleymum stundinni sem við erum í hér og nú. Og kaldhæðnislega við þetta er að fyrir mörgum er hugtakið “núverandi stund”, aðeins hugtak, athyglin er sokkinn svo djúpt inn í hugtakaheiminn, að raunveruleikinn um finna fyrir núinu er orðið að furðulegri hugmynd, jafnvel klysju. “Lifa í núinu? Come on, núið er boring! Það er í raun bara nokkrar nanósekúndur, enginn upplifir núið!” Frekar fyndið verð ég að segja.

En það er eins og þessi menning gerir okkur sífellt erfitt að njóta einfaldra hluta, t.d. eins og facebook, sem veldur því að einfaldir hlutir eins og að njóta stundar með góðu rauðvínu eða góðrar máltíðar verður að mikilli áskorun, því við verðum að gera marga hluti í einu!

Þá er það spurningin, afhverju þessi hraði? Er hann einfaldlega að gerast fyrir okkur? Eða erum við að búa hann sjálf til? Ég held að seinna svarið sé mun líklegra. Ef svo er, afhverju erum við að því? Afhverju erum við að drífa okkur svona? Og fyrir hvað? Áður en við deyjum? Við getum dáið hvenær sem er, þannig að þetta er frekar mikið áhættu hlaup.

Ég skal samt vera alveg raunsær, við erum eflaust ekki að fara að hægja á okkur í bráð. En ég held að það sé gott fyrir okkur að íhuga hvort við séum í raun hamingjusöm með lífið okkar. Í alvöru, ekki bara sami gamli pollýönnu leikurinn þar sem maður gubbar út úr sér “já lífið mitt er fínt” á meðan maður er að mygla allur að innan. Þetta snýst ekki um að líta vel út þegar áfram er litið, því útlitið eitt og sér og ytra atferli færir manni ekki þá gleði og ánægju sem fylgir því að líða virkilega vel að innan.

Það sem ég held að sé að gerast í dag, nota bene, ekki mín persónulega uppgötvun, er að ástæðan fyrir afhverju flest okkar erum ekki svo hamingjusöm og uppfyllt í dag (og jafnvel farin að sætta okkur við þá staðreynd) er að athyglin hjá okkur eru útum allt, hún stoppar aldrei, hún er eins og þeytandi hvirfilvindur sem tætir allri gleði og frið í huganum. Afrakstur þess er þreytt, eirðarlaus, stressuð, gleymin og áhyggjufull manneskja.

En ég held að okkar náttúrulega ástand sé að vera hamingjusöm, friðsöm, glöð, skapandi, og að vera virkilega full af lífi og virkilega njóta þess! Og ég held að það þurfi ekki að vera flókið, þó að við höldum það flest öll.

Við þurfum að minna okkur á að við höfum val, þó við veljum oft ósjálfrétt og ómeðvitað, þá höfum við það. En fyrst þurfum við að vita hvað við viljum virkilega fá út úr þessu lífi.

Flestum finnst gaman að njóta þess að borða, njóta náttúrunnar eða góðs félagsskapar. Og í raun galdurinn við að njóta lífsins en betur, er að gefa hverri stund meiri athygli, gefa matnum meiri athygli, manneskjunni sem er með þér, náttúrunnar og jafnvel þínum eigin líkama.

Það sorglegasta sem ég veit um er að fara í gegnum lífið en án þess að hafa virkilega tekið eftir augnablikinu sem maður var í. Allt sem við gerum í raun, er ekki fyrir framtíðina, heldur til að gera stundina sem lifum og hrærumst í en dýpri og ánægjulegri. Það er ekki það sama og forðast erfiðar áskoranir og gera eitthvað létt í staðinn, heldur að gera það sem þú þarft að gera, en ekkert umfram það. Að gera meira eða minna, framkallar eirðarleysi og spennu. Líkaminn og hugurinn lætur okkur vita þegar við erum að gera of mikið eða of lítið. Ef við erum eirðarlaus, þá erum við að gera of lítið af því sem við þurfum að gera. Ef við erum spennt, þá erum við að gera of mikið af því sem við þurfum að gera.

Málið er að lífið okkar er svo þéttskipað og þétt, svo mikið um að vera, að eftir að honum líkur, munum við varla neitt oft. Hverskonar líf er það? Virkar hálf þokukennt og óskýrt.

Þannig, ég held að málið sé að velja ákveðinn tíma yfir daginn þar sem athyglinni er miðað að því sem er að gerast hér og nú, sama hvað það er. Virkilega leyfa stundinni að fylla upp athyglina. Víkka athyglina út, búa til aukið rými, sem er meira frelsi eins og segir í auglýsingunni. Það er ekki að eiga fleiri hluti, heldur að slaka á athyglinni yfir í núverandi augnablik. Marineraðu þig upp úr þessu augnabliki, gerðu það að þinni hugleiðslu. Maður þarf í raun ekki að hugleiða til að vera hamingjusamur, maður getur gert hvert einasta augnablik að hugleiðslu og byrjað að njóta þess meira.

Prufaðu bara, þetta er alvöru chill.

Leave a Reply