Geðheilsupistill: Það vantar meiri vakningu í þjóðfélaginu

Minn draumur er:
– að það verði enn meiri vakning í þjóðfélaginu.
– að fólk með geðraskanir fái enn meiri hjálp og endurhæfingu.
– að grunnskólar landsins muni uppfæra námskrá sína og leggja meiri áherslu á að ala upp líkamlega og andlega heilbrigða einstaklinga og fyrirbyggja þar með geðraskanir.
– að fordómar gagnvart geðröskunum minnki.

Við eigum nefnilega svo langt í land!

Talið er að einn af hverjum fimm upplifi depurð eða þunglyndi einhvern tímann á ævinni. Þunglyndi er samkvæmt WHO talið vera fjórða stærsta heilbrigðisvandamál heimsins og er talið fara vaxandi. Þriðjungur fær bót af lyfjum, þriðjungur einhverja bót, en þriðjungur enga.

Ég las frétt á mbl.is um daginn sem endaði svona:
“„Þunglyndi hefur verið til í margar aldir, en málið er að við erum ekki að gera neitt í því,“ segir Saxena. Hann bendir á að þar sem ákveðin skömm fylgi sjúkdómnum þá fái aðeins tæpur helmingur þeirra sem þjáist af þunglyndi viðeigandi hjálp. Í sumum löndum fá aðeins tæp 10% nauðsynlega aðstoð.”
Saxena er yfirmaður geðheilbrigðis- og vímuefnasviðs WHO (Alþjóða heilbrigðisstofnunin)

Þetta er svo sorglegt á svo marga vegu. Lausnin er nefnilega ekkert flókin. Lausnin felst í því að stunda andlega og líkamlega rækt alla ævi og vera félagslega virkur. En skilgreining WHO á heilsu er einmitt: Líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki bara það að vera laus við sjúkdóma og örorku.

Lausnin felst, að mínu mati, í því að endurhugsa skólakerfið og heilbrigðiskerfið og bjóða öllu ungu fólki og öllum með geðraskanir upp á:
– Daglega hreyfingu (því meiri ákefð því betra)
– Hugleiðslu
– Hugræna atferlismeðferð
– Mindfulness
– Slökun
– Dale Carnegie námskeiðið
– Hollt og gott mataræði
– Markmiðasetningar
– Stækka þægindahringinn
– Örnámskeið eins og: styrking sjálfstrausts, styrking sjálfsvirðingar, mikilvægi þakklætis o.fl.
– Félagslega viðburði
– Návist með dýrum
… og milljón og tíu fleiri hluti til að ala upp líkamlega og andlega heilbrigða einstaklinga!

En já þetta er allt frekar óraunhæft! ;-) En vá hvað ég hefði þurft að vera í svona grunnskóla… Þá væri ég sko á allt öðrum stað í lífinu í dag! En sem betur fer hef ég uppgötvað þetta allt sjálf síðustu árin.

Þetta myndi án efa skila líkamlega og andlega heilbrigðara fólki úr skólakerfinu.
Þetta myndi koma fleira fólki út á vinnumarkaðinn og fækka öryrkjum.

Þetta allt sem ég tel upp hér að ofan bjargaði lífi mínu. En ég tilheyri þeim þriðjungi sem fékk enga bót af lyfjum.

Kærleikskveðja,
Linda Rós

Leave a Reply