Atvinnuleit

Ef einhver veit um einhvern sem vantar starfsmann í ca 30-50% starfshlutfall þá endilega pikkið í mig.

Gæti t.d hentað litlum fyrirtækjum sem vantar smá aðstoð af og til, en hefur ekki efni né þörf á fullum starfsmanni.

 • Væri frábært ef vinnutíminn væri sveigjanlegur.
 • Væri frábært ef hægt væri að vinna eitthvað að heiman.
 • Væri frábært ef ég gæti verið í fríi á sumrin, eða unnið minna, og unnið meira á veturna.
 • Væri frábært ef það væri íþróttastyrkur og samgöngustyrkur.
 • Væri frábært ef hundur væri velkominn með.

Fyrirtæki á almennum markaði fá 75% af launum og launatengdum gjöldum endurgreidd með vinnusamningi öryrkja.

Sem þýðir t.d að ef ég væri með 200.000 kr. í laun, sem eru
241.416 kr. með launatengdum gjöldum þá fengi vinnuveitandi 181.062 kr. endurgreiddar og væri því að greiða 60.354 kr., það munar um minna!

Ég gæti hafið störf í haust.

Ferilskrá mín, reyndar ekki uppfærð síðan 2016.

LindaRosHelgadottir_1904803999.pdf

Lífið og tilveran

Árum saman var ég svakalega opin með allt og bloggaði eins og vindurinn. En undanfarin ár hef ég sjaldan haft þörf fyrir það, og orðin feimnari einhvern veginn.

En þegar Ronja dó þá fann ég þessa skrifþörf aftur og eyddi fyrstu 3 dögunum eftir að hún dó í að skrifa um hana. Það hjálpaði mér rosalega mikið, gaf mér eitthvað að gera og það var gott að rifja upp minningar og skoða myndir og myndbönd. Mig langaði líka til að eiga þessa minningu um hana í framtiðinni.

En ég ákvað þá að birta færsluna ekki. Fannst þetta of persónulegt, hallærislegt, vildi yfirfara þetta betur, og svo hugsaði ég ég líka hver vill lesa ca 700 blaðsíðna minningargrein um hund. Það þyrfti nokkur eintök af Mogganum undir þetta! ;)

En ég ákvað að gera færsluna opna. Ef einhver hefði áhuga á.

Tek fram að geðheilsan er mikið betri í dag. Ég byrjaði á geðlyfjum sem ég hafði verið án í örugglega um 8 ár, þau komu mér yfir það versta þó Kjartan greyið þyrfti að eiga mjög dofna kærustu í nokkrar vikur. Ég var eins og hálfgerður zombie. Þið hefðuð átt að heyra gleðina þegar ég fór að pússa skítugan baðherbergisspegil.

Ég fékk yndislegan cavalier í pössun sem eiginlega bjargaði bara geðheilsunni minni. Ég er einmitt að horfa á hann steinsofandi núna.

Það voru svo margir búnir að segja að það væri svo erfitt að fá sér nýjan hund því maður væri alltaf að bera þann nýja við þann sem maður missti, og sá nýi myndi aldrei standast samanburðinn. Ég komst að því að það er bara algjört bull.

Ég er búin að vera að passa yndislegan hund sem mér þykir orðið mjög vænt um. Ég ber hann mjög mikið saman við Ronju en það er ekki á betri eða verri hátt. Hann er bara öðruvísi. Þegar ég eignast aftur hund þá verður það eins. Það kemur enginn í staðinn fyrir Ronju, það myndast bara nýr staður fyrir nýjan hund.

Ég sakna Ronju óendanlega og dagarnir eru sveiflugjarnir en tíminn læknar öll sár.

Ég lít bjartsýn til framtíðarinnar. Ætla til útlanda í vonandi um 7 vikur, svo í sumarbústað í 1 viku. Ætla að fá hvolp í sumar og vonandi fer draumahúsnæðið að detta á markaðinn. Eða við byggjum það bara! Svo þyrfti ég svo að fara að komast í vinnu!

Elsku Ronja mín

Hún elsku Ronja mín fór yfir regnbogabrúnna í gær.

Þessi mynd var tekin rétt áður en við fórum til dýralæknisins.
F. 07. maí 2008 D. 5. febrúar 2019

Just this side of heaven is a place called Rainbow Bridge.

When an animal dies that has been especially close to someone here, that pet goes to Rainbow Bridge. There are meadows and hills for all of our special friends so they can run and play together. There is plenty of food, water and sunshine, and our friends are warm and comfortable.

All the animals who had been ill and old are restored to health and vigor. Those who were hurt or maimed are made whole and strong again, just as we remember them in our dreams of days and times gone by. The animals are happy and content, except for one small thing; they each miss someone very special to them, who had to be left behind.

They all run and play together, but the day comes when one suddenly stops and looks into the distance. His bright eyes are intent. His eager body quivers. Suddenly he begins to run from the group, flying over the green grass, his legs carrying him faster and faster.

You have been spotted, and when you and your special friend finally meet, you cling together in joyous reunion, never to be parted again. The happy kisses rain upon your face; your hands again caress the beloved head, and you look once more into the trusting eyes of your pet, so long gone from your life but never absent from your heart.

Then you cross Rainbow Bridge together….

Author Unknown

Ég vissi að þessi dagur myndi koma og ég vissi að hann yrði erfiður en vá hvað ég vildi óska að dýralæknirinn hefði bara gefið mér sömu sprautur og Ronju.

Ég er búin að vera að æla af vanlíðan og ég kem varla mat niður. Ég hef ekki grátið svona mikið síðan pabbi minn dó. Mig langar ekki til að lifa án hennar. Ég var búin að vera þunglyndislaus í um 5 ár en datt niður haustið 2017 og er búin að vera mjög sveiflusöm síðan. Mitt þunglyndi er þannig að ég dett alltaf í svakalega dauðalöngun. Ég vissi að þetta áfall yrði erfitt en þegar maður er ekki á góðum stað fyrir þá er áfallið enn verra.

Ég hef ekkert elskað jafn heitt og hana Ronju mína. Enginn í mínu lífi hefur verið mér mikilvægari en Ronja mín. Ronja var nefnilega miklu meira en bara hundur. Hún var mitt besta geðlyf, minn besti félagsskapur og ég get bara ekki ímyndað mér fullkomnari hund. Við vorum sennilega saman að meðaltali um 18 klukkutíma á dag alla hennar ævi. Ég væri ekki á lífi ef hún hefði ekki verið til staðar.

Ég myndi gefa aleigu mína til að fá hana aftur sem hvolp og eiga með henni önnur 10 ár.

Síðustu 6 mánuðir voru sérstaklega dýrmætir því ég var ekki að vinna og gat verið heima með Ronju næstum allan sólarhringinn. Það voru margir dagar sem ég vildi ekki skilja hana eina eftir eða sem allra minnst. Því heilsan hennar var mjög mis slæm síðustu 14 mánuði lífs hennar.

Síðasti mánuðurinn hennar var líka óendanlega dýrmætur því það kom snjór, sól og gott veður! Þó það væri kalt. En síðasta ár reyndist okkur Ronju oft erfitt því það var ekki gott að fara með hana mikið út í rok og rigningu. Mér fannst hún hressast við snjóinn og sólina.

Síðan í júlí 2008 get ég talið á fingrum mínum hve oft ég fór í göngutúr á höfuðborgarsvæðin og nágrenni ein. Það hefur ekki gerst að ég hafi farið ein út úr húsi mínu í göngutúr án Ronju. Ég hef farið þúsundi göngutúra í hverfinu, alla með Ronju.

Ég get að sama skapi talið á fingrum annarrar handar hve oft ég hef gist heima hjá mér eða á Kárastöðum án Ronju. Það hefur bara gerst ef ég hef verið að fara í næturflug.

Ég hef einstaka sinnum verið ein heima hjá mér allan þennan tíma, þá hefur Ronja verið hjá dýralækni, verið farin í pössun út af ferðalögum okkar eða Kjartan hefur farið með hana eitthvert.

Ronja svaf upp í hjá mér og lá annað hvort ofan á mér eða nálægt mér þegar við vorum heima.

Í rúm 10 ár hef ég alltaf hugsað um að hún væri ekki of lengi heima og því var hver einasti dagur hugsaður með það í huga. Það fóru oft miklar pælingar og skipulag í þetta hjá okkur Kjartani. Þetta var aldrei nein kvöð eins og margir halda. Það er engin binding að eiga hund ef það er það líf sem maður velur sér.

Ronja var í forgangi á þessu heimili. Ef ég lá á öxlinni hans Kjartans og var að horfa á sjónvarpið og hún kom og vildi liggja á bringunni á honum þá færði ég mig. Ef ég lá í sófanum og Ronja var steinsofandi á mér eða leið illa þá borðaði ég mat í sófanum sem Kjartan færði mér. Það okkar sem var undir Ronju hafði engin önnur verkefni en það, og hitt okkar sá um að það okkar sem var undir Ronju þyrfti ekki að standa upp heldur var rétt allt. Þetta var reyndar mun meira áberandi eftir að hún varð hjartveik fyrir rúmu ári síðan. Fyrir þann tíma voru allar stundir með Ronju dýrmætar en eftir að hún varð eldri og lasin urðu allar stundir enn dýrmætari.

Við ákváðum að fara ekkert erlendis í fyrra því við vildum eiga allar stundirnar sem við gátum með henni, vildum ekki leggja á neinn að sinna henni svona óheilsuhraustri og við vildum ekki lenda í að hún myndi veikjast alvarlega eða deyja meðan við værum úti. Við leyfðum okkur eina árlega sumarbústaðaferð þar sem hundar eru bannaðir því hún borðaði ágætlega á þeim tíma og við höfðum frábæra pössun þar sem beðið var um hana í pössun.

Ég get ekki lýst viðbrigðunum við að vera allt í einu án hennar. Þetta er dálítið eins og að hafa verið semi síamstvíburi en vera allt í einu einn.

Það er svo mikið tómarúm eftir.

Það er oft sagt að tíminn líði svo hratt en þegar ég hugsa til tímans sem ég átti með Ronju þá man ég varla eftir lífi mínu án hennar.

Ég ætla að skrifa hérna minningargrein um hana, aðallega bara fyrir mig til að eiga í framtíðinni. Því minningar dofna.

Það hjálpar mér líka að vera að skrifa þetta. Gefur mér tilgang, dreifir huganum frá sársaukanum þó ég sé að skrifa um Ronju, og eyðir tímanum sem virðist vera óendanlega langur.

Lífið með Ronju

Ronja kom inn í líf mitt í júní 2008 þegar ég og þáverandi sambýlismaður minn ákváðum að fá okkur hund. Við fórum á stúfana og fundum got hjá henni Maríu Tómasdóttur sem er með Ljúflings ræktunina. Gotið fæddist þann 7. maí 2008.

Ættbókarnafn Ronju er Ljúflings Æsa Brá. Mér fannst Æsa Brá fallegt nafn og íhugaði að halda því, en fyrrverandi var ekki sammála svo úr varð að Ronja varð Ronja.

Þann 16. júlí 2008 var hún orðin nógu stór til að flytja til okkar, á 10 vikna afmælisdaginn sinn. Vá hvað ég man gleðina. Ég hef bara aldrei elskað neitt jafn heitt frá fyrstu kynnum.

Ég meira að segja elskaði hana óendanlega þegar ég hleypti henni út í garð sem hvolpi að meðaltali 4-5 sinnum yfir nóttu til að hún gæti pissað. En ég tók þann pólinn í hæðina að fara alltaf með hana út þegar ég heyrði í henni frekar en að hún væri að pissa inni.

Sambýlismaðurinn þáverandi vildi alls ekki að Ronja væri uppi í húsgögnum og ég var algjörlega sammála því enda pempía fram í fingurgóma og gat ekki hugsað mér til dæmis að hafa hund upp í rúmi. Þvílíkur viðbjóður! Ég var líka alin upp í sveit þar sem hundar máttu í besta falli vera í forstofunni og hafði átt hund sem einmitt var bara úti eða í forstofunni. Nema reyndar þegar ég var ein heima þá kom hann alltaf og stalst til að leggjast fyrir framan hurðina mína. Ég hugsaði alltaf að hann væri að passa mig. Elsku Jerry minn.

Jerry
F. Vor 1989 D. 13. ágúst 2003

En já pempían ég var ansi snögg að skipta um skoðun um leið og Ronja kom á heimilið. Upp í rúm og sófa vildi ég þennan hund! En þáverandi var ekki á sama máli og Ronja fékk ekki að vera hjá mér uppi í rúmi nema einstaka sinnum þegar hún stalst til þess og þáverandi sá ekki til. Vá hvað það voru yndislegar stundir.

Ég eyddi fyrstu mánuðunum með henni liggjandi á gólfinu með henni eða með hana í sólbekk inni, en þar mátti hún liggja hjá mér.

Já ég var algjör gólfmotta á þessum tíma og hefði náttúrulega ekki átt að láta vaða svona yfir okkur Ronju. En sem betur fer breyttust aðstæður fljótt.

Þó ég hefði fengið Ronju þá var ég mjög þunglynd á þessum tíma, sem var einmitt helsta ástæða þess að við fengum okkur Ronju. Þó Ronja hefði hjálpað mikið þá endaði ég 4. janúar 2009 ein uppi í sumarbústað með svefntöflur og gasofn og ætlaði að binda endi á líf mitt. Ég var svo glöð að vera loksins loksins loksins komin á þennan stað. Að vera loksins loksins loksins að eiga minn síðasta dag, að ég ákvað að taka ekki svefntöflurnar því ég þyrfti þess ekki. Ég ætlaði bara að sofna út frá gasofninum og njóta þess.

En það fór augljóslega ekki alveg þannig. Ég fór að hugsa um alla þá sem þyrftu að upplifa sorg eftir að ég færi. Pabbi minn hefði tekið sitt eigið líf rúmum 4 árum fyrr. En það sem ég gerði loka útslagið með að ég stóð upp og opnaði út var að í einhverri rælni opnaði ég tölvupóstinn minn í símanum og sá að daginn eftir væri Cavalier ganga. Það var s.s hugsun mín um Ronju sem gerði loka útslagið.

Ekki það að ég hafi farið í þessa göngu því þáverandi vildi ekki fara með mér og ég var bara ekki í neinu ástandi til að fara ein með Ronju. En það er önnur saga.

Nokkrum vikum eftir þetta ákvað ég að hætta að vinna og fara að vinna í sjálfri mér. Ég fann ekki þann stuðning sem mig vantaði hjá þáverandi og mig langaði til að prófa að standa á eigin fótum svo ég batt enda á sambandið og flutti til mömmu.

Mamma hefur aldrei verið sérstaklega hrifin af dýrum innan dyra og ég var því smá óróleg með að vera að koma með Ronju þangað. En ég held það hafi verið á fyrsta kvöldinu okkar, þar sem við mamma lágum í sitthvorum sófanum að horfa á sjónvarpið og Ronja stóð á gólfinu og reyndi að komast upp í sófa en ég var eitthvað að reyna að fá hana af því, að mamma sagði en æj hana langar svo að vera uppi í sófa, viltu ekki leyfa henni það? Og upp frá þeim degi varð Ronja að þeirri dekurrófu sem hún átti fæðingarrétt til! Upp í sófa kom hún og upp í rúm kom hún! Þarna hefur hún verið um 9 mánaða gömul og þurft að hírast á gólfinu í um 7 mánuði. Alls ekki prinsessum sæmandi.

Ég fann strax þegar hún var komin svona í fangið á mér í sófanum og við lappirnar á mér í rúminu hvað það gerði mér gott og vildi óska að ég hefði fengið það fram strax í upphafi.

Við Ronja bjuggum hjá mömmu í sennilega um 10 mánuði en þá byrjaði ég á Hvítabandinu og ákveðið var að ég myndi flytja í íbúð kærasta mömmu tímabundið og hann myndi flytja til hennar. Hann var að vinna úti á landi og var alltaf hjá henni þegar hann var í fríi. Þar bjuggum við hamingjusamar í tæp 2 ár þar til ég keypti mér íbúð og þar bjó hún restina af lífi sínu.

Við Ronja bjuggum einar í mörg ár og ég hefði ekki lifað þau ár án hennar. Hún uppfyllti mína þörf fyrir félagsskap að ansi miklu leyti. Hún var alltaf til staðar. Alltaf til í knús og klapp og sótti mikið í það. Ef hún vildi fá klapp þá átti hún það til að finna höndina á manni og setja snoppuna undir og lyfta hendinni yfir hausinn á sér.

Íbúðin mín er í fjölbýlishúsi og er ekki með sérinngangi en þegar ég flutti inn fékk ég leyfi fyrir Ronju. Það voru 2 aðrir hundar í húsinu og eftir að við fluttum inn bættist nýir íbúar við með einn hundinn í viðbót. en svo þegar þau vildu bæta við öðrum hundi þá fór allt í lás og allt í einu var komið annað hljóð í fólkið hérna og engir fleiri hundar leyfðir í húsinu. 2 íbúðir voru seldar út af þessu en ég var bara ekki í fjárhagsaðstöðu til að flytja og við Ronja vorum bara nokkuð ánægðar 2 saman en mig langaði alltaf að fá mér annan hund, sérstaklega til að hafa einhvern eftir hjá mér þegar Ronja færi. Það var líka alltaf talað um að ég hefði leyfi fyrir einum hundi og þegar Ronja færi að ég myndi fá leyfi áfram fyrir einum hundi. En svo var bakkað með það allt saman.

Við skötuhjú höfum verið að leita að nýju húsnæði í alveg 1,5 ár núna en við finnum ekkert sem okkur langar í, sem við höfum efni á. Okkur langar í lítið parhús, raðhús eða einbýlishús með góðri lóð, nálægt skemmtilegum gönguleiðum en við höfum bara ekki fundið neitt. Okkur langar ekki að búa í hávaðasömu fjölbýlishúsi þar sem maður heyrir allt sem nágrannarnir gera. Við erum svo heppin hérna að meðalaldurinn er mjög hár, bara eldri hjón fyrir ofan okkur og íbúðin við hliðina á okkur tóm megnið af árinu. Við vildum frekar bíða og reyna að finna draumaheimilið, eða nálægt því, frekar en að flytja bara til að flytja. Ég hélt líka að við hefðum lengri tíma með Ronju.

Okkur dreymir líka um að flytja annað hvort við Álftavatn, í göngufæri við Þrastarskóg, á Kárastaði og taka við eftir mömmu, eða eignast vatnalóð í Skálabrekkulandi sem frændfólk mitt á en því miður er áhugi þeirra líka mikill og þau ætla ekki að selja neina lóð við vatnið. Ég elska vatn og tré og náttúruna og líður hvergi betur en í Þingvallasveitinni og við Álftavatn.

Ég var heldur ekki viss hvort að Ronja myndi sætta sig við að fá hvolp á heimilið, eftir að hafa verið svo mikil prinsessa alla sína tíð og heilsa hennar hafði ekki verið góð síðustu 14 mánuði lífs hennar. Svo þó ég hefði getað fengið mér annan hund þá er ég ekki viss um að ég hefði gert það. En vá hvað ég væri þakklát núna ef ég hefði annan hund til að hugga mig.

Ég er líka hrædd núna um að ég myndi alltaf bera saman nýjan hund við Ronju og að sá nýi myndi aldrei verða eins stór partur af mér. Sem væri öðruvísi ef hann hefði komið á meðan Ronja var á lífi.

Frá því ég skildi við fyrrverandi voru nokkrir karlmenn sem komu og fóru, sem voru mishrifnir af Ronju, og Ronja mishrifin af þeim.

En svo kom einn fyrir rúmum 5 árum inn í líf okkar og ég get alveg sagt ykkur það að ég er ekki alveg viss stundum hvort hann byrjaði með mér út af mér, eða út af Ronju. Hann algjörlega féll fyrir henni, og hún algjörlega féll fyrir honum. Hún tók hann oft fram yfir mig. Það stækkaði hjarta mitt einn meira. Ást mín á þeim báðum óx við að sjá þeirra samband.

Ronja elskaði Kjartan sinn mikið

Hann Kjartan minn átti erfiðara en ég með að neita Ronju um eitthvað. Ég var frekar ströng á mataræði við hana því ég hafði lesið svo mikið um að það væri ekki gott fyrir hunda að fá mjög mikið auka við þurrmatinn sinn. Þeir gætu bara fengið í magann af því og það væri bara ekki gott fyrir þá. Svo hún fékk oft eitthvað smá gott en ekki mikið í einu.

En Kjartan minn fór að verða afskaplega klaufskur eftir að hann fór að vera á þessu heimili. Allskonar matur bara óvart datt á gólfið, Ronju til afskaplega mikillar gleði. Það var heldur ekki mikið eldað á þessu heimili fyrir komu Kjartans sem útskýrði líka ákveðinn skort á góðgæti fyrir hana.

Við Ronja vorum líka með þá reglu að uppi í rúmi átti hún bara að vera við eða fyrir neðan rass því ég vildi ekki hafa hana uppi á kodda. Því var fljótlega breytt eftir að Kjartan kom á heimilið. Aðallega bara hans megin samt. Ég reyndi að halda í reglurnar mín megin og Ronja virti það, og fór bara upp á kodda Kjartans megin.

Persónuleiki Ronju

Ég er náttúrulega ekki alveg hlutlaus þegar ég segi að Ronja hafi verið besti hundur í heimi. En ég veit samt að fáir hundar hafi komist nálægt henni í því.

Hún var afskaplega blíð og góð við alla. Vildi alltaf heilsa öllum og var alltaf til í klapp og klór og til í að liggja í fanginu á hverjum sem er.

Hún vildi alltaf að allir væru saman. Ef við fórum í göngutúr og fórum í sitthvora áttina þá var hún ekki sátt og vildi bara elta hinn aðilann.

Hún var alltaf til í göngutúr og betlaði þá marga.

Hún gelti nánast aldrei og það fór svo lítið fyrir henni að það gætu liðið ár þar til fólkið í fjölbýlishúsinu fattar að hún er dáin.

Hún var með svakalega ADHD á sínum yngri árum. Það mikið að Helga Finnsdóttir dýralæknir gaf mér lyf fyrir hana. Ég vissi ekki einu sinni að ADHD lyf væru til fyrir hunda! En ég átti að gefa henni þau tvisvar á dag og ég var alltof oft að gleyma því og mér fannst ég ekki sjá þannig mun á henni. Ég leit líka alltaf á að þetta væri bara hennar persónuleiki og hún var stillt og góð heima við.

Ég ætlaði alltaf að eiga vel upp alinn hund. Fór með hana á 2 námskeið og ein æfingin var þannig að maður átti að ganga með hundinn við hliðina á sér þar til hún var komin fram úr þá átti maður að bakka og snúa við þegar hundurinn var kominn aftur að manni og endurtaka. Ég get svo svarið að það er far í göngustígnum þar sem ég æfði þetta þegar Ronja var hvolpur. Ég hefði örugglega getað þjálfað hana til að vera betri í innkalli en ég held samt að hún hafi bara verið þannig að hún hefði aldrei hlýtt alveg. Ég var líka einhvern veginn hrædd um að missa persónuleikann hennar ef ég færi að sýna henni mikinn aga.

Þegar hún var hvolpur á hvolpanámskeiði þá sátu eða lágu hinir hvolparnir rólegir meðan við vorum í bóklegu. Sváfu oft bara á borðinu, í fanginu á eigandanum eða á gólfinu. Ronja aftur á móti var glaðvakandi allan tímann, í svaka stuði og skildi bara ekkert í því af hverju það væri ekki meira stuð í okkur mannfólkinu, og hinum hvolpunum.

Ég verð samt að viðurkenni að ég var búin að steingleyma hve hyper hún var á sínum yngri árum fyrr en ég fór að skoða gömul myndbönd. Ég myndi giska á að hún sé kannski 1 árs þarna. Þó ég hafi alltaf elskað Ronju jafn heitt þá verð ég nú að viðurkenna að það var afar ljúft að geta sleppt henni lausri á hinum ýmsu stöðum án þess að eiga það á hættu að hún væri komin 2 km í burtu á núll einni.

Hún róaðist svo með aldrinum. Fyrstu árin hennar treysti ég henni aldrei að vera lausri svo hún fékk engar lausagöngur nema við værum í fjallgöngum langt frá byggð og svo seinni árin úti á Geldingarnesi. Hún var svo snögg að hlaupa og hvarf bara úr augsýn oft! En síðustu árin var hún orðin rólegri og við farin að leyfa henni að vera lausri á hinum ýmsu stöðum.

Uppáhalds minningarnar

Ronja að bíða eftir vatninu sínu
 • Þegar Ronja stökk upp í baðkar, eða upp á klósettið og þar upp á borð og beið eftir að skrúfað yrði frá krananum.
 • Þegar Ronja vildi klapp og setti snoppuna undir höndina á manni svo hún færi yfir á hausinn hennar.
 • Þegar hún settist fyrir framan útidyrahurðina og vildi fá göngutúrinn sinn.
 • Hver einasti göngutúr með henni.
 • Þegar hún lá ofan á mér. Ég oft tímdi ekki að færa mig svo ég lá mikið lengur en ég ætlaði og var oft orðin banhungruð og næstum pissandi á mig. Þetta gilti sérstaklega um síðasta árið hennar.
 • Þegar hún lá upp við mig uppi í rúmi steinsofandi.
 • Þegar hún betlaði mat. Þetta voru sérstaklega dýrmætar minningar eftir að hún hætti að vilja borða fyrir 9 mánuðum síðan.
 • Sældarsvipurinn á henni þegar hún fékk klappið sitt og klórið sitt.
 • Þegar hún stökk um eins og kanína í háu grasi eða miklum snjó.
 • Hún var alltaf falleg og yndisleg en auðvitað sérstaklega falleg og yndisleg þegar hún svaf.
 • Þegar hún gróf eitthvað og var með mold á nefinu.
 • Öll prakkarastrikin hennar.
 • Ástin sem hún sýndi mér, Kjartani og öllum sem hana hittu.
 • Blíðan í henni við lítil börn.
 • Þegar hún streittist á móti þegar ég reyndi að setja hana niður en hún vildi vera lengur.
 • Þegar hún var lítil og fannst voða sport að taka upp nærbuxurnar mínar af baðherbergisgólfinu og hlaupa með þær út í garð.
 • Að hún vildi alltaf vera með manni.
 • Þegar hún kom inn í sturtuna til mín og vildi fá að drekka. Hún var almennt annars ekki hrifin af vatni og böðun.
 • Lífsgleðin.
 • Henni brá alltaf svo þegar ég hnerraði (ég hnerra ekki mjög pent), hún átti til að stökkva alveg upp í sófanum og niður á gólf.
 • Hreystin í fjallgöngum. Meðan ég labbaði kannski 20 km fór hún örugglega þrisvar sinnum meira en það, og átti sko nóg inni.
 • Henni fannst gaman að liggja með mér eða án mín úti í sólbaði. Var stundum bara sofandi ein á sólbekknum.
 • Hún vildi alltaf að allir væru saman. Ef við Kjartan fórum t.d ekki að sofa á sama tíma þá átti hún það til að rápa á milli okkar þar til Kjartan kom upp í.
 • Á kvöldin þegar hún var þreytt þá vildi hún fara upp í rúm að sofa. Átti til að sitja bara fyrir framan svefnbergið og horfa á okkur, með svipnum: þið eigið að koma að sofa núna. Yfirleitt beið hún eftir okkur en einstaka sinnum fór hún ein að sofa uppi í rúmi.
 • Á morgnana átti hún til að vekja okkur því hún vildi fara fram í stofu og kúra þar. Þá ofan á manni. Fá fyrst smá klapp og klór og svo vildi hún bara sofa ofan á okkur.
 • Hún elskaði að borða snjó. Hún gat alveg gert okkur vitlaus að heimta mööööörgum sinnum á dag að fara út að fá sér smá snjó.
 • Ef stólarnir voru ekki settir upp við eldhúsborðið þá átti hún til að fara upp á borð og ná sér í smá mat. Einu sinni náði hún sér í smá pizzu, einu sinni í smá kjúkling. Einu sinni kom ég bara að henni sitjandi uppi á borði voða saklaus, ekkert til að borða þar samt.
 • Hún vildi alls ekki fara út að pissa eða gera stykkin sín í vondu veðri, bara ekki að ræða það. Einhvern tímann var ég veik og áttaði mig á því að hún væri ekki búin að gera neitt í næstum sólarhring því veðrið var svo vont. En hún var aftur á móti allltaf til í að fara í göngutúr, alveg sama hvernig veðrið var. Þar til hún var orðin eldri borgari reyndar, þá fannst henni rok og kuldi ekki sérstaklega skemmtileg blanda.
 • Hún varð þrjóskari með aldrinum og í staðinn fyrir að ég veldi leiðina þá fór hún að gera það. Hún bara stoppaði, spyrnti við fótum og þverneitaði að halda áfram ef það var ekki í þá átt sem hún vildi fara. Þetta var sennilega síðasta hálfa árið hennar.
 • Henni fannst gott að sofa upp við eitthvað. Þegar hún var yngri svaf hún oft á milli lappanna á okkur en þegar hún varð eldri fór henni að finnast betri að vera öðru hvoru megin við okkur. Hún svaf nú yfirleitt alltaf meira Kjartans megin, sérstaklega síðustu árin, því hann hreyfir sig minna og var því traustari að sofa upp við. Ég fékk mér svona líkamskodda til að sofa með út af bakinu og henni fannst voða gott líka að sofa við hann.
 • Ronju var yfirleitt ekkert rosalega vel við vatn eða að vera blaut. Var ekki hrifin af baðinu sínu og úti í rigningu átti henni til að verða bara kalt og fara að skjálfa. En allt í einu um ca miðjan aldur fór henni að finnast voða gaman að vaða og synda. Hún byrjaði á þessu í sumarbústaðaferð þegar hún var að elta einhvern fugl yfir á.
 • Átti til að grafa góðgæti eins og góðum hundi sæmir. Stundum úti í garði en oftar inni. Hún setti þá eitthvað í sófann eða út í horn einhvers staðar og mokaði svo yfir með trýninu, einhverju alveg ósýnilegu.
 • Hún vildi alltaf kúra eftir bað, sérstaklega síðustu mánuðina sína. Fyrst var hún þurrkuð með handklæði svo hljóp hún um að reyna að þurrka sig og nuddaði sér við blómapotta, sófa, ofna, veggi og fleira. Svo hoppaði hún upp á mann og fékk teppi yfir sig. Ef maður var ekki nógu snöggur upp í sófa þá sat hún og horfði á mann með augnaráði sem lýsti yfir óþolinmæði.
 • Þegar ég var á nagladýnunni fannst henni oft mjög gott að koma og kúra ofan á mér. Fyrst þá færði ég hana alltaf en síðustu mánuðina voru allar stundir dýrmætar og ég leyfði henni að liggja á mér.
 • Henni fannst voða gott að sofa ofan á töskum á gólfinu, bæði sem hvolpur og þegar hún varð eldri og mátti sofa hvar sem er.
 • Henni fannst voða gott að sleikja eyru og nudda sér upp við skeggið á Kjartani. Ég var ekki mikið fyrir að leyfa henni að sleikja mig en hún fékk einstaka sinnum að sleikja eyra eða nef, eða greip bara tækifærið stundum. Ég reyndi að fá hana til að sleikja mig síðasta daginn hennar en hún var bara of verkjuð til þess að sýna því áhuga.
 • Þegar hún var hvolpur stóð ég hana að því að vera að éta krækiber, bláber og hrútaber af lynginu. Ég vissi ekki fyrir þann tíma að hundar gerðu þetta eða hvort þetta væri í lagi! Hún gerði þetta alltaf af og til svo í gegnum tíðina. Bara síðast í haust.
 • Hún gat verið snillingur að stela af manni mat. Maður var kannski að fara að stinga einhverju upp í sig í sófanum og allt í einu var kominn hundskjaftur utan um hinn endann á því sem maður var að borða.
 • Ronja var elskuð af mörgum, en það voru margir sem voru ekki hrifnir af henni, sérstaklega ekki á hennar yngri árum þegar hún var dálítið æst og gat verið stressuð á nýjum stöðum eða við nýtt fólk.
 • Við vorum svo heppin að Ronja átti marga aðdáendur svo við vorum ekki í vanda með pössun. Einn passarinn ætlaði sko ekki að leyfa henni að vera uppi í rúmi en það tók Ronju bara eina kvöldstund að breyta þeirri ákvörðun.
 • Einu sinni kom Kjartan heim með gulan hjálm á hausnum og Ronju leist bara ekkert á þetta og gelti bara á hann.
 • Hún vissi alltaf muninn á göngufötum og venjulegum fötum. Þegar ég fór í göngufötin átti hún til að hoppa hæð sína í loft upp en ef ég fór í önnur föt átti hún til að fara bara inn í búrið sitt því hún vissi að hún væri ekki að fara með. En við búrvöndum hana sem hvolp og hún var alltaf glöð í búrinu þar til hún varð hjartveik fyrir ári síðan og þá hættum við að setja hana inn í búr. Hún átti til að fara inn í búrið að sofa á næturna eða fara þar inn ef ég fór í sturtu. Svo henni leið greinilega vel þar og leit á þetta sem sinn stað.
 • Hún slapp stundum út, sama hve varkár maður var þá nýtti hún öll tækifæri. Einu sinni var ég að máta kjól sem ég var nýbúin að kaupa, rauk út berfætt á eftir henni og hljóp einhverja hundruði metra þar til ég fann hana og náði henni. Yfirleitt dugði að veifa taumnum hennar til að hún kæmi hlaupandi. Því það var klárlega skemmtilegra að fara með manneskjunni sinni í göngutúr frekar en að vera einn laus úti.
 • Einu sinni hafði ég ekki fest beislið hennar almennilega svo það losnaði af henni og allt í einu var ég bara í göngutúr með beisli í eftirdragi!
 • Henni fannst gaman að leika við nágrannahundana en annars var hún ekki mikið fyrir aðra hunda, hún var yfirleitt meira fyrir hundaeigendurna. Ég tók að mér að passa aðra hunda eitt árið og hún var ekki sérstaklega hrifin af þeim. Virti þá eiginlega bara ekki viðlits.
 • Hún hjálpaði alltaf til þegar maður tók hana upp. Hoppaði upp með afturfótunum. Alveg til hennar síðasta dags.
 • Hún var yfirleitt í búri í bíl en fékk einstaka sinnum að sitja hjá manni sem hún kaus að sjálfsögðu fram yfir búrið. Ef hún fékk að sitja hjá manni frammi þá fannst henni mjög skemmtileg að horfa út en svo lagðist hún niður og lagði höfuðið oftar en ekki ofan á handlegginn á Kjartani sem var þá að keyra.
 • Hún fékk ca tvisvar að vera með höfuðið út á smá ferð og fílaði það sko í botn.
 • Oft var ég í tölvunni þegar hún kom og lagðist á bringuna á mér, þá sá maður ekkert lengur á skjáinn svo það eina í stöðunni var þá að sjálfsögðu bara að leggja frá sér tölvuna. Eða hagræða sér einhvern veginn. Maður færði ekki Ronju!
 • Stundum settist hún fyrir framan sjónvarpið sem þýddi að hún vildi athygli. Oftast göngutúr.
 • Hún gat verið mjög vanaföst ef það var einhver vani til staðar. Eins og í rúmt ár fórum við alltaf í göngutúr fyrir vinnu, um hálf 10 á morgnana. Þá var ekkert í boði að sofa út um helgar. Hún settist bara upp í rúminu og starði á mann þar til maður drattaðist á fætur og með hana út.
 • Ef það var enginn til að kúra með henni en það voru óhrein sængurver á gólfinu eða blaut svitastorkin gönguföt af mér, þá valdi hún að kúra þar frekar en uppi í sófa eða rúmi.
 • Einu sinni vakti hún mig eldsnemma uppi í sveit og ég elti hana fram. Þá vildi hún fara fram að gefa kettlingunum “sínum”. Það kom smá vökvi og allt úr spenunum. Ég hafði ekkert tekið eftir þessu og kettlingarnir voru fluttir upp í hesthús eftir þetta, enda áttu að verða útikettir.

Önnur minningabrot

Þegar Ronja hafði enn matarlystina
 • Hún var aldrei mikið fyrir að borða þurrmatinn sinn en gerði það nú alltaf samt framan af, aðeins með aldrinum þurfti að setja eitthvað smá gotterí út á hann þar til í vor þegar hún hætti að vilja að borða. Hún fékk stundum magaónot og vildi þá bara fara út að borða gras. Eða éta plönturnar mínar inni. En ég byrjaði að safna plöntum fyrir um 2 árum síðan og var fljót að sjá að ég yrði að safna plöntum sem væru í lagi fyrir Ronju eða setja þær þar sem hún næði ekki til.
 • Þegar Ronja fór að missa nætursjónina þá keyptum við næturljós með hreyfiskynjara fyrir hana og settum tröppu sem Kjartan smíðaði fyrir framan rúmið svo hún gæti hoppað upp á hana áður en þyrfti ekki að hoppa beint upp í rúm.
 • Síðasta rúma árið gáfum við Ronju tvenn lyf tvisvar á dag en ekki saman. Hún þurfti svo yfirleitt að borða klukkutíma eftir lyfin. Þetta var heljarinnar skipulag þegar ég var að vinna líka. En þetta gekk alltaf upp.
 • Síðasta sumar hafði ég svo miklar áhyggjur af henni því hún var farin að endast svo stutt í göngutúrum, kannski bara 1-2 km. Ég keypti þá IKEA bakpoka til að setja hana í, fékk gefins barnakerru fyrir hana og keypti moby wrap fyrir hana. En svo bara hresstist hún við aftur og ég held hún hafi bara tvisvar farið í bakpokann, aldrei í kerruna og bara mátað moby wrapið.
 • Hún fór svakalega úr hárum, alltaf. Talið var að það væri út af ADHD-inu í henni. Svo ég prófaði að láta raka hana einu sinni og Ronja var bara svo gífurlega hress með það. Hún var svakalega heitfeng og henni leið bara illa í fullum feld. Þá vildi hún ekki kúra mikið heldur lá bara á gólfinu á hliðinni og maður bara sá á henni að henni var heitt.

Lærdómur

Ronjukrútt lítil

Þegar ég eignaðist Ronju hafði ég bara átt sveitahund sem barn og kunni ekki alveg að eiga borgarhund og þurfa að hugsa sjálf alveg um hundinn.

Ég lærði ýmislegt á leiðinni sem mig langaði að skrifa niður.

Í fyrsta lagi þá er mjög mikilvægt að fara með hundinn í sprautur og ormalyf á réttum tíma. Ég er búin að vera að horfa á Dr. Jeff þætti á Animal Planet og hef séð hvað Parvo getur verið slæmt.

Í öðru lagi þá er mikilvægt að vera með réttan búnað ef maður á ofvirkan hund sem togar mikið í tauminn. Það er ekki gott fyrir hálsinn á hundunum ef fólk er bara með venjulega hálsól. Ég hef svo oft séð fólk bara með venjulega hálsól á hundinum og sárvorkenni hálsinum á þeim. Ég átti fyrst beisli þar sem taumurinn var festur að ofan en var svo ráðlagt að kaupa beisli þar sem taumurinn er festur á hálsinum. Mæli hiklaust með þannig.

Eftir að Snapchat kom til sögunnar tók ég fullt af myndum og videóum og sendi á Kjartan eða á alla vini mína. En vistaði fæst af því niður og það eru því tapaðar dýrmætar minningar. Ekki festast í að nota Snapchat heldur takið upp videó og myndir til að eiga! Ronja gerði fullt af krúttlegum hlutum næstum alla sína ævi en ég á ekki myndbönd af nema broti af því. Ég sé svakalega eftir því núna að hafa ekki verið duglegri að passa upp á svona minningar.

Ef hundurinn er eitthvað skrítinn farið alltaf með hann til dýralæknis eða hringið í einn. Myndi líka mæla með að skrifa niður einkenni og dagsetningar til að eiga fyrir framtíðina, svo maður geti rakið til baka hvenær eitthvað byrjaði.

Að tryggja getur verið gífurlega mikilvægt. Ég greiddi 130.394 kr í tryggingar. Ég fékk frá endurgreitt frá tryggingunum fyrir dýralæknakostnaði 392.307 kr. Ég veit ekki hvað ég borgaði sjálf því tryggingarnar borga aldrei allt.

Það þarf að gera ráð fyrir að það kosti að eiga hund.

Það er nauðsynlegt að tannbursta hunda alveg frá byrjun, eða gefa þeim eitthvað gott að naga fyrir tennurnar. Ronja var dugleg að naga fyrstu árin sín en svo bara einn góðan veðurdag hætti hún því. Ég held mögulega að það hafi valdið einhverjum óþægindum í tönnum. Hún vildi jú reyndar alveg fiskroð þar til fyrir svona ca ári síðan.

Það er nauðsynlegt að gera ráð fyrir kostnaði við tannsteinshreinsun ca 1 sinni á ári. Mismunandi eftir tegundum. Þetta er um 18-20 þúsund á ári. Getur víst orðið mjög dýrt ef það þarf að taka tennur eins og endajaxla. Muna samt að tannsteinn og tannskemmdir gerast hjá hundum alveg eins og okkur. Þó ég tannbursti mig tvisvar á dag þá safna ég miklum tannsteini.

Það er gott að gefa hundum glúkósamín eða eitthvað annað svipað þegar þeir eldast og fara að stirðna, fá gigt.

Það er gott að gefa þeim Pro-Kolin eða eitthvað svipað ef þeir eru gjarnir á að fá í magann.

Veikindi Ronju

Ronja var frekar heilsuhraust framan af. Hún fékk einu sinni slæma magapest og einu sinni flogakast. Hún var líka ekki með góðar tennur og þurfti að fara reglulega í tannsteinshreinsun frá ca 4 ára aldri og var ekki með mikið af tönnum eftir þegar hún dó. Hún var með vígtennurnar og nokkrar tennur fyrir aftan.

En Cavalierar eru því miður ekki meðal heilsubestu hundanna. Ég las einhvern tímann að ástæðan væri sú að í seinni heimsstyrjöldinni voru bara 6 eftir og allir Cavalierar sem til eru í dag eru undan þessum 6.

Þegar Ronja var 9 ára fór allt að fara niður á leið hjá elsku litla yndinu mínu. Um 9 ára afmælið tók ég eftir að það væri eins og hún væri að lóða en hún átti ekki að byrja að lóða fyrr en einhverjum mánuðum seinna og það var líka einhver skrítin útferð sem kom inn á milli. Eftir nokkrar dýralæknaheimsóknir og símtöl kom í ljós að þetta væru alvarlegar legbólgur og legið var tekið. Hún sýndi óvenju lítil einkenni miðað við svona alvarlegar bólgur, þess vegna kom þetta ekki í ljós strax. Hún fékk svo sýkingu í skurðinn og þurfti meðferð við því.

Hún var svo góð í nokkra mánuði eða þar til í október 2017. En við vorum þá í sveitinni meðan mamma var erlendis. Við fórum nokkra mjög góða göngutúra niður í þjóðgarð, alveg 11-13 km göngutúra og Ronja var bara mjög hress allan tímann þó ég yrði vör við smá þreytu inn á milli. En svo bara allt í einu varð ég vör við að hún var farin að vera með hrothljóð þó hún væri ekki sofandi og allt í einu gat hún ekki gengið meira en ca 2 km, þá var hún alveg uppgefin. Þetta gerðist bara á ca viku.

Ég fór með hana til dýralæknis út af þessu og út af því að hún var léleg að borða og oft með truflanir í maganum. En það var svo ekki fyrr en í janúar 2018 þar sem kom í ljós að þetta væri hjartamurrið sem væri komið og hún var sett á hjartalyf.

Stuttu seinna sáum við að afturlappirnar á henni voru farnar að skjálfa í göngutúrum. Í ljós kom að hún væri komin með vöxt í hrygginn sem var að valda henni sársauka þá bættust við verkjalyf. Þetta er víst ekki algengt í Cavalier, heldur algengari í stærri hundum.

Stuttu seinna hætti Ronja að vilja borða og síðustu ca 9 mánuðina borðaði hún ekki þurrmat. Aðallega bara mat sem Kjartan eldaði ofan í hana og það voru sko ýmsar steikurnar sem runnu niður í hana. Meðal annars fékk hún carpaccio! Stundum virkaði að gefa henni eitthvað gott að borða og hún borðaði þá sjálf en yfirleitt ekki. Þá þurfti að stinga upp í hana mat og oft loka munninum og strjúka undir munninn til að fá hana til að kyngja. Þá vildi hún oft borða eftir það, komin með smá í magann og smá matarlyst. En yfirleitt þurfti þá að handmata hana.

Það að gefa henni að borða þessa 9 mánuði gat oft verið alveg upp í klukkutíma verk. Stundum byrjaði maður á einhverju eins og eggjum en nei hún vildi það ekki, þá prófaði maður kannski hrátt kjöt en nei hún vildi það ekki, þá kannski prófaði maður slátur og hún vildi það. En daginn eftir vildi hún ekki slátrið en vildi kannski egg. Þetta var alveg svakalega erfitt tímabil. Maður vorkenndi henni og það var svo erfitt að vita ekki af hverju hún vildi ekki borða. Var hún bara lystarlaus, var henni illt í maganum, var henni illt í hryggnum, var henni illt í tönnunum, eða hvað var að valda þessu. Hún fékk stundum stera og það hjálpaði í byrjun með að auka matarlystina en hún andaði svo hratt og þungt á þeim.

Ég fór með hana til 4 lækna og örugglega yfir 15 sinnum síðasta árið. En aldrei fannst neitt sem var að valda lystarleysinu, ekki fyrr en síðasta föstudag.

En Ronja byrjaði að slefa í nóvember og ég var búin að fara með hana mörgum sinnum til dýralæknis út af því. Ekkert fannst að. Hún fór í tannsteinshreinsun í byrjun desember þar sem þurfti að taka 2 tennur en slefið hætti ekki. Hún fór í röntgen á tönnum fyrir 3 vikum, allt var í lagi þar.

En svo í síðustu viku var hún farin að kúgast oft og gat varla sofið út af þessu. Hún vildi mikið bara vera úti í skítakuldanum sem var mjög ólíkt henni. Hún vildi ekki koma inn úr göngutúrunum. Og á fimmtudaginn þegar Kjartan strauk af henni slef þá vældi hún og rauk undir sófa. Við áttum tíma daginn eftir og þar kom í ljós við ómskoðun að hún væri með sýkingu í munnvatnskirtlum og sennilega með æxli. Hún fékk heim sýklalyf og stera og ég var svaka vongóð því dýralæknirinn hennar var farinn þegar við sóttum hana og ég vissi því ekki þetta með æxlið fyrr en á mánudaginn þegar ég hringdi í hana. Þetta var sennilega búið að vera að grassera í hálft ár eða meira og sennilega ástæða þess að hún vildi aldrei borða.

Heimurinn hrundi. Við vonuðumst til að fá að vera með hana fram yfir helgi og fá að kveðja hana. Við áttum tíma á fimmtudaginn og ég vonaðist til að þar myndi koma í ljós að þetta hefði bara verið sýking sem væri farin og það væri ekkert æxli. En því miður fór það ekki svo. Henni versnaði svo hratt að við gátum ekki beðið eftir fimmtudeginum heldur fórum með hana í gær. Það var ekki hægt að skera þetta eða gera neitt við þessu. Ég er ekki viss heldur að ég hefði lagt þannig á hana, svona gamla.

Það var mikið á Ronju lagt síðasta rúma ári hennar.

Hún var líka orðin að mestu heyrnalaus og var farin að sjá illa.

Ég veit ekki hvort ég hefði gert rétt í að láta svæfa hana fyrr, en ég fór alltaf að ráðum dýralæknanna. En þeir vissu ekki af æxlinu fyrr en það var komið á það stig að Ronja var orðin það svakalega verkjuð að það fór ekki fram hjá neinum. Ég veit ekki hve mikið það var að trufla hana þessa 9 mánuði sem hún vildi ekki borða eða þessa 3 mánuði sem slefið lak úr henni. Hundar eru snillingar í að fela vanlíðan sína. Ég veit ekki hvort það hefði skipt einhverju ef æxlið hefði fundist fyrr. Það hefði samt sennilega undirbúið okkur betur undir endann.

Ég vona bara að hún hafi ekki þjáðst mikið og fangið og klórið okkar Kjartans hafi gert verkina bærilegri.

Hinn hinsti dagur

Við fórum með Ronju út á Geldinganes til að leyfa henni að njóta sinnar síðustu lausagöngu. En það var bara svo svakalega hvasst og nístandi kalt svo hún hljóp bara aðeins um á ströndinni en hljóp svo bara að bílnum og vildi komast inn. Eins og sjá má á myndbandinu var hún merkilega hress, sem gerði þetta allt saman enn erfiðara.

En í göngutúrnum deginum áður hefði hún einmitt bæði hlaupið að bílnum þegar við vorum að fara í göngutúrinn og koma úr honum. Ég veit ekki af hverju, hún hafði aldrei gert þetta áður. Hún vissi sko alveg hvaða bíll væri sinn. En hvert hún vildi fara veit ég ekki. Kannski vildi hún bara komast inn í hann til að komast eitthvert inn eða kannski hafði hún einhverjar skoðanir á hvern hún vildi heimsækja eða hvar hún vildi labba. Ef bara Ronja hefði getað talað.

Eftir Geldinganes fórum við með hana til mömmu Kjartans sem þótti svo vænt um hana, til að leyfa henni að kveðja og bróðir Kjartans kom líka til að kveðja. Þetta var fullkomin stund því Ronja lá lengi í fanginu á mér. Þegar við ætluðum að fara stóð ég upp og ætlaði að setja hana niður en hún bara þrýsti á móti og vildi ekki að ég setti sig niður. Svo ég settist aftur með hana og við áttum enn lengri æðislega stund saman. En svo vildi hún fara og liggja ein og við fórum með hana heim þar sem hún skyldi ekkert í allri þessari athygli og uppáþrengni og vildi bara sofa ein í hennar skoti í sófanum. Allur sófinn var sko hennar en hún átti sér skot þar sem enginn sat eða lá eða neitt dót var sett í. Þar lágum við hjá henni, klöppuðum henni, dáðumst að henni, tókum myndir af henni og leyfðum henni að sofa aðeins þar til tíminn var kominn.

Þunglyndi

Ég er búin að vera að glíma aftur við þunglyndið sem hvarf alveg frá 2012-2017. Helstu ástæðurnar fyrir þunglyndinu er króníska ógleðin sem hefur rænt mig getu minni til að gera hluti sem ég elska eins og að dansa og hefur rænt mig getu minni til að stunda loftfirrtar þolæfingar sem er það eina sem getur haldið mér frá þunglyndi.

Einnig fundum við yfirgefinn kettling í einum göngutúranna haustið 2017 og mig langaði svo til að eiga hann og þeim Ronju kom svo vel saman. En ég vissi að fólkið í fjölbýlishúsinu myndu aldrei leyfa tilveru hans hérna svo ég lét hann frá mér grátandi til Villikatta. Það var eiginlega allt niður á móti eftir það.

Heilsa Ronju hafði svo náttúrulega mikil áhrif á mig. Ég hélt oft að hún væri að fara frá okkur síðasta rúma árið. En alltaf braggaðist hún inn á milli og ég bjóst við að hún myndi lifa allavega út haustið.

Húsnæðismál valda mér líka mikilli vanlíðan, að mega ekki gera það sem maður vill heima hjá sér eins og að fá sér hund og kött hefur valdið mér mikilli vanlíðan. Mér finnst dálítið eins og maður sé í fangelsi. Að finna ekki húsnæði sem mig langar í veldur líka vanlíðan. Svo er ég bara svo vanaföst, elska staðsetninguna á íbúðinni minni og elska íbúðina mína og langar bara ekki til að flytja en neyðist til þess út af fólkinu í fjölbýlinu.

Ég var líka í vinnu sem ég var ekki ánægð í. Ég hélt stundum að ég hefði verið ráðin til að fyrirtækið gæti sagst vera með öryrkja í vinnu eða til að geta sagst vera með manneskju í minni stöðu í vinnu. Ég var reyndar komin í smá verkefni í annarri deild sem var mjög skemmtilegt með frábærum hópi og frábæru skipulagi. Ég vildi óska að ég hefði verið ráðin þar inn frá upphafi. Ég get alveg sagt ykkur það að vera í vinnu sem maður er ekki ánægður í er algjörlega mannskemmandi. En ég var bara svo þakklát fyrir frjálsa vinnutímann sem gaf mér tíma til að hugsa um Ronju þegar hún þurfti á því að halda og ég var svo hrædd um að fara eitthvað annað. Fyrir utan það að vera öryrki í leit að hlutastarfi er eins og að leita að nál í heystakki.

Ég var búin að vera að vinna mjög mikið að heiman út af heilsu Ronju og heilsa mín var búin að vera mjög slæm. Ég var búin að vera hálf sofandi megnið af árinu 2018, í B12 sprautum, járn ígjöf og fleira. Ég var í raun ekki vinnufær megnið af árinu 2018 og er ekki búin að vera að vinna það sem af er ári.

Mig hefur ansi oft síðasta 1,5 árið ekki langað til að lifa lengur og í morgun er ég búin að gera eitthvað sem ég hef ekki gert árum saman, að gúgla sjálfsvígsaðferðir. Svakalegt hvað það eru komnar meiri og betri upplýsingar en þegar ég skoðaði þetta síðast fyrir mörgum mörgum árum. Ég vildi bara óska að maður gæti gert þetta auðveldlega. Ég er bara ekki nógu hugrökk til að binda endi á líf mitt. Ef ég gæti farið til dýralæknisins og látið hann um þetta þá myndi ég ekki hika.

En ég veit ég gæti ekki gert Kjartani mínum þetta og ég veit að þetta mun vonandi líða hjá. Það er bara svo erfitt að vinna sig upp úr þunglyndinu þegar eina leiðin sem maður kann er ófær vegna ógleðinnar.

Framhaldið

Tvær steinsofandi í sveitinni

Mig langar í annan hund. Eða nei mig langar ekki í annan hund. Mig langar að hafa Ronju mína hjá mér.

En ég kann ekki lengur að eiga ekki hund.

Ég kann ekki, og finnst bara hundleiðinlegt og tilgangslaust, að fara ein í göngutúr í hverfinu.

Ég kann ekki lengur að sofa án hunds.

Ég kann ekki lengur að vera ein heima hjá mér.

Tíminn líður svo ógnarhægt þegar maður hefur ekki félagsskapinn og tilganginn.

Ég kann ekki, og finnst bara hundleiðinlegt og tilgangslaust, að fara ein í göngutúr í hverfinu. ég kann ekki lengur að sofa án hunds. Ég kann ekki lengur að vera ein heima hjá mér. Tíminn líður svo ógnarhægt þegar maður hefur ekki félagsskapinn og tilganginn.

Margir klukkutímar á dag fóru í að viðra Ronju, klóra henni og klappa og liggja undir henni. Ómetanlegir klukkutímar dag eftir dag, í meira en áratug.

Ég fór í einstaka göngutúr áður en ég eignaðist Ronju en ég held ég geti alveg sagt að eftir að ég eignaðist Ronju þá hafði ég farið á meðal ári í fleiri og lengri göngutúra en allt líf mitt þar áður til samans.

Mig langar aftur að eiga Cavalier. Því þeir eru svo blíðir og góðir og fullkomnir. Nema heilsufarið á þeim er ekki gott og ég veit ekki hvort ég geti réttlætt það fyrir mér að fá mér annan Cavalier. Sá Cavalier gæti fengið hjartamurr á fyrstu árum sínum, og alla hina kvillana.

Ég veit bara ekki hvaða tegund önnur ætti að koma til greina. Hvaða tegund hefur ljúfleika Cavaliersins en ekki heilsufarsvandann. Hvaða tegund sé eins mikill kúrari og Cavalierinn. Eins og Ronja.

Ronja, ég elska þig, þú munt alltaf eiga þinn risastað í hjarta mínu. Ég trúi ekki endilega á eftirlíf en ég hugsa samt um þig hlaupandi um í fallegu grasi og sé þig svo í fanginu á feðrum okkar Kjartans þar sem þú færð dagsskammtana af klappi og klóri.

Ég vil þakka öllum sem elskuðu Ronju og öllum sem pössuðu Ronju innilega fyrir allt. Hún elskaði ykkur öll til baka og var svo glöð hjá ykkur öllum.

Halló! Ekki sofa! Út að ganga!

Lífið með vefjagigt

Stundum finnst mér afskaplega gott að tjá mig hérna inni. Yfirleitt er það merki um það að mér líði svakalega illa, eða svakalega vel.

Í þessu tilfelli verð ég því miður að segja að það fyrra eigi við.

Ég er búin að vera í niðursveiflu andlega í um 1,5 ár núna og niðursveiflu líkamlega í nokkur ár, sem tók svo svakalega dýfu snemma á árinu. Andlega niðursveiflan er bein afleiðing líkamlegu niðursveiflunnar.

Helsta ástæðan fyrir þessum niðursveiflum er vefjagigtin mín.

Ég hef marg oft talað hérna um geðraskanir mínar og brjósklosin mín. En ég hef bara einstaka sinnum minnst á vefjagigtina. Meðal annars því ég hef einhvern veginn aldrei viljað viðurkenna hana almennilega. Því ef ég viðurkenni hana almennilega þá langar mig dálítið að gefast upp. Ef ég viðurkenni hana ekki þá get ég einhvern veginn haldið í vonina að ég geti losnað við öll einkennin einn góðan veðurdag og orðið venjuleg manneskja sem lifir venjulegu lífi.

Stundum held ég að það hafi eitthvað klikkað í framleiðsluferlinu en gleymst að taka mig af færibandinu, og ég send fyrir mistök út í lífið.

Ég nefnilega vann algjörlega kvilla lottóið! Hmm þess vegna vinn ég kannski ekki stóran vinning í peningalottóinu. Ég er búin með heppnina!? ;)

[*] Kvíðin með afskaplega lágt sjálfsmat frá 6 ára aldri.
[*] Þunglynd frá 11 ára aldri (með góðri pásu frá 31-37 ára aldri).
[*] Brjósklos frá 16 ára aldri.
[*] Annað brjósklos frá 20 ára aldri.
[*] Vefjagigt frá um tvítugu.
[*] Síþreyta frá um tvitugu.
[*] Ógleði frá 34 ára aldri.
[*] Astmi frá 35 ára aldri.
[*] Blöðrubólgueinkenni sem standa yfir mánuðum saman frá 37 ár aldri.
[*] B12 skortur, járnskortur og of hár blóðþrýstingur frá 37 ára aldri.

Ég fæ náttúrulega alltaf af og til að heyra hvort þetta sé nú nokkuð svo slæmt.
Hvort ég geti nú ekki bara harkað þetta að mér.
Það finni nú allir einhvern tímann til.
Það verða nú allir þreyttir.
Hvort ég sé ekki bara að mikla hlutina fyrir mér og svo framvegis

Það fólk er svo afskaplega heppið að þekkja þetta ekki. Það þekkir ekki ósýnilegu sjúkdómana. Krónísku verkina sem sjást ekki utan á fólki.

Þess vegna er ég kannski líka að skrifa þetta. Fyrir þá sem þekkja þetta til að þeir viti að þeir eru ekki einir þarna úti og fyrir þá sem þekkja þetta ekki, svo þeir fái kannski smá innsýn inn í þetta.

Í gær ætlaði ég á jólamarkaðinn í Hafnarfirði, sýningu í Perlunni, opið hús á Alþingi, Costco, í Laugar Spa og í göngutúr með hundinn. Þegar ég hef svona plön er mismunandi hve mikið ég næ að gera. Í gær var niðurstaðan að ég komst ekki út úr húsi. Ég lá uppi í rúmi til um hálf 4. Ég hafði ekki einu sinni orku til að fara inn í stofu til að kveikja á sjónvarpinu, hvað þá til að horfa á það. Þetta var ekki út af þunglyndi. Ég hafði bara ekki orku til að einu sinni klæða mig. Eins og ég væri bara fárveik með flensu. Ég skánaði aðeins eftir kaffileytið en ekki nóg til að komast út úr húsi.

Ef maður væri að gera sér eitthvað upp þá væri það til að losna við að gera það sem manni langar ekki til að gera. Ekki til að geta ekki gert það sem manni langar til að gera.

Ég myndi svo mikið gefa til að geta dansað aftur. Ég bý með uppáhalds dansherranum mínum! En ég get talið saman á fingrum annarrar handar hve oft við höfum dansað saman á árinu.

Ég myndi gefa svo mikið til að geta unnið fullan vinnudag. Á þessum tímapunkti myndi ég gefa mikið fyrir að geta unnið hlutastarf.

Ég myndi gefa svo mikið til að geta stundað á fullu fjallgöngur, göngur, sund og eiga félagslíf.

Ég er ekki að fá neinar launatekjur lengur því ég hætti að vinna í sumar. Ég hef ekki heilsu til að vinna og bæturnar frá Tryggingastofnun eru 2.649 á mánuði eftir að örorka mín var lækkuð úr 75% i 50%. En ég áfrýjaði því og fæ vonandi svar í desember um hvort að örorkan verði hækkuð aftur.

En svo slæm er heilsan mín búin að vera á árinu að ég get bara ekki gert neitt í tekjuleysinu. Frekar verð ég tekjulaus en að reyna eitthvað að vinna. Að reyna að bæta heilsu mína er í algjörum forgangi. Að eyða ekki næstu 40-50 árum í að vera stöðugt óglatt!

Vefjagigtareinkenni mín eru:
[*] Bólgur
[*] Stanslaus ógleði í tæp 5 ár
[*] Blöðrubólgueinkenni
[*] Hitatilfinning við álag/áreynslu (flensulík einkenni)
[*] Síþreyta

Vefjagigtin mín var nokkuð góð fyrsta áratuginn sem við höfum átt saman. Helsta sem ég hafði yfir að kvarta voru bólgur í öllum líkamanum.

Að lifa með vefjagigtarbólgum er dálítið eins og að vera með stanslausar vægar harðsperrur. Sem breytast í allra verstu harðsperrur á álagstímum.

En fyrir svona 7 árum síðan fór ég að finna meira fyrir vefjagigtareinkennum. Fyrst aðallega út af því að ég fór að hreyfa mig meira. Ég fór að æfa reglulega í World Class og byrjaði að stunda fjallgöngur. Þá fóru bólgurnar að versna all svakalega og ég þurfti að fara að hlusta meira á líkamann, eitthvað sem er oft erfitt að gera.

Stundum finnst mér það að vera með vefjagigt eins og að vera settur í stofufangelsi. Því á margan hátt er þetta frelsissvipting.

Ég komst t.d fljótt að því að fjallgöngur 2 daga í röð er afskaplega slæm hugmynd, nema við séum að tala um lág fjöll eins og Úlfarsfell. Ég bólgna upp í öllum líkamanum og líður eins og það hafi verið valtað yfir mig. Við erum að tala um að ég bólgna og stífna upp í puttunum! Af fjallgöngum! Ekki eins og maður sé eitthvað voðalega mikið að nota puttana í fjallgöngum. Nei ég labba ekki upp á þeim sko ef einhver heldur það. ;) Ég er svo marga daga að jafna mig og ná bólgunum niður aftur.

Ég elska sjósund. Algjörlega elska sjósund. Sjósund er líka ótrúlega gott fyrir bólgurnar. Og kvíðann. Ég get verið næstum ælandi út af kvíða, fer í sjósund og voila það kemst bara kyrrð á hugann.

En ég þarf að passa mig að vera ekki of lengi í sjónum og ekki synda of langt. Því þá versna bólgurnar. Og þá fæ ég hitatilfinningu í líkamann, eða það sem kallast flensulík einkenni. Þetta ástand getur varað í allt að 4 daga eftir of langt sjósund. Það að labba upp 10 tröppur út úr húsinu heima verður mér næstum ofviða og ég kemst ekki út í göngutúr með hundinn. Bara alveg eins og maður sé með alvöru flensu. Þetta gerist líka eftir ýmiss konar annað álag.

Ég þarf nánast alltaf að leggja mig eftir sjósund. Alveg sama hve stutt ég er í sjónum. Því kalt vatn er álag á líkamann. Og líkami minn þolir rosalega lítið álag. En þetta er samt fórnarinnar virði því ef ég passa mig þá minnka bólgurnar og andlega líðanin fer mjög hátt upp á við. En ég þarf að passa mig að ég sé ekki að fara gera neitt annað þann daginn.

Orka mín um daginn er mis mikil. Ég myndi segja að á meðal degi væri hún svona eins og 30% af orku venjulegrar manneskju. Ég þarf að passa mig mikið á að ofgera mér ekki. Því þegar ég geri það þá þarf ég að borga til baka næstu daga.

Síðasta vetur var ég í verkefni í vinnunni og gat ekki ráðið vinnutíma mínum sjálf eins og vanalega. Ég var í hlutastarfi og vann 5,6 tíma á dag að meðaltali. Gat unnið minna ef ég var slæm og meira ef ég var góð. En þarna þurfti ég oft að vera 7-8 tíma á dag, stundum dag eftir dag, stundum nokkrir styttri dagar inni á milli. Mér leið eins og það hefði verið valtað yfir mig. Eins og ég hefði verið hjá einkaþjálfara sem hefði pískað mig áfram dag eftir dag. Eins og ég væri með verstu harðsperrur sem hægt væri að vera með.

En já eins og bólgurnar og hitatilfinningin væru ekki nóg. Já og síþreytan. Þá varð mér óglatt í byrjun janúar 2014 og sú ógleði hefur ekki farið eina einustu sekúndu. Hún er mis mikil, stundum kúgast ég, stundum æli ég. Ég þurfti að hætta að dansa og hætta að stunda ákefð í ræktinni. Ég hef örugglega hitt um 15 lækna, heimilislækna og ýmsa sérfræðilækna. Búin að fara í allskonar rannsóknir og prófa allskonar lyf. Niðurstaðan er á endanum sú allstaðar að þetta sé bara svona og búið sé að reyna allt sem hægt er að reyna. Þetta er bara einkenni vefjagigtarinnar.

Ef einhver er lélegur í reikningi þá gera þetta tæp 5 ár af stanslausri ógleði. 59 mánuðir. Tæpir 1800 dagar.

2013 var æðislegt ár! Ég fór reglulega í ræktina. Byrjaði að dansa og var á dansnámskeiðum 1-3 í viku. Fór á 1-4 danskvöld í viku. Fór í margar fjallgöngur og marga langa göngutúra. En ógleðin breytti þessu öllu. Ég reyndi fyrsta árið að halda áfram þessum áhugamálum en smám saman gafst ég bara upp. Síðustu 4 árin til samans er ég búin að vera álíka virk og á einum góðum mánuði árið 2013. Þetta ár hefur verið allra allra verst af þessum síðustu 5.

Geðheilsan hefur verið á hægri niðursveiflu með versnandi vefjagigt.

Nú náði ég mér upp úr ca 20 ára þunglyndi árið 2011 með því að stunda loftfirrtar þolæfingar á hverjum einasta degi í 30 daga. Ég hélt áfram að stunda þær reglulega og þegar geðheilsan datt eitthvað niður þá stundaði ég þær grimmt þar til geðheilsan fór upp aftur. Núna aftur á móti get ég ekki gert þessar þolæfingar. Þær ganga út á það að gera eitthvað með lítilli ákefð í ca 30 sekúndur og svo eitthvað með mikilli ákefð í 30 sekúndur. Ég get þetta núna í ca 2-3 mínútur. Ef ég myndi halda áfram þá myndi einhver afskaplega óheppinn starfsmaður World Class lenda í að þrífa upp ælu.

Í fyrra fékk ég blöðrubólgu í útlöndum og var með viðvarandi blöðrubólgueinkenni um hálft árið. Í ár tóku blöðrubólgueinkennin sig upp aftur án þess að ég væri með blöðrubólgu, og voru viðvarandi í ca 4 mánuði. Engin sérstök ástæða finnst. Sennilega bara vefjagigtin. Þeir sem þekkja ekki blöðrubólgu þá eru einkennin m.a þannig að manni finnst manni alltaf vera mál að pissa, þó maður sé nýbúinn. Oft verkur við lífbeinið. Alveg svakalega óþægilegt og maður fer ekki svona í langa bíltúra eða göngutúra.

Fyrri part árs fór svo líkaminn að vera meira pirripú. Síþreytan versnaði bara allt í einu. Ég gat oft varla haldið mér vakandi í vinnunni og eftir vinnu fór ég beint heim að sofa og var nánast eins og dauð í allt að 4 tíma. Þá fór ég að fara í B12 sprautur og fékk svo töflur, er byrjuð aftur í B12 sprautum núna. Ég fékk járn í æð í maí og aftur núna í nóvember. Fór líka á blóðþrýstingslækkandi lyf. B12 og járnið gerir eitthvað, en engin kraftaverk.

Ég hætti að vinna í júlí og ég treysti mér ekki til að fara að vinna í bráð. Ætla bara að reyna að finna einhvern bata. Ég er á biðlista eftir Bataskólanum og Þraut.

Ég hef farið til svo margra lækna til að reyna að verða „heilbrigð“. Losna við bólgurnar, ógleðina, síþreytuna, flensueinkennin og blöðrubólgueinkennin. En allstaðar mæti ég bara veggjum. Enda er vefjagigt og síþreyta ólæknandi, ennþá allavega. En samt. Ég bara einhvern veginn neita að trúa að ég geti ekki orðið betri. Og held áfram að betla blóðprufur og ráð. Það hlýtur að vera einhver rannsókn, einhver blóðprufa, einhver lyf, eða eitthvað þarna úti sem getur læknað mig!

Ég hef nú þegar eytt tugum ef ekki hundruði þúsunda í læknaheimsóknir, lyf og ýmis fæðubótarefni og vítamín. Allt til að reyna að verða betri! Allt með nákvæmlega engum árangri.

Ég er núna í meðferð hjá grasalækni og er að vonast til að finna einhverja lækningu þar. Ef ég bara gæti einhvern veginn losnað við ógleðina þá myndi líf mitt batna óendanlega!

Að fylgja ráðum grasalæknisins hefur kostað mig yfir 100 þúsund krónur á 7 vikum. Meira ef ég hefði ekki pantað ýmislegt af iherb. Ég hef vitað af grasalæknum lengi en ekki farið vegna kostnaðar, og bara uppgjafar. Hvað getur grasalæknir gert sem um 15 læknum hefur ekki tekist?

En á þessu stigi mála er ég bara orðin örvæntingafull. Ég get ekki sagt að ég sé betri eftir 7 vikna meðferð hjá grasalækni. Ég er á mjög takmörkuðu mataræði og að taka ýmis jurtalyf og fleira. Ógleðin er búin að vera í verri kantinum og síþreytan svakaleg. En inn í þetta spilar líka mjög þrálát flensueinkenni. Ég hef varla komist út úr húsi í 3 vikur.

En þó mér líði verr þá ætla ég samt að halda þetta út. Ég er heldur ekkert viss um að ég yrði betri ef ég myndi hætta að fylgja ráðleggingum hans. Vonandi er þetta bara líkaminn að lækna sig!

Grasalæknirinn greindi mig s.s með eitthvað sem heitir SIBO eða smágirnisbakteríuofvöxtur. Að það sé að valda ógleðinni. En ég fór svo til meltingarlæknis sem þekkir SIBO og var ekki sannfærður um að það væri að hrjá mig. Hann ætlar að spegla mig og setja mig í öndunarpróf, sjáum til hvort það komi eitthvað út úr því. En ég hef farið í speglun áður og 3 aðrir meltingarlæknar hafa sagt að það væri ekkert hægt að gera fyrir mig. Svo ég er ekki sérstaklega bjartsýn.

Ráðleggingar grasalæknisins:

Svelta bakteríurnar með því að borða ekki mat sem nærir þessar bakteríur.
Drepa bakteríurnar með því að nota jurtasýklalyf eða bakteríudrepandi jurtir.

[*] Sérblönduð jurtablanda frá Jurtaapótekinu (1 tsk x 3 á dag)
Engifer, pippali, mjólkurþistill, ylliblóm, myrra, hjartafró og fíflablöð

[*] Hlín, verkja- og bólgustillandi jurtablanda úr Jurtaapótekinu (1 tsk x 3 á dag)
Turmeric (Curcuma longa), mjaðurt (Filipendula ulmaria) og svartur pipar (Piper nigrum)

[*] L Glutamine (1 tsk x 2 á dag)

[*] Magnesium duft í vatni (1/2 tsk á dag)

[*] Ólífuolía, MCT olía og hörfrærolía (2 msk á dag af hverri)
Á mjög erfitt með þetta, verður svo sjúklega óglatt af olíunum. Tek þetta með jafn mörgum msk af sítrónusafa og hristi vel saman. Hef alls ekki verið nógu dugleg við þetta.

[*] Trönuberjasafi (hálfur dl á dag)

[*] Fróði, dropar frá Jurtaapótekinu (15 dropar x 3 á dag)
Ólífuolía, sítrónugras, oregano, timían og negull

[*] Berberine töflur (1 stk x 2 á dag)

[*] Allicin töflur (1 stk x 2 á dag)

[*] Mjólkursýrugerlar 299v (1 stk x 2 á dag)

[*] Sellerýsafi (450 ml á dag)
Þetta er reyndar að ráði vinar míns en með blessun frá grasalækninum

[*] Mataræði
Ég er á spes mataræði sem er núna basically egg, kjöt, fiskur, kiwi, eldað grænmeti og kókoshveitisörbylgjubrauð. Búin að borða fleiri kiwi síðustu 7 vikur en ég geri vanalega á svona 10 árum. Elska Golden Kiwi úr Costco!

Á þessu mataræði á ég að vera í allt að 2 ár. Það byrjar mjög takmarkað en bætist smám saman við það. Ég bíð svo spennt eftir að geta farið að borða banana aftur! Ég er reyndar að fara eftir lista núna frá grasalækninum en ekki þessum sem ég linka á, en þessi er líka til viðmiðunar.

Ég bjóst einhvern veginn við að heilsa mín myndi batna við að borða svona hreinan mat. Ekkert glúten, engar mjólkurvörur nema smjör, enginn sykur nema úr kiwi og berjum. En bólgurnar eru alveg eins og ógleðin engu betri. En það getur verið eðlilegt þegar maður er að taka svona mikið af allskonar dóti.

Ég reyni að fasta allavega 12 tíma á dag og reyni að hafa 4-5 tíma á milli máltíða. Út af MMC.

[*] Lifrarhreinsun
Ég gerði lifrarhreinsun um daginn. Ekki alveg þessa sem ég linka á en svipaða. Fór eftir ráðleggingum grasalæknisins. Þurfti að drekka hálfan lítra af trönuberjasafa á dag í 1,5 viku, blandað í hálfan lítra af vatni. Trönuberjasafi er algjör viðbjóður á bragðið nema mögulega hann sé blandaður svona ca 1 á móti 50 eða eitthvað. Lítraverðið á trönuberjasafa er í kringum 2400 kr. svo þetta var ansi dýr hreinsun! Tók líka negultöflur í 2 vikur á undan, 3 töflur 2 á dag.

Ég er í fullt af SIBO grúppum á facebook og þar rakst ég á talað um dálítið sem heitir The Nemechek Protocol, sem hefur reynst mörgum vel. Ef ráðleggingar grasalæknisins virka ekki þá ætla ég að skoða þetta betur.

******
Ég ákvað líka að skrifa þessa færslu vonandi það að einhvern tímann geti ég lesið þetta yfir og hugsað úff hvað ég var á vondum stað heilsulega séð og vá hvað ég er glöð að vera ekki þarna lengur. En vonandi ekki vá hvað ég var á góðum heilsulegum stað, ég vildi ósk að ég væri þarna enn.

Álftavatn og Selvík – Paradís á jörð

Ég er svo gífurlega heppin að hafa fengið núna 5 ár í röð að eyða viku í Selvík við Álftavatn í Grímsnesi, en það er orlofshúsasvæði Landsbankans.

Ég algjörlega elska þennan stað.

Elska, elska, elska.

Álftavatn er mjög grunnt svo maður getur eiginlega vaðið það allt saman. Ótrúlega fallegt vatn og ótrúlega fallegar eyjar í því.

Ég eyði árlegu vikunni í að vaða í vatninu, synda í vatninu, fara á árabát út á vatnið og fara á kajak út á vatnið. Já og ganga um í Þrastarskógi.

Ég er hálf að vona að umsjónarmennirnir fari að hætta og ég geti fengið að taka við!

Fengi samt örugglega ekki að vera með hund þar, né önnur dýr. *dæs* Ég held það sé ekkert annað vatn á Íslandi sem er svona æðislegt. Þarf mögulega að fara að flytja til útlanda svo ég fái tvær óskir mínar uppfylltar. Að búa við stóran fallegan skóg til að ganga um í og fallegt vatn til að vaða í og synda í.

Er líka að hálf vona að ég verði svo heppin að eignast sumarhúsalóð þarna eða sumarbústað, alveg við vatnið. Ég væri meira að segja tilbúin að selja íbúðina mína og flytja bara þarna ef ég fyndi réttu lóðina eða rétta bústaðinn!

Ég myndi samt reyna að fá í gegn breytingu á götunafni. Neðan-Sogsvegar er með því óþjálla sem ég hef heyrt.

Ég var meira að segja að gæla við að reyna að hafa samband við eigendur þarna og athuga hvort einhver væri í söluhugleiðingum. En eftir að ég missti örorkubæturnar þá er það enn fjarlægari draumur en það var.

Landsbankinn er alveg klárlega á besta staðnum við vatnið, þeir eiga landið alveg við Þrastarskóg. Það er samt alveg spotti að göngusvæðinu um Þrastarskóg og það væri vel hægt að leyfa fleiri bústaði þarna við vatnið en Ungmennafélagið má ekki selja né leigja lóðir þarna. *hágrát*

Ég fór nokkrum sinnum á kajak, algjört morð fyrir bakið á mér en ég kældi það alltaf vel niður með að synda í vatninu eftir á. Elska að vera á kajak á þessu vatni.

Ég ákvað að prófa að ganga alla göngustígana, þeir eru margir illa eða ekki merktir svo ég fann ekki einn göngustíginn fyrr en eftir nokkrar tilraunir.

Ég fór líka út á árabát sem mér finnst líka mjög gaman. Ein helsta gleði pabba var að fara út á bát á Þingvallavatni að vitja um og alltaf þegar ég fer að róa á árabáti þá finnst mér ég vera að heiðra minningu pabba og vera nærri honum.

Í fyrra uppgötvaði ég að hægt væri að ganga á milli og í kringum allar eyjarnar, svo það gerði ég held ég 5 daga í röð! Í ár viðraði því miður ekki til þess þó að veðrið hafi verið framar vonum miðað við rigningar&skítakuldatíðina.

Örorka metin 25% lægri, bætur lækka um 96% í kjölfarið

Það er aldeilis langt síðan ég hef skrifað eitthvað hérna. Það er bara rosalega langt síðan ég hef fundið hjá mér þörf til að tjá mig. Ég hef stundum byrjað á einhverju en ekki náð svo langt að klára eitthvað.

Tilefni tjáningarþarfar minnar kemur ekki af hinu góða.

Síðan 2009 hef ég fengið fullar bætur frá Tryggingastofnun, fyrst endurhæfingalífeyri og svo örorkulífeyri. Ég hef þurft að senda inn endurnýjun á hverju ári sem hefur alltaf gengið í gegn þegjandi og hljóðalaust, þó maður hafi alltaf beðið í óvissu með tilheyrandi kvíða og stressi.

Ein ástæða bótanna, svona lít ég reglulega út.

Nú í ár var óvissan enn lengri en áður því TR vildi allt í einu fá staðfestingu aftur um að ég hefði sótt um í lífeyrissjóði. Sem ég þurfti ekki að skila fyrir árin 2009, 2010, 2011, 2012, 2013, 2015, 2016 og 2017. Ég þurfti bara að skila því 2014, og svo aftur núna greinilega. Svo í staðinn fyrir að fá niðurstöðu í málið í ca mars/apríl fékk ég ekki niðurstöðu fyrr en á þriðjudaginn síðasta. Örorka mín rann út 1. maí.

Niðurstaðan er sú að ég telst núna með 50% örorku en ekki 75%. Ég fæ því ekki lengur örorkulífeyri heldur örorkustyrk.

Maður skyldi halda að fyrst að einstaklingur með 75% örorku fái fullar bætur að einstaklingur með 50% örorku myndi fá hlutfallslegar bætur, sem væru þá 67%.

En nei það er ekki svo einfalt. Né gott.

Hér koma nokkrar tölur:

Fullar örorkubætur eru 300.000, fyrir skatt. 243.075 eftir skatt (ef aðili býr einn).
Fullar örorkubætur eru 238.594, fyrir skatt. 204.352 eftir skatt. (ef aðili býr ekki einn)

https://www.tr.is/tryggingastofnun/reiknivel-lifeyris/reiknivel

Útúrdúr: Finnst ykkur skrítið að margir öryrkjar láta maka eða börn eldri en 18 ára skrá lögheimili sitt annars staðar? Með tilheyrandi áhættu ef upp kemst um þetta. Því jú 18 ára barn sem ætti helst bara að vera í skóla og lifa áhyggjulausu lífi skerðir bætur foreldris. Því það er jú mikið ódýrara að eiga og búa með 18 ára barni en 17 ára barni. 18 ára einstaklingar eiga náttúrulega bara að fullorðnast, hætta vitleysunni að vera í skóla og lifa áhyggjulausu lífi og fara að borga heim og hafa fullorðinsáhyggjur. Ég get bara ekki hugsað þá hugsun til enda að vera einstæður öryrki með 18 ára barn á heimilinu. Bæturnar lækka því barnið er orðið “fullorðið” og lækka því nú býrðu allt í einu með “fullorðnum” einstaklingi. En þú átt samt enn barn sem þú þarft og vilt hugsa um.
Utúrdúr lokið.

Allar tekjur hafa svo áhrif á þetta, eftir eitthvað ákveðið lítið frítekjumark. Fjármagnstekjur, leigutekjur, launatekjur… Ef öryrkinn er giftur þá hafa fjármagnstekjur maka áhrif.

Ef ég t.d myndi vilja leigja út íbúðina mína og leigja annars staðar þá flokkast leigutekjurnar mínar sem tekjur, alveg sama þó ég væri að borga hærri leigu annars staðar.

Ég er í hlutastarfi og ég veit ekki alveg hve mikið það lækkar lækkaði bæturnar hjá mér, en það eru einhver tugi prósenta. En ég kem kom samt út í ágætum plús. Áhugi minn á að hanga heima hjá mér allan daginn er mjög takmarkaður svo ég vil vinna, þó það bitni á heilsunni. Það er oft sagt að það borgi sig ekki að vinna með örorkubótum en mín reynsla er að það borgar sig alltaf. Aðeins meiri peningur í pyngjuna, ýmis fríðindi ef maður er hjá góðu fyrirtæki og góðu stéttarfélagi og það er gott að hanga ekki alltaf heima hjá sér.

En já aftur að 50% örorkunni og örorkustyrknum.

Fullur örorkustyrkur er 29.469 kr. á mánuði.

Tekjutengdur og skattskyldur, þ.e ef þú ert með tekjur. Ef ekki þá færðu alveg heilar 29.469 krónur til að lifa af mánuðinn. Það er nú ekkert mál, er það?

Ég fæ væntanlega bara hlutfall af þessum örorkustyrk því ég er með 50% örorkumat, þeir sem eru með 74% örorkumat hljóta að fá hærri styrk. Ég veit samt ekkert um þetta en fyndist allavega ekki eðlilegt að það væri sama upphæð fyrir 50% og 74%. En það sem mér finnst og TR finnst fer nú oft ekkert saman.

Ég er í hlutastarfi og við það að verða úrskurðuð sem 50% öryrki en ekki 75% lækka bætur mínar frá TR um 96%!

Nei þetta er ekki innsláttarvilla.

Ég fæ 4% af þeim bótum sem ég var að fá frá TR.

Manni munar um allt og mig munar um þessi tugi þúsunda sem ég missi. Ég tilheyrði 25% tekjulægstu einstaklingum landsins. Ég tilheyri núna 10% tekjulægstu einstaklingum landsins.

Ég sé alveg í anda ganga upp hjá vinnuveitenda að lækka starfshlutfall starfsmanns um þessa prósentu og lækka launin um 96%.

En merkilegt nokk er þetta metin sem varanleg örorka en þarf ekki að biðja um endurnýjun á hverju ári eins og með 75% örorkuna. Vá hvað það væri þægilegt ef 75% örorkan virkaði eins.

Ef heilsa mín myndi allt í einu snar batna þá myndi ég náttúrulega auka vinnuna, hækka í tekjum og bæturnar myndi núllast út. Þetta segir sig bara sjálft!

Samkvæmt TR: “Örorkustyrkur er hugsaður fyrir einstaklinga sem bera verulegan aukakostnað vegna örorku sinnar til dæmis vegna lyfja, læknishjálpar eða hjálpartækja.”

Ef þessi styrkur er sérstaklega hugsaður fyrir þá sem bera aukakostnað vegna örorku sinnar, af hverju í ósköpunum fá þeir þá ekki örorkuafslátt!?

En ég flokkast nú sem almennur borgari í heilbrigðiskerfinu, svo þetta þýðir að ég muni fara að borga meira fyrir lyf, sjúkraþjálfun og læknaheimsóknir. Ég borgaði 400% meira fyrir sjúkraþjálfun og læknaheimsóknir í síðasta mánuði en ég var að gera sem öryrki.

Ég mun líka þurfa að fara að borga í sund, bifreiðagjöld o.fl.

Þetta eru tugi þúsunda á ári. Svo í raun hafa ráðstöfunartekjur mínar ekki lækkað um þessi 96% heldur talsvert mikið meira en það.

Hefur heilsa mín batnað síðustu árin, sem útskýrir þessa breytingu á örorkumat? Ekki vitundarögn.

Bakið hefur í raun versnað eftir að ég byrjaði í núverandi starfi. Á 3 mánaða tímabili frá september – desember fór ég í 19 sjúkraþjálfunartíma til að koma bakinu í lag.

Það hentar bara bakinu á mér ekkert voðalega vel að þurfa að sitja við vinnu. Né standa. Best væri að geta staðið, legið, setið og gengið til skiptis í vinnunni. Ef þið vitið um eina þannig þá endilega sendið mér skilaboð!

Ef einhvern vantar hlutastarfsmann í vinnu sem ég get sinnt heiman að og þegar mér hentar. Eins og að svara tölvupóstum, lesa yfir skjöl, setja upp einfaldar heimasíður, uppfæra heimasíður, miðla af reynslu minni af sjálfshjálp, endurhæfingu, bataferli eða heilbrigðiskerfinu, eða eitthvað þannig þá má endilega hafa samband við mig. En allar aukatekjur væru afskaplega vel þegnar.

Ég hef ekki heilsu til að fara í reglulegt hærra starfshlutfall, frekar herði ég sultarólina og held þeirri heilsu sem ég hef.

Mér finnst mjög skrýtið að þetta sé, að ég held, byggt á mati eins læknis á vegum TR sem ég hitti í smá stund. Sennilega “spilaði ég mig ekki” “nógu veika” eða var bara ekki nógu trúanleg.

Þegar ég fór í gegnum ferlið að fá bætur í upphafi þá hitti ég sjúkraþjálfara, sálfræðing og lækni. Ætti ég ekki að eiga rétt á að hitta aftur sjúkraþjálfara og sálfræðing? Það var reyndar sjúkraþjálfari með lækninum en hann skoðaði mig ekkert, hann var bara ritari fyrir lækninn. Ég áttaði mig ekki á þá né átta mig enn á því hvort hann var þarna til að meta mig eða bara skrifa niður.

Ætti ekki að hafa samband við mig um þessa breytingu og spyrja hvort ég vilji andmæla niðurstöðunni?

Eina sem ég get gert er að kæra þetta og það tekur að meðaltali 5,24 mánuði. En það er einmitt það sem ég er búin að gera og bíð spennt eftir svari í kringum 22. nóvember næstkomandi.

Hvað ef heilsu minni myndi hraka snögglega eða ég missa vinnuna?

Vitiði hve auðvelt það er að fá vinnu þegar maður er ekki andlega og líkamlega heilsuhraustur og getur bara unnið hlutastarf? Það er bara hreint ekki auðvelt. Það fyrirfinnst varla sá yfirmaður sem myndi frekar ráða þannig manneskju frekar en heilsuhrausta manneskju í fullt starf.

Ég er búin að vera að drepast í skrokkinum út af stressi og andlega heilsan er þannig að mig langar helst bara að finna helli einhvers staðar þar sem enginn finnur mig og bara vera þar. Takk Tryggingastofnun!

Núna er ég sjúklega hrædd um að missa vinnuna og fá ekki aðra vinnu. Sjúklega hrædd um að andlega og líkamlega heilsan versni og ég hafi ekkert öryggi til að falla á. Á ég þá að lifa bara á nokkrum þúsund köllum á mánuði? Takk Tryggingastofnun!

Takk elsku Tryggingastofnun fyrir að valda kvíðasjúklingi og bakverkjasjúklingi kvíða, óöryggi og stressi. Það var alveg nóg til staðar fyrir.

**********************************************

Samkvæmt reglugerð um örorkumat sem kærastinn fann á netinu, uppfylli ég staðalinn um 75% örorku bara strax við að haka við “Getur ekki setið án óþæginda”, þar fæ ég 15 stig. Það er svo vel hægt að draga saman í 12 stig í andlega hlutanum sem uppfyllir þá staðalinn tvisvar.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti
379/1999
Reglugerð um örorkumat.
https://www.reglugerd.is/reglugerdir/allar/nr/379-1999

Ef einhver vill draga í efa með að ég finni fyrir “óþægindum” þegar ég sit. Svona eins og læknirinn augljóslega gerði.

Sérstakur stóll í vinnunni
Bakpúði í bílnum
Bakpúði í vinnunni til að taka með á fundi
Bakpúði í sófanum heima sem ég ligg alltaf á (ég sit ekki heima hjá mér nema þegar ég borða),
Líkamskoddinn í rúminu sem ég nota líka í sófanum þegar ég er xtra slæm og get ekki legið án svakalegra verkja
Bakpúðarnir sem voru notaðir í annað en fá núna að ferðast með í leikhús, bíó og svo framvegis.

Vinnusamingur öryrkja

Munið þið eftir einhverju af þeim skiptum sem ég hef nefnt að mér myndi finnast algjör snilld ef öryrkjar myndu fá einhvern stuðning til að komast út á vinnumarkaðinn aftur?

Eins og t.d fólk í atvinnuleit fékk einhvern tímann. Atvinnurekandinn fékk þá einhvern styrk.

Núna eru tæp 8 ár síðan ég hætti að vinna vegna veikinda. Um 5-6 ár síðan ég varð aftur tilbúin til að fara út á vinnumarkaðinn.

Öll þessi ár hef ég aldrei heyrt minnst á að svona samningur er til!

Ég var bara að leita eftir einhverju á netinu og datt óvart inn á:
Atvinna með stuðningi (AMS) og Vinnusamningur.

Ég hef verið á göngudeild geðdeildar, Hvítabandinu, Reykjalundi og hjá VIRK. Hjá ýmsum heimilislæknum, sálfræðingum og geðlæknum.

Aldrei heyrt á þetta minnst.

Ég hef skrifað athugasemdir og pistla um hvað þetta væri sniðugt.

Enginn sem hefur lesið það hefur vitað af þessu og látið mig vita.

Vá hvað þetta hefði getað auðveldað mér að fá vinnu fyrr.

Eins og staðan er í dag hefur mér boðist 3 vinnur á 6 árum. Og ég hef tekið þeim öllum!

Endurgreiðsla
Vinnumálastofnun endurgreiðir atvinnurekanda mánaðarlega hlutfall af launum og launatengdum gjöldum sem er 75% fyrstu tvö árin en lækkar síðan um 10% með tólf mánaða millibili þar til lágmarks endurgreiðsluhlutfalli er náð sem er 25%.

Þið megið deila eins og vindurinn með öryrkjum sem þið þekkið sem eru í atvinnuleit, og til fólks sem sér um ráðningar hjá fyrirtækjum! :)

******
Vinnumálastofnun – Vinnusamningar öryrkja
Vinnumálastofnun – Upplýsingar til atvinnurekanda

Starfsgetuframhaldspælingar

“Í frumvarpinu er miðað við að þeir sem eru með meiri en 50 prósenta starfsgetu fái engar bætur. Þeir sem eru með starfsgetu frá 25 upp í 50 fái hálfar bætur og þeir sem eru undir 25 prósentum fái fullar bætur.”

Ég trúi bara varla að þetta sé rétt. Eiga öryrkjar sem vinna 51% vinnu á lágmarkslaunum þá bara að fara að lifa á rúmum 100 þúsund krónum á mánuði? Það hlýtur að vanta eitthvað þarna inn í.

Annars er spurning hvort að yfirvöld vilji ekki bara búa til einn gasklefa og bjóða öryrkjum og ellilífeyrisþegum ókeypis sætaferðir?

Þegar ég byrjaði að stíga mín fyrstu skref út á vinnumarkaðinn aftur eftir veikindi sótti ég um 10% starf á frístundaheimili því ég var ekki viss um að þola meira. En réði mig í 20% af því að það var lægsta prósentan í boði, og var smá stressuð yfir því að þurfa að vinna svona mikið. Já ég var veik.

Ef þetta kerfi hefði verið í gangi og ég vitað af því að ég myndi missa hálfar bætur við 25% og allar bætur við 50% þá hefði ég aldrei látið á það reyna að fá mér hlutastarf því ég hefði komið fjárhagslega illa út úr því.

Miðað við mína sögu hefði ég trúlega verið metin með 0-20% starfsgetu. Eða vona það. Ég hafði jú reynt að taka mitt eigið líf vegna líkamlegra og andlegra verkja. Og hefði pottþétt gert aðra tilraun ef ég hefði misst bæturnar, því því þá hefði ég ekki haft efni á að lifa. Ég hefði líka örugglega gert aðra tilraun hefði ég ekki komist aftur út á vinnumarkaðinn.

Því það að vinna hlutastarf bætir lífsgæði manns óendanlega. Bætir félagslega, andlega og líkamlega heilsu. Já og fjárhagshliðina. Maður getur leyft sér hluti sem maður getur ekki bara á örorkubótum.

Frábær hlutastörf í boði á frístundaheimilunum

Ég hef verið að hvetja öryrkja og skólafólk til að sækja um vinnu á frístundaheimilum. Algjörlega fullkominn vinnutími fyrir fólk sem getur bara unnið takmarkað (10-50%, eftir hádegi). Það er alltaf mannekla svo það er auðvelt að fá vinnu. Undir 33% telst maður hlutastarfsmaður með minni réttindi, svo það getur borgað sig að reyna að komast í 33%.

Það er allskonar fólk sem vinnur á frístundaheimilunum. Ungt fólk í menntaskóla og háskóla. Fólk á ellilífeyrisaldri. Útlendingar sem tala litla íslensku. Útlendingar sem tala fína íslensku. Fólk í hjólastól. Og svo framvegis. Það eru alveg um 50 ár á milli yngsta fólksins og elsta.

Þetta er skemmtileg vinna. Ég meina hve margir fá borgað fyrir að perla, teikna, sitja úti í sólbaði, horfa á Disney myndir, og svo framvegis!

Alveg ágætlega launað þannig lagað séð. Sérstaklega miðað við að það er fáránlega erfitt fyrir fólk að fá hlutastörf. Svo það er oft þetta eða ekkert. Eins og í mínu tilfelli þegar ég var að stíga mín fyrstu spor aftur út á vinnumarkaðinn eftir veikindi.

Það eru líka ýmsir styrkir sem eru mjög góð búbót. Bæði frá St.Rv. og BSRB. Skólastyrkir, líkamsræktarstyrkir, tölvustyrkir, tómstundastyrkir, sjúkraþjálfunarstyrkir og svo framvegis.

Ég fékk samtals hundruði þúsunda í styrki þau rúmu 3 ár sem ég var þarna. Nánar tiltekið 663.900 frá St.Rv. og 107.363 frá BSRB. Frá hausti 2011 til janúars 2015. Já og ókeypis í sund!

Fyrir öryrkja er líka ótrúlega mikilvægt að komast aðeins að heiman og vinna. Gott fyrir andlegu, líkamlegu og félagslega hliðina. Launin eru aukaatriði. Eða voru það allavega í mínu tilfelli. Ég ætlaði upphaflega að finna sjálfboðaliðastarf þar til mér var bent á frístundaheimilin.

Rak samt augun í eitt sem mér fannst áhugavert þegar ég var að skoða launaflokkana. Dýrahirðar eru 21 launaflokki fyrir ofan frístundaleiðbeinendur. Frístundaráðgjafar eru reyndar 2 launaflokkum hærri en dýrahirðar, en það eru þeir sem eru með háskólamenntun, eins og ég. Þó svo það geri mann ekkert endilega að betri starfsmanni.

Mér finnst einhvern veginn meiri ábyrgð fólgin í að sjá um börn en dýr. Þó maður sé mikið að leika sér í vinnunni þá þarf maður að fást við ýmislegt sem kemur upp og það getur skipt virkilegu máli fyrir líðan barna hvernig það er gert.

Mér fannst líka athyglisvert þegar ég skipti um starf að ég fékk svipuð laun fyrir 70% vinnu á verkstæði og lager og ég hefði fengið fyrir 100% vinnu á frístundaheimili. En það er svona munurinn á einkareknu fyrirtæki í gróðabusiness og uppeldisstofnun hjá Reykjavíkurborg. En mér finnst svo að það ætti að vera öfugt. En ég hefði verið að fá um 300 þúsund á mánuði fyrir fulla vinnu á frístundaheimilinu, launin hafa hækkað aðeins síðan. Hefði fengið eitthvað minna á frístundaheimilinu án háskólamenntunar.

Það myndi skipta ótrúlegu máli að það væri fleira starfsfólk á frístundaheimilum sem væri uppeldismenntað eða sem hefði setið einhver námskeið. Já og ef hverjum starfsmanni væri ekki ætlað að sjá um 16-18 börn. Eeeen það er annað mál…

Allavega hvet fólk til að sækja um á frístundaheimilunum. Ég perlaði meira eftir þrítugt en fyrir þrítugt. ;)

Svo er ráðning bara yfir vetrartímabilið svo maður fær ofsa gott og langt sumarfrí! Reyndar ólaunað, en samt. Það sem ég sakna 2,5 mánaða sumarfríanna minna! :)

***

Starfsheiti og stig

Launatöflur

BSRB styrkir

St.Rv. styrkir

St.Rv. Gott að vita námskeið
(ég fór á mjög mörg námskeið þarna)

Starfsgetumat öryrkja

Ég var að lesa frétt fyrir nokkrum dögum um að áhugi sé fyrir því að allir öryrkjar fari í starfsgetumat, þar sem starfsgeta öryrkja er metin og ótekjutengdar hlutabætur gagnvart atvinnutekjum teknar upp. Í stað fyrirkomulagsins sem er núna í gildi.

Þetta hræðir að sjálfsögðu marga, ef ekki alla, öryrkja.

Hvað mun þetta þýða? Hverjir munu meta starfsgetu öryrkja? Það er enginn hæfari til þess en öryrkinn sjálfur en mun vera hlustað á hann? Verður öryrkjunum hjálpað að fá vinnu eða verður þeim bara hent út á guð og gaddinn? Ekki ættu þeir rétt á atvinnuleysisbótum.

Hvað mun þetta þýða fyrir fólk eins og mig sem er í hlutastarfi. Munu ráðstöfunartekjur mínar lækka við þetta? Munu bæturnar sem ég fæ verða lægri en ég er að fá í dag? Staðan hjá mér er sú að ég fæ það “há laun” að bæturnar eru ekkert miklar sem ég er að fá, en það munar um allt og mig hryllir við ef þær myndu lækka eftir starfsgetumat. Þetta hefur bara engan veginn verið kynnt nógu vel fyrir öryrkjum.

Bæturnar eru heldur ekki allt sem skiptir máli, heldur ódýrari tímar hjá sjúkraþjálfara (1461 kr, í staðinn fyrir 5842 fyrir fyrstu 5 skiptin og 4674 fyrir næstu skipti), ódýrari læknaheimsóknir og ódýrari lyf. Ég væri t.d að borga meira en 50 þúsund meira á ári fyrir sjúkraþjálfaraheimsóknir, og ég þarf þær til að geta stundað vinnu og lifað eins verkjalitlu lífi og hægt er.

Ég væri með hærri ráðstöfunartekjur ef ég væri í 100% vinnu. Í hinum fullkomna heimi fyndist mér að bæturnar ættu að bæta upp það tekjutap sem veikindi mín kosta mig. Allavega upp að hærra marki en þær gera í dag.

Ef ég hefði ekki dottið út af vinnumarkaði vegna veikinda væri ég talsvert tekjuhærri en ég er í dag, og hefði verið síðustu 7 árin. Við erum að tala um allmargar milljónir. Bara svona ef einhverjir eru að hugsa einhverja vitleysu eins og það sé val að vera öryrki eða ekki.

Nota hérna tækifærið og bendi á fyrri pistil: Þegar ég verð stór ætla ég að verða öryrki.

Ég er algjörlega hlynnt því að öryrkjum verði gert auðveldara fyrir að fara út á vinnumarkaðinn en er alls ekki sannfærð um að þetta sé rétta leiðin.

Rétta leiðin væri:

Að búa til atvinnumiðlun fyrir öryrkja. Þar sem öryrki getur komið og sagt hey mig langar til að vinna. Ég treysti mér að vinna við svona, svona og svona vinnu. Ég treysti mér til að vera í svona háu hlutfalli.

Og það er bara einfaldlega fundin vinna fyrir þetta fólk.

Margir öryrkjar, eins og ég, geta skuldbundið sig í ákveðið hlutfall á mánuði. Aðrir eiga misgóða daga og gætu skuldbundið sig í ákveðið hlutfall á mánuði, með sveigjanleika. Ef heilsan leyfir ekki þá bara mætir það ekki. Ef heilsan leyfir þá mætir það.

Hérna er ég bara að tala um þá sem eru vinnufærir. Sumir eru ekki vinnufærir og verða það aldrei en aðrir myndu verða vinnufærir ef þeir fengju nógu góða endurhæfingu. Sem skortir því miður í þessu þjóðfélagi.

Nota hérna tækifærið og bendi á annan fyrri pistil: Daumur öryrkjans.

Ég sé fyrir mér að hægt væri að stofna vinnustað sérstaklega fyrir öryrkja. Þar sem þeim er fundin einhver vinna sem þeir geta sinnt á staðnum.

Ég sé líka fyrir mér að það væri hægt að bjóða fyrirtækjum afleysingafólk. Ef t.d það koma upp veikindi og það vantar einhvern til að hlaupa í skarðið að hægt væri að hafa samband við vinnustaðinn og athuga hvort einhver gæti það. Hægt væri að vera í samstarfi við fyrirtæki sem gætu þurft hjálp yfir ákveðinn tíma dags eða ákveðinn tíma árs. Eins og dekkjaverkstæði, matsölustaðir og fleira.

Sé líka fyrir mér að fyrirtæki gætu ráðið öryrkja til reynslu og fengið eitthvað frá ríkinu fyrir það. Ef það gengur upp þá frábært, ef ekki þá væri enginn skaði.

Auðvitað myndi kosta að stofna svona atvinnumiðlun og vinnustað. En það er bara svo mikilvægt að þeir sem geta unnið geri það. Það er svo ótrúlega dýrmætt fyrir líkamlega, andlega og félagslega heilsu.

Ég er btw alveg til í að hjálpa ríkinu í að útfæra eitthvað svona. Verðið bara í bandi! ;)

Það þarf líka að kynna betur fyrir öryrkjum að þeir lækki ekki í ráðstöfunartekjum við að vinna. Ég get ekki komið út í mínus nema ég fari yfir 4.319.396 á ári eða 359.950 á mánuði. Þá detta bæturnar út og ráðstöfunartekjurnar lækka.

Ein króna til eða frá getur kostað mann ansi mikið, ef maður er kominn upp í þessa upphæð. Ein króna minna og ráðstöfunartekjur viðkomandi eru 313.072 á mánuði. Einni krónu hærri og þær detta niður í 275.351 á mánuði. Lauslega áætlað á vef TR (vantar inn í ýmis iðgjöld o.fl). Til að fá sömu ráðstöfunartekjur þyrftu launin að hækka úr 359.950 í 422.548 eða um 62.598. Sé alveg að það gangi við samningaborðið.

Sem er algjörlega fáránlegt. Að þetta haldist ekki í hendur. Ég trúi ekki að einhver ætti að geta komið út í mínus annars.

Fyrir utan að þetta er ekki bara spursmál um ráðstöfunartekjur. Heldur er þetta svo mikilvægt fyrir líkamlegu andlegu og félagslegu heilsuna. Fyrir utan fullt af styrkjum og fríðindum sem flestir geta fengið. Eins og styrki fyrir líkamsrækt, sjúkraþjálfun, sálfræðingi og fleiru. Og ódýran hádegismat í mörgum tilfellum.

Heilsa mín, líkamlega, andlega og félagslega, væri ekki nærri jafn góð ef ég væri ekki að vinna. Hún væri ekki nærri jafn góð heldur ef ég væri neydd til að vinna meira en ég treysti mér í. Að öllum líkindum væri ég 6 feet under því ég hefði gert sjálfsvígstilraun númer 2, og ekki hætt við eins og síðast. Í staðinn hefur ekki komið upp sjálfsvígslöngun hjá mér í um 4 ár! Sem var til staðar non stop í hátt í 20 ár.

Þegar ég var búin að ná þeim bata að treysta mér aftur út á vinnumarkaðinn þá var ég hjá VIRK. Og þeir vissu bara ekkert hvað þeir ættu að gera við mig. Því ég er háskólamenntuð og mér skildist að þeir hefðu bara ekkert reynslu af því að aðstoða háskólamenntaða að fá starf. Allavega ekki á þeim tíma.

Svo ég ákvað bara sjálf að finna mér eitthvað. Sótti um út um allt en fékk engin svör, nema í mesta lagi að engin hlutastörf væru í boði. Ég ætlaði því að finna eitthvað sjálfboðaliðastarf. En var svo bent á frístundaheimilin og réði mig þar í 20% starf. Ég vissi ekki hvernig vinnan færi í andlegu og líkamlegu hliðina. Hve mikið álag þetta væri. Svo ég réði mig bara í lægstu prósentu sem í boði var. Eftir nokkra daga var ég komin upp í rúmlega 30% og einhverjum vikum eftir það upp í rúmlega 40%. 50% er almennt hæsta hlutfall í boði þar. Núna er ég komin upp í 70% vinnu, í öðrum geira. Er því miður ekki viss um að ég muni nokkurn tímann treysta mér í hærra hlutfall en það. En það kemur bara í ljós.

En ef ég hefði ekki haft bein í nefinu til að fara að finna mér eitthvað sjálf og verið svo rosalega heppin að lenda á frístundaheimili þá er ég ekkert viss hvort ég væri nokkuð byrjuð að vinna í dag.

Og hryllir við að hugsa um hvernig staðan væri á andlegu, líkamlegu og félagslegu hliðinni.

Ég er menntaður tölvunarfræðingur og það vildi enginn ráða mig í starf. Nema frístundaheimilin. Bæði af því að það er mjög ljóst þegar fólk gúglar mig að ég hef átt við andleg og líkamleg veikindi að glíma. Og af því að ég get bara unnið hlutastarf. Það tók mig nokkur ár að fá aðra vinnu en á frístundaheimili Ekki það að það væri slæmt að vinna á frístundaheimili, en það var ekki það sem mig langaði að gera til 67 ár aldurs.

Það vill bara nánast enginn ráða öryrkja né í hlutastarf. Hvað þá bæði!

Ég vil nota þetta tækifæri til að benda öryrkjum á frístundaheimilin. Þetta er skemmtileg vinna. Ég meina hve margir fá borgað fyrir að perla, teikna, sitja úti í sólbaði, horfa á Disney myndir, og svo framvegis! Það er líka alltaf skortur á starfsfólki svo tiltölulega auðvelt að fá vinnu. Það er t.d bara hægt að sækja um NÚNA!

Ég vil líka nota þetta tækifæri til að þakka :

Gufunesbæ fyrir að ráða mig á frístundaheimili. Ég sakna oft vinnunnar, barnanna og samstarfsfélaganna.

Opnum kerfum fyrir að ráða mig sem þjónustufulltrúa á verkstæði og lager. Ég sakna oft vinnunnar, fjölskylduandrúmsloftsins og samstarfsfélaganna.

Advania fyrir að ráða mig sem hugbúnaðarprófara.

Kjör öryrkja

Kjör öryrkja

Það hefur ekki lítið verið fjallað um örorkubætur í þjóðfélaginu síðustu vikur. Ég held ég hafi sjaldan verið jafn leið og reið yfir nokkrum fréttaflutningi.

Reiðust varð ég þegar Vigdís Hauks sagði að eðlilegt væri að öryrkjar væru með lægri ráðstöfunartekjur því það er kostnaður sem fylgir því að vera í vinnu og með börn á leikskóla. Af því að öryrkjar og börn öryrkja eiga bara að vera í einangrun heima hjá sér?

Ég hef kosið Framsóknarflokkinn, fyrir langa löngu. Ég mun aldrei nokkurn tímann kjósa Framsóknarflokkinn aftur. Aldrei nokkurn tímann.

Reið varð ég líka þegar Bjarni Ben talaði um fólkið sem færi á fætur á morgnana og ynni fullan vinnudag og hefði samt ekki hærri ráðstöfunartekjur en öryrkjar. Eins og það að vera öryrki sé val?

Ég hef líka kosið Sjálfstæðisflokkinn. Ég held ég geti líka fullyrt að ég muni aldrei kjósa Sjálfstæðisflokkinn aftur.

Ég er svo ótrúlega heppin að vera öryrki sem getur unnið hlutastarf. Það gerir það að verkum að ég get lifað mannsæmandi lífi. Ekki bara skilar það hærri ráðstöfunartekjum á mánuði heldur eru ýmis fríðindi sem fylgja því að vera á atvinnumarkaðnum. En það eru margir öryrkjar sem eru ekki jafn heppnir og ég! Sumir geta ekki unnið. Aðrir geta unnið hlutastarf en fá ekkert hlutastarf sem hentar þeim eða fá bara ekkert hlutastarf. Áður en ég varð öryrki starfaði ég sem kerfisstjóri og gat valið úr vinnum. Við það að verða öryrki og geta bara unnið hlutastarf minnkuðu starfsmöguleikar mínir um ca 99% og háskólagráðan mín kemur ekki að gagni í neinu því starfi sem mér býðst.

Ef ég væri ekki öryrki væru launatekjur mínar tvöfalt hærri en þær eru í dag. En ég kýs allan daginn, alla daga, heilsu fram yfir peninga.

En við skulum tala um öll fríðindin sem fylgja því að vera í vinnu! Að sjálfsögðu mismunandi eftir fyrirtækjum, stéttarfélögum og starfsmannafélögum. En allir á atvinnumarkaðnum fá talsverð fríðindi í sínum störfum.

Ég ætla að minnast hér á nokkur:

1. Líkamsræktarstyrkir
Þetta getur verið á bilinu 30-50 þúsund ca. Skattfrjálst.

2. Matur
Í vinnunni minni er boðið upp á hafragraut á morgnana, heitan mat í hádeginu og svo get ég gengið í skyr, kex o.fl. eins og ég vil. Ég borga talsvert minna fyrir þetta á dag en fyrir eina pylsu úti í sjoppu. Svo tæknilega séð þyrfti ég bara að punga út fyrir kvöldmat virka daga og svo fyrir máltíðum um helgar.

3. Styrkir fyrir meðferðum á líkama og sál
Allt að 60 þúsund krónum hjá mínu stéttarfélagi

4. Jólahlaðborð
Sum fyrirtæki rukka eitthvað fyrir þetta, önnur ekki. Öryrkjar fá ekkert jólahlaðborð og hafa ekki efni á því á sínum bótum.

5. Árshátíðir
Ég held að flest fyrirtæki séu með ókeypis árshátíðir. Fyrirtækið mitt bauð mér í ár til Berlínar! Öryrkjar fá engar árshátíðir.

6. Samgöngustyrkir
Mörg fyrirtæki bjóða upp á samgöngustyrki svo mjög ódýrt er fyrir fólk að ferðast úr og í vinnu.

7. Ýmis dagamunur
Stundum er bakkelsi eða bjór í boði í vinnunni. Einu sinni á ári förum við í keilu.

8. Fartölvustyrkir
Sum starfsmannafélög og stéttarfélög bjóða upp á fartölvustyrki. Ég hef einu sinni fengið 100 þúsund kr. styrk.

9. Sumarbústaðir
Allir sem greiða í stéttarfélög hafa aðgang að tiltölulega ódýrum sumarbústöðum. Öryrkjar hafa engan aðgang að ódýrum sumarbústöðum.

10. Gjafabréf í flug
Mörg stéttarfélög bjóða upp á gjafabréf með góðum afslætti í flug. Öryrkjar fá enga þannig díla.

11. Nám og tómstundastyrkir
Öll stéttarfélög bjóða upp á styrk fyrir námi og tómstundastyrkju. Þegar ég vann hjá Reykjavíkurborg fékk ég árlega 150 þúsund króna styrki sem ég notaði í dansnámskeið, og ýmis námskeið eins og hugleiðslunámskeið og Dale Carnegie. Er því miður ekki svo heppin að geta gengið í þannig sjóð lengur.

12. Félagsskapur
Bara það að fara út úr húsi og hitta annað fólk eru ótrúleg fríðindi.

13. Jólagjafir
Flest fyrirtæki gefa jólagjafir. Geta verið eitthvað smátt en alveg upp í matargjafir og gjafakort.

Svo þó fólk sé með lágmarkstekjur og með sömu ráðstöfunartekjur og öryrkjar þá er það að fá fullt af fríðindum sem öryrkjar hafa ekki. Fólk með lágmarkstekjur hefur líka val um að skipta um vinnu, og margir geta unnið yfirvinnu til að auka tekjurnar.

Ég held að margir haldi að öryrkjar séu öryrkjar bara að gamni sínu og það fylgi því enginn kostnaður. En ég held mér sé óhætt að fullyrða að hver einn og einasti öryrki sé að borga fyrir lyf, meðferðir á líkama og sál og/eða hjálpartæki. Sem megnið af heilbrigðum einstaklingum á vinnumarkaði gerir ekki.

Svo það er algjörlega verið að bera saman epli og appelsínur hérna.

Svo er margt frekar ósanngjarnt eins og:

1. Bætur detta bara allt í einu út við ákveðna upphæð, sem skerðir ráðstöfunartekjur
Bætur falla niður við 4.319.396 á ári. Einni krónu minna og ráðstöfunartekjur viðkomandi eru 313.072 á mánuði. Einni krónu hærri og þær detta niður í 275.351 á mánuði. Eða um 37.721 kr á mánuði! Lauslega áætlað á vef TR (vantar inn í ýmis iðgjöld o.fl). Til að fá sömu ráðstöfunartekjur þyrftu launin að hækka úr 359.950 í 422.548 eða um 62.598. Sé alveg að það gangi við samningaborðið… Ekki það að ég haldi að margir öryrkjar hafi lent í þessu en þetta er samt alveg fáránlegt. Bætur og laun ættu að haldast í hendur þannig að svona geti ekki gerst.

2. Bætur lækka ef maður byrjar að búa með einhverjum.
Því þær eru svo rosalega háar fyrir.

3. Leigutekjur flokkast sem tekjur sem lækka bætur.
Ég á eigin íbúð. Ef ég myndi ákveða að flytja annað og leigja út íbúðina mína þá fengi ég leigutekjur sem lækka bæturnar. Alveg sama þó ég væri að borga leigu einhvern staðar sem væri hærri en leigutekjurnar. Alveg sama þó leigutekjurnar væru bara að dekka kostnaðinn við íbúðina. Svo ég þyrfti helst að selja íbúðina mína ef ég myndi vilja flytja tímabundið út á land.

Svo er þetta náttúrulega litla málið með andlegu og líkamlegu verkina sem hrjá öryrkja. En það náttúrulega tekur því ekkert að minnast á það. Að öryrkjar eru öryrkjar af ástæðu!

Hver einn og einasti öryrki myndi alla daga, allan daginn, kjósa að vera líkamlega og andlega heilbrigður einstaklingur með lágmarkslaun fram yfir að vera öryrki.

1. Hækkum bætur

2. Búum til styrktarkerfi fyrir öryrkja svo þeir geti fengið styrki og aðgang að ýmsum fríðindum eins og vinnandi fólk

3. Eflum forvarnir

4. Stofnum atvinnumiðlun fyrir öryrkja

5. Bætum endurhæfingarkerfið!

Með því að efla forvarnir og bæta endurhæfingarkerfið yrðu mun færri öryrkjar en ella, og hægt væri að koma mörgum út á atvinnumarkaðinn aftur!

Ég vil nota tækifærið og benda á eftirfarandi skrif

Leið mín að bata

Draumur öryrkjans

Ef einhver vill ráða mig í vinnu eða í nefnd til að bæta heilsu landans þá er ferilskrá mín hérna á síðunni og allar upplýsingar til að ná sambandi við mig. ;)

Draumur öryrkjans

Draumur öryrkjans

Vegna margra frétta undanfarið um öryrkja hef ég ákveðið að henda í smá færslu. Ok kannski ekki alveg smá. Ég kann víst voða illa að skrifa bara smá. ;)

Ég heiti Linda Rós og ég er 35 ára. Ég er á örorkubótum og hef verið það í nokkur ár núna. Ég byrjaði á endurhæfingarlífeyri árið 2009 og fór svo yfir á örorkubætur. Flestir öryrkjar eru öryrkjar vegna geðraskana eða stoðkerfisvandamála, eða vegna beggja, eins og í mínu tilfelli.

Að mínu mati væri fjöldi öryrkja margfalt lægri á Íslandi með því einfaldlega að setja í gang fyrirbyggjandi aðgerðir og öflug endurhæfingarúrræði.

Mér finnst afskaplega sorglegt að horfa upp á hve mörgum í þjóðfélaginu líður illa. Mér finnst enn sorglegra hve erfitt er fyrir fólk að fá aðstoð við að ná betri líðan. Andlegri, líkamlegri og félagslegri.

Skilgreining Alþjóðaheilbrigðisstofnunar á heilbrigði er einmitt andleg, líkamleg og félagsleg vellíðan.

Sagan mín

Mín saga er sú að 6 ára gömul fór ég að þjást af kvíða og lágu sjálfsmati. Mín fyrsta minning úr grunnskóla er frá þeim tíma er við byrjuðum að læra stafrófið. Ég hafði verið veik, misst úr einhverja daga og börnin í bekknum búin að læra einhverja stafi. Ég var alveg fullviss um að ég myndi aldrei ná börnunum og myndi aldrei geta lært stafrófið, hvað þá að lesa. Ég var líka alveg fullviss um að hinir krakkarnir myndu ná því strax.

Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig líf einstaklings sem byrjar skólagönguna svona verður þegar ekki er gripið í taumana.

Ég man ekki hvenær ég hugsaði fyrst um að ganga niður að Þingvallavatni, en æskuheimili mitt er í um 3 km fjarlægð frá vatninu, ganga út í það og synda út í buskann þar til dauðinn tæki mig. En ég myndi giska á að ég hafi verið um 11 ára. Ég man ekki hvort að dauðalöngunin hefði tekið yfir líf mitt þá en það gerðist fljótlega. Í hátt í 20 ár langaði mig meira til að deyja en lifa. Hverja einustu vökustund hvern einasta dag. En ég gerði aldrei neina tilraun, ekki fyrr en í janúar 2009. Upp að því hafði ég alltaf bara velt boltanum á undan mér. Ég vildi ekki særa fólkið í kringum mig, ég var hrædd við allar leiðir sem myndu leiða til dauða míns, ég var haldin frestunaráráttu og svo framvegis.

Ég átti alveg góðar stundir en þær náðu aldrei að ná mér á það stig að mig langaði meira til að lifa en deyja. Ég þekkti ekkert annað en að vera kvíðin, líða illa og vera með lágt sjálfsmat svo ég bara hélt áfram að lifa þannig. Þar til örlagaríkt kvöld, 4. janúar 2009, þar sem ég keyrði upp í sumarbústað, lagðist á gólfið, setti gasofninn á fullt og beið þess að loksins, loksins fá að deyja. Þarna var sko komin skotheld leið sem myndi tryggja dauða minn á sársaukalausan hátt og án þess að ég ætti á hættu að verða örkumla. Ég var búin að plana þetta vel, finna ástæðu til að skilja kærastann og hundinn eftir heima og passa að gaskúturinn væri stútfullur. Ég var með svefntöflur en var svo glöð að vera loksins þarna að ég tók þær ekki. En þetta er leið sem tekur langan tíma og ég var ekki syfjuð svo eftir um 2 tíma af hugsunum um fjölskyldu, ættingja og hundinn minn þá hætti ég við.

En þá loksins fór eitthvað að gerast í mínum málum. Ég fékk loks aðstoð! Í um 8 ár þar á undan hafði ég leitað hjálpar til ýmissa geðlækna og heimilislækna sem gáfu mér bara töflur eftir töflur eftir töflur sem áttu það allar sameiginlegt að annað hvort hjálpa ekki neitt eða gera illt verra.

Ég var hjá geðlækni og hafði verið í nokkra mánuði áður en ég endaði uppi í sumarbústað. Ég var búin að segja honum hvað ég hafði planað en hann hafði ekki tekið mig alvarlega. Ég sendi honum tölvupóst daginn eftir sjálfsvígstilraunina og hann hringdi í mig. Ég treysti mér ekki til að tala við hann í símann og sendi honum annan tölvupóst og bað hann um að gefa mér tíma við fyrsta tækifæri. Þetta var 5. janúar 2009 og ég bíð enn eftir svari.

Ég ætlaði eftir þetta bara að halda gamla lífinu áfram, fór í vinnuna á mánudeginum, en sá fljótt að ég gæti bara ekki velt boltanum á undan mér lengur. Hann var orðinn alltof stór og pikkfastur. Svo ég hætti að vinna og fór að vinna í sjálfri mér og var af atvinnumarkaðinum í 2,5 ár. Sú ákvörðun margborgaði sig því líf mitt er svo allt allt annað í dag.

Kvíðinn, þunglyndið og lága sjálfsmatið var ekki það eina sem var að hrjá mig á þessum tíma því 14. febrúar 1996, þá á 16. aldursári, hafði ég fengið brjósklos og upp frá því ekki lifað verkjalausan dag. Haustið 2000 fékk ég annað brjósklos og til samans unnu þessi 2 brjósklos saman að því að gera líf mitt verkjamikið, og ófæra um að lifa eðlilegu lífi. Ég var atvinnulaus í nokkur ár því ég gat ekki unnið. Ég náði þó að hafa mig í gegnum 3 ára háskólanám, þar sem tölvunarfræði varð fyrir valinu því þar voru í boði hljóðfyrirlestrar og hlustaði ég því á alla fyrirlestra í náminu uppi í rúmi heima hjá mér. Ég mætti bara í skólann í einstaka dæmatíma og hópverkefni. Ég brotnaði all mörgum sinnum niður í náminu og það varð að lokum til þess að ég leitaði hjálpar hjá heimilislækni. Þar sem ég fékk einmitt töflur og enga eftirfylgni.

Eftir útskrift úr tölvunarfræðinni var ég atvinnulaus í tæpt ár. Bæði gekk illa að fá vinnu vegna þess að það var lægð í tölvugeiranum á þessum tíma og svo tók faðir minn líf sitt 4. október 2004 sem tók mig marga mánuði að komast nógu mikið yfir til að ég treysti mér í vinnu. Vorið 2005 fékk ég svo vinnu og vann fullan vinnudag fram í janúar 2009. Líf mitt var þannig að ég vaknaði og mætti í vinnuna, kom heim, lagðist upp í rúm, las og horfði á þætti og myndir fram að háttatíma. Ég gerði ekkert. Bara lá heima hjá mér þunglynd, kvíðin og með bakverki. Ég fór varla í bíó, leikhús, út að borða, á viðburði né hitti fólk. Ég fattaði einhvern tímann að ég hefði ekki hitt bestu vinkonu mína í sennilega um 3 ár, og hún var í raun eina vinkona mín. Við spjölluðum saman á ircinu og MSN. Ég var langt í frá að vera besta vinkona hennar enda hún vinamörg og félagslynd með eindæmum.

Ég hafði enga aðstoð fengið vegna bakverkjanna frá upphafi þeirra 1996. Það tók 2-3 ár að fá greiningu á því hvað væri að hrjá mig. Upp að því höfðu læknar bara sagt að þetta væru vaxtaverkir og ég ætti að fá strákana til að nudda mig. Eða þeir spurðu hvort mér gengi illa í skólanum og fyndist svona leiðinlegt að vera í honum, en ég þurfti nokkrum sinnum að fá vottorð fyrir skólann vegna fjarveru minnar og vegna þess að ég gat oft á tíðum ekki tekið þátt í leikfimi.

Það var loks læknanemi sem sendi mig í segulómskoðun og ég mun aldrei gleyma viðbrögðum læknisins sem ég fékk niðurstöðurnar hjá, en læknaneminn var þá hættur. Þegar ég sagði honum að ég hefði verið send í segulómskoðun þá sagðist hann þurfa að skamma læknanemann fyrir að hafa sent mig í svona óþarfa rándýra skoðun. Þar til hann náði í niðurstöðurnar og sagði að læknaneminn væri ekki svo vitlaus eftir allt saman. En ég hafði einmitt farið til þessa læknis áður vegna bakverkja.

Ég spurði lækna í gegnum tíðina hvort ég gæti komist að hjá Reykjalundi eða á bakdeildinni í Stykkishólmi. Þeim fannst það óþarfi og það væri líka svo langur biðlisti og erfitt að komast á þá. Svo ekkert gerðist þar. Ég fór til einhverra sjúkraþjálfara sem gerðu ekkert gagn. Einn þeirra sýndi mér einhverjar æfingar og svo átti ég bara að gera þær ein inni í sal. Ég hef sennilega verið 16 ára þarna, aldrei gert svona æfingar, óörugg með mig og hrædd um að gera hlutina vitlaust. Svo það urðu ekki fleiri en 2-3 ferðir til hans.

Á einum tímapunkti, vorið 2003, fékk ég smá kjark og hringdi sjálf og fékk tíma hjá Jósepi í Stykkishólmi. Þó að heimilislæknir sem ég hafði farið til hefði neitað að vísa mér þangað. Ég ákvað bara að reyna sjálf. Ég fékk tíma örfáum vikum seinna. Ég var samt næstum hætt við hann því ég bjóst við að Jósep myndi bara “hlæja að mér” og kalla mig ímyndunarveika og aumingja. En það var bæði það álit sem ég hafði á sjálfri mér og sú tilfinning sem ég hafði fengið hjá öllum læknum. En hann tók mig alvarlega, skoðaði mig og sagði að það þýddi ekkert annað en að drífa mig inn á deild til hans fyrir sumarlokanir og ég var komin inn um 2 vikum seinna. Man alltaf hvað ég hló þegar hann sagði að ég væri með hreyfingar á við níræða kellingu.

Þar lærði ég loks eitthvað sniðugt, en svo var það bara búið. Ég hefði viljað einhverja eftirfylgni í heilbrigðiskerfinu en það var náttúrulega ekki. Jósep benti mér á að ég ætti rétt á endurhæfingarlífeyri og ég fór til heimilislækni til að fá hann til að sækja um bæturnar fyrir mig. Hann vildi senda mig í kynsjúkdómapróf því klamedíu gætu fylgt bakverkir. Þarna var ég búin að þjást af bakverkjum í 7 ár og fannst mjög skrýtið að ætla að senda mig í kynsjúkdómapróf vegna 7 ára bakverkja. Sérstaklega þar sem ég var ekki kynferðislega virk þegar þeir byrjuðu.

En ég fór í gegnum ferlið að fá endurhæfingarlífeyri og fékk hann hálfu ári eftir að ferlið byrjaði og fékk hann í alls 9 mánuði. En það gerðist ekkert annað. Ekkert massíft endurhæfingarferli fór í gang. Svo hættu bæturnar og ég hélt bara áfram að vera atvinnulaus, tekjulaus, kvíðin, þunglynd og að drepast úr verkjum.

Endurhæfing

En já árið 2009 fóru hlutirnir loksins að gerast. Það þurfti sjálfsvígstilraun til!

Fyrst var ég á göngudeild geðdeildar í reglulegum viðtölum hjá sálfræðingi sem algjörlega bjargaði lífi mínu. Þar kynntist ég hugrænni atferlismeðferð (HAM) í fyrsta skipti. Ég hafði heyrt minnst á hana áður hjá einhverjum þeim fjölda lækna sem ég hafði farið til, en enginn þeirra hafði gert neitt í að koma mér að einhvers staðar þar sem ég myndi læra hana, né buðu upp á hana sjálfir. Ég var líka skeptísk. Hafði bara einhvern veginn enga trú á að það væri hægt að endurforrita heilann. En vá það er sko hægt.

Þau á geðdeild vildu reyndar leggja mig inn en ég var of hrædd við það. Vissi ekki hvernig deildin liti úti, hvort ég yrði með einhverjum í herbergi, hvernig sá einstaklingur væri, hvort ég mætti koma með tölvu og vera með síma, vissi ekki hvernig dagskráin yrði, vissi ekki hvernig herbergið mitt myndi líta út, vissi ekki hvenær ég mætti fara í sturtu og svo framvegis. Kærasti minn þáverandi var atvinnulaus á þessum tíma svo honum var treyst að fylgjast með að ég færi mér ekki að voða.

Ég var hjá þessum yndislega sálfræðingi í um hálft ár. Um haustið fór ég á námskeið hjá spítalanum, námskeið í hugrænni atferlismeðferð og árvekni (mindfulness). Þaðan lá leiðin á Hvítabandið þar sem ég var fram að áramótum. Ég átti að vera lengur en bakið á mér versnaði svo í desember og ég fór í aðgerð í febrúar 2010. Hvítabandið er alveg yndislegur staður og ég vildi óska að ég hefði getað klárað prógrammið þar. Ég sakna enn eftirréttanna á föstudögum.

Um haustið 2010 byrjaði ég í ræktinni, ein besta ákvörðun lífs míns, og í janúar 2011 fór ég á verkjadeild Reykjalundar.

Í mars 2011 eftir að hafa mætt 36 sinnum í ræktina á 30 dögum þá loksins birti til í kollinum á mér og ég upplifði í fyrsta skipti í 20 ár að langa meira til að lifa en að deyja!

Ég þakka þolæfingum algjörlega fyrir að hafa komið mér á þann stað en ég veit að ég hefði ekki komist á þennan stað ef ég hefði ekki verið í allri endurhæfingunni á undan. Þar sem ég lærði hugræna atferlismeðferð, mindfulness og fleira. En ég held ég hefði heldur aldrei komist á þennan stað ef ég hefði ekki stundað þolæfingarnar.

Vorið 2011 pantaði ég tíma hjá ráðgjafa hjá Virk og fékk mikla hjálp þar við að fá bætur og einhverja smá endurhæfingu. Enginn í heilbrigðisgeiranum benti mér á Virk, að sjálfsögðu ekki.

Ég hafði verið hjá heimilislækni sem dró í marga mánuði að senda inn vottorð til TR svo ég varð bótalaus þá mánuði. Ég hafði engar áhyggjur af því að ég treysti góða kerfinu okkar, já ég er alltaf jafn saklaus, og treysti á að ég fengi bætur frá þeim tíma sem ég varð tekjulaus. Það var aldeilis ekki. TR neitaði mér um bætur fyrir þessa mánuði og þetta fór tvisvar í gegnum úrskurðarnefnd almannatrygginga sem úrskurðaði mér í hag í bæði skiptin. Elska þessa nefnd en finnst sorglegt að maður þurfi að leita til hennar. Í fyrra skiptið úrskurðuðu þeir að ég ætti að fá greiddar bætur aftur í tímann en TR vildi bara borga hluta því endurhæfingarlífeyristímabili mínu væri þá lokið. Svo ég fór aftur í gegnum úrskurðarnefndina sem dæmdi að TR ætti að borga mér alla mánuðina. Þetta ferli tók rosalegan andlegan og líkamlegan toll. Þetta stóð yfir í um 2 ár. Fyrst var ég í samskiptum við TR og svo við úrskurðarnefndina. Mikið hefði ég viljað óska að einhver hefði staðið í þessu fyrir mig. Einhver ráðgjafi sem væri sérfræðingur í svona málum.

Mæli annars tvímælalaust með Virk þó ég hefði viljað sjá fleiri úrræði þar. Ég t.d fékk nokkra tíma hjá næringarfræðingi til að hjálpa mér með mataræðið. En ég borðaði alltof lítið og ófjölbreytt. Ráðin sem ég fékk var að borða meiri ís, meira smjör með öllu og fékk einhvern bækling um hugmyndir að næringaríkum millibita þar sem m.a stóð ís, kökur, sælgæti, snúðar, kleinur og svo framvegis. Ekki alveg það sem ég var að leita eftir og ég fór ekki aftur.

Haustið 2011 fór ég svo á námskeið sem er það allra besta sem ég hef nokkurn tímann tekið. Grunnnámskeið í hugleiðslu hjá Hugleiðslu- og friðarmiðstöðinni. Mæli tvímælalaust með því fyrir alla. Dale Carnegie sem ég fór á haustið 2012 hjálpaði mér líka gífurlega. Að mínu mati ættu þessi tvö námskeið að vera skyldunámskeið fyrir alla þjóðina.

Mér er minnistætt sem sérfræðingur sam mat mig fyrir Virk árið 2011 sagði, að ég þyrfti habilitation en ekki rehabilitation. Ég þyrfti hæfingu en ekki endurhæfingu. Því saga mín var orðin svo löng og byrjaði þegar ég var bara 6 ára.

Í dag er ég loksins endurhæfð/hæfð!

Mér hefur aldrei liðið jafn vel andlega.

Bakið mætti vera betra en með að vinna hlutastarf, mæta í sjúkraþjálfun reglulega og stunda æfingar og hreyfingu held ég því nokkuð ánægðu.

Kerfið

Mér finnst kerfið hafa brugðist mér og tugum þúsunda Íslendinga. Líf mitt og annarra hefði orðið allt annað ef það hefði einhvern tímann verið gripið í taumana. Eða ef fyrirbyggjandi aðgerðir hefðu eða væru í gangi.

Börn geta verið rosalega góðir leikarar en mér finnst alveg ótrúlegt að enginn skuli hafa tekið eftir að hegðun mín væri óeðlileg. Hvað ég væri hrædd við allt og alla. Ég fór aldrei í snú snú sem barn. Aldrei á skauta. Tók aldrei þátt í pakkaleikjunum í afmælum. Vildi aldrei gera það sem ég kunni ekki og gat ekki lært í einrúmi. Því ég vildi ekki gera mig að athlægi fyrir framan aðra. Og ég “vissi” líka að ég gæti aldrei lært neitt. Þó að einkunnir mínar bentu alltaf til annars. Ef ég fékk ekki 10 í öllu þá var ég misheppnuð að mínu mati. Reyndar er ég nokkuð viss um að ég hefði talið mig misheppnaða þó ég hefði fengið 10 í öllu. Ég var almennt alltaf hæst í öllu í grunnskóla en það breyttist í menntaskóla þegar vanlíðanin var orðin meiri, bakið að trufla mig og námsgreinarnar erfiðari. En ég fékk samt ágætis enkunnir og var langt frá því að falla í einhverju.

Í menntaskóla komu einhverjir inn í tíma hjá okkur og fengu að leggja fyrir okkur könnun. Þar var ein spurning um hvort viðkomandi hefði íhugað sjálfsvíg. Ég leit lymskulega í kringum mig og sá að allir aðrir merktu aldrei við. Meðan ég var akkúrat hinum megin á skalanum. Ég fyllti mitt svar út samviskusamlega með höndina yfir svo enginn sæi það. Ég man ekkert hvaðan þessi könnun kom. Sennilega frá nemendum úr öðrum skóla eða háskóla. Ég velti fyrir mér hvort það hefði ekki verið eðlilegt af þeim sem fór yfir kannanirnar að láta vita ef einhver hefði merkt við eins og ég og þá hefði verið hægt að koma með einhverja fræðslu fyrir bekkina. En eina fræðslan sem við fengum kom frá fyrrum fíkniefnaneytanda. Það sem ég hefði viljað sjá fræðslu frá fyrrum kvíða- og þunglyndissjúklingi.

Frá 2001 þegar ég leitaði mér fyrst hjálpar við geðvandamálum mínum til dagsins upp í sumarbústað 4. janúar 2009 buðust engin ráð önnur en lyf. Í um 9 ár! Það er bara alvarlegur áfellisdómur yfir heilbrigðiskerfinu.

Eftir endurhæfingarlífeyrinn sem ég fékk 2003-2004 var ekkert í boði og engin eftirfylgni. Í raun hefði ég átt rétt á endurhæfingarlífeyri frá tvítugu og svo örorkubótum í kjölfarið.

Miðað við mína sögu finnst mér að ég hefði átt að vera sett í endurhæfingarferli fljótlega upp úr 1996. Þá hefðu geðraskanir mínar sennilega komið upp á borðið í leiðinni og líf mitt orðið annað en það varð. En ekkert gerðist.

Mér finnst mjög ólíklegt að ég væri öryrki í dag ef ég hefði farið í endurhæfingarferli fyrr.

Sumir velta kannski fyrir sér af hverju ég er öryrki í dag því ég er komin á svo góðan stað. Svarið er að ég þarf að passa upp á geðheilsuna og líkamlegu heilsuna. Passa að detta ekki í gamla farið. Hafa tíma og orku í að stunda andlega, líkamlega og félagslega rækt. Ég væri sko alveg til í að vera á sömu launum og þeir sem ég útskrifaðist með úr háskólanum. Eiga stærri íbúð, nýrri bíl og hafa efni á að gera meira. En ég mun aldrei fórna geðheilsunni né líkamlegu heilsunni fyrir það. En vonandi einhvern tímann verður heilsan betri og ég fær um fullan vinnudag. Sérstaklega ef ég gæti unnið hluta heima. En það er eithvað sem kemur bara í ljós.

Heilsan er það dýrmætasta sem við eigum.

Draumurinn

Draumur minn er að:

[*] Allir á Íslandi læri hugleiðslu og að lifa í núinu

Hugleiðsla og að lifa í núinu snýst um að kyrra hugann og nýta hugann í það sem við viljum að hann geri. En ég held að hvert einasta mannsbarn hér á klakanum þekki það þegar hugurinn fer á flug. Talar niður til okkar, dregur úr okkur, refsar okkur og ég veit ekki hvað og hvað. Lengi vel hélt ég að þetta væri bara eðlilegur partur af lífinu. En svo er aldeilis ekki. Bendi hér á pistil eftir mig sem heitir Neikvæða röddin.

Hugleiðsla ætti að vera kennd og stunduð á öllum stigum skóla og auðvelda ætti fullorðnu fólki að læra hana.

Að kenna börnum frá unga aldri að þekkja tilfinningar sínar og hugsanir, sem er einmitt partur af hugleiðslu og að lifa í núinu, myndu fara langleiðina í átt að afskaplega heilbrigðu þjóðfélagi.

[*] Að lögð verði áhersla á að koma í veg fyrir stoðkerfisvandamál

Með því til dæmis að kenna börnum og unglingum að beita sér rétt og styrkja allan líkamann. Hvetja allan landann til að hreyfa sig meira.

[*] Að fólk í uppeldisstörfum læri að þekkja varúðarmerki í hegðun barna og unglinga

Það er ekkert mikilvægara en að grípa sem fyrst í taumana. Þetta er sennilega orðið betra í dag en þegar ég var barn en grunar að við eigum enn langt í land.

[*] Að allir sem leita sér hjálpar í heilbrigðiskerfinu fái sjálfkrafa úthlutað ráðgjafa til að halda utan um sín mál, finna endurhæfingarúrræði, sækja um bætur og fylgja hlutunum eftir

[*] Að öryrkjar fái allir sjálfkrafa úthlutað ráðgjafa til að hjálpa því við að vera í endurhæfingu og vera virkt í samfélaginu

[*] Búa til öfluga endurhæfingarmiðstöð fyrir öryrkja.

Það eru ýmis endurhæfingarúrræði í boði en þau eiga það flest sameiginlegt að það er kílómetra langur biðlisti í þá og eru út um allt. Erfitt að fá einhvern til að setja sig á biðlista og enginn eftirfylgni á neinum stöðum.

Ég myndi vilja sjá miðstöð fyrir alla sem eru á endurhæfingarlífeyri og örorku. Þar sem allir sem eru á endurhæfingarlífeyri og örorku fá úthlutað ráðgjafa sem fylgist með viðkomandi og passar upp á endurhæfingu og eftirfylgni. Eins lengi og viðkomandi er á endurhæfingarlífeyri og örorku. Í miðstöðinni væri heitur hádegismatur sem væri ódýr og allir ættu að hafa efni á. Góður og næringarríkur matur. Einnig væru hópar sem færu saman í ræktina, í sund, göngutúra, fjallgöngur, sjósund og svo framvegis og framvegis. Þar væru opnir tímar í boði sem fólk gæti skráð sig í eins og hugleiðslu, slökun og jóga. Þar væru líka lokaðir tímar fyrir þá sem væru að stíga sín fyrstu skref í hugrænni atferlismeðferð, hugleiðslu og svo framvegis.

Þarna ættu allir athvarf eins lengi og þeir vildu. Um leið og þeir dyttu inn í endurhæfingarlífeyriskerfið eða örorkukerfið þá ættu þeir að fara sjálfkrafa á póstlista og fá fregnir af öllu sem er í gangi og geta skráð sig í það.

Já ég hef háleita drauma fyrir þjóðfélagið!

[*] Að stofnuð verði sér atvinnumiðlun fyrir fólk sem treystir sér bara í hlutastörf.

Það er ekki sérstaklega upplífgandi fyrir öryrkja að koma allstaðar að læstum dyrum þegar þeir leita að störfum. En það er hverri manneskju hollt að vinna. Þó það sé ekki nema örfáa tíma á viku. Bara að komast út úr húsi að hitta fólk, hafa rútínu og hafa aðeins meira á milli handanna í hverjum mánuði er ómetanlegt heilsu hvers manns.

Ég er menntaður tölvunarfræðingur og hef sótt um störf þar sem krafist er háskólamenntunar í 5 ár. Ég hef ekki fengið eitt einasta atvinnuviðtal.

En sem betur fer hef ég fengið vinnu á tveimur stöðum. Ég var 3,5 vetur á frístundaheimili, sem ég mæli eindregið fyrir öryrkja sem eru í leit að hlutastarfi og hafa gaman af börnum. Það er hægt að velja um 2-5 daga í viku sem gerir um 20-50% vinnu. Maður fær að gera allskonar skemmtilegt eins og að perla, lita, teikna og fara í vettvangsferðir (eins og t.d baka pizzu á Dominos). Það var algjörlega hið fullkomna starf fyrir mig þegar ég var að fikra mig aftur út á atvinnumarkaðinn. Ég var líka dugleg að nýta mér námskeiðin sem starfsmannafélag Reykjavíkurborgar býður upp á og nýta mér námskeiðssjóði þeirra. Í dag er ég þjónustufulltrúi á verkstæði og lager.

Ef ég missi vinnuna eða hefði áhuga á að færa mig til í starfi þá væru möguleikar mínir á að fá nýtt starf nánast engir. Nema reyndar það vantar alltaf á frístundaheimilin. Það er ekki beint upplífgandi fyrir neinn að hafa ekkert val um starfsvið og ég hef stundum bara pælt í að flytja lengst upp í sveit og hætta að vinna. Setja niður grænmeti og njóta sveitalífsins. En mig dreymir um kröfumeira líf. Til að hafa fleiri möguleika þyrfti ég að vera tilbúin í fullt starf og ég set heilsuna alltaf í forgang. Svo hjálpar ekki að ég sé svona opinská með mína sögu. Það eru merkilega miklir fordómar gagnvart öryrkjum í samfélaginu.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að vinnuframlegð á Íslandi er ótrúlega lítil miðað við vinnutíma Íslendinga. Að færri klukkustundir á viku myndu sennilega auka vinnuframlegð, allavega ekki minnka hana. Auka hamingju fólks og tryggð við fyrirtækið. Í tilfellum eins og mínu fær fyrirtækið þetta allt saman og þarf samt ekki að borga laun fyrir fulla vinnu!

[*] Hjálpa öryrkjum við að mennta sig og fá vinnu við hæfi eftir að menntun lýkur

Einmitt með atvinnumiðluninni sem ég nefndi hér fyrir ofan.

[*] Að öryrkjar fái hærri bætur og að kerfið verði einfaldað

Það velur sér enginn að vera öryrki. Ég bendi hér á pistil eftir mig sem heitir Þegar ég verð stór… ætla ég að verða öryrki.

Bætur ættu að vera hærri og kerfið einfaldara. Hafa bara grunnlífeyri og fella inn í hann tekjutryggingu, heimilisuppbót og framfærsluuppbót. Það meikar engan sens að fólk missi heimilisuppbót við að búa með öðrum. Bæturnar eru skammarlega lágar nú þegar og þessar heimilisbætur skipta sköpum fyrir flesta. Að búa með öðrum er ekkert endilega hagstæðara. Tala nú ekki um að ef öryrki sem lifir á hrísgrjónum fer að búa með einhverjum sem vill elda eitthvað með hrísgrjónunum sínum og hækkar þar með fæðiskostnaðinn. Í alvöru talað þá eru margir öryrkjar sem lifa á hrísgrjónum og öðrum ódýrum mat.

Það ætti að hækka frítekjumark. Fella út að fjármagnstekjur skipti einhverju máli. Fella út að leigutekjur skipti máli ef viðkomandi leigir annarstaðar á meðan. Eins og dæmið er í dag myndu bætur mínar lækka ef ég myndi ákveða að flytja tímabundið úr landi eða út á land, leigja íbúðina mína út á meðan og borga leigu annars staðar.

Ég komst að því um daginn að skilin þar sem bætur detta út eru ekki beinlínis sanngjörn. Bætur falla niður við 4.319.396 á ári. Einni krónu minna og ráðstöfunartekjur viðkomandi eru 313.072 á mánuði. Einni krónu hærri og þær detta niður í 275.351 á mánuði. Lauslega áætlað á vef TR (vantar inn í ýmis iðgjöld o.fl). Til að fá sömu ráðstöfunartekjur þyrftu launin að hækka úr 359.950 í 422.548 eða um 62.598. Sé alveg að það gangi við samningaborðið. Sérstaklega þegar manneskjan er í hlutastarfi. Svo það er ekki beint hvati að hækka í launum eða taka að sér aukaverkefni fyrir fólk sem er svo heppið að vera í nokkuð vel launuðu hlutastarfi. En sem væri annars með hugsanlega tvöföld þau laun ef það hefði fulla starfsgetu.

[*] Að börn allra, sérstaklega öryrkja, fái stuðning ef á þarf að halda

Stuðning til að stunda nám, tómstundir og alast upp andlega, líkamlega og félagslega heilbrigt.

[*] Stofna styrktarsjóð

Þegar maður verður öryrki útskrifar kerfið mann og það er ekkert í boði. Engin eftirfylgni né stuðningur. Ekki það að hann sé mikill fyrir en meðan maður er á endurhæfingarlífeyri þá er eitthvað aðeins reynt að gera fyrir mann. Sérstaklega ef maður er svo heppinn að komast að hjá Virk.

Fólk á atvinnumarkaðnum fær allskonar styrki. Styrki fyrir sjúkraþjálfun, tannlæknum, sálfræðingum og svo framvegis. Sumir fá styrk fyrir síma og tölvu. Flestir fá sumarbústaði á góðum kjörum. Margir fá styrk fyrir allskonar námskeiðum.

En öryrkjar fá ekkert. Þeir sem eru svo óheppnir að eiga ekki ríkan maka eða ríka foreldra, geta ekki unnið hlutastarf, eða hafa ekki unnið Víkingalottó ná flestir ekki endum saman. Þegar valið stendur á milli þess að fara í sjúkraþjálfun og til sálfræðings eða eiga fyrir mat og húsaskjóli fara engir að velja það fyrra.

Það væri svo einfaldlega hægt að bæta kjör margra öryrkja bara með því einu að búa til styrktarkerfi fyrir þá. Þar sem þeir geta sótt um styrk fyrir sjúkraþjálfun, sálfræðingum, námskeiðum (eins og námskeiði í hugrænni atferlismeðferð, hugleiðslu og Dale Carnegie), eða styrk fyrir námi (eins og háskólanámi, iðnnámi eða stuttum hagnýtum námskeiðum eins og skrifstofunámi, tölvunámskeiðum og svo framvegis).

Skattfrjálsan styrk eða þar sem búið væri að taka skattinn af svo fólk lendi ekki í veseni í ágúst árið eftir!

[*] Lækka verð á hollum og næringarríkum mat

Hollur og næringarríkur matur ætti að vera eins ódýr og mögulegt er. Ein fljótlegasta leiðin til að bæta heilsu landans.

[*] Auka sjálfstæð vinnubrögð og gagnrýna hugsun, og ýta undir náttúrulega hæfileika barna

Námskrá skóla snýst alltof mikið um að allir séu í sama boxi og læri það sama. Ef börn sýna náttúrulega hæfileika á einhverju sviði þá ætti að ýta undir það. Sama hvort það sé í einhverju bókfagi, iðngrein eða listgrein. Það myndi auka sjálfsmat og hamingju þeirra sem væri frábært fararnesti út í lífið og skila heilbrigðara samfélagi.

[*] Gæludýr

Af óskiljanlegum ástæðum er bannað að vera með dýr í félagslegum íbúðum og í öryrkjaíbúðum. Eins og gæludýr geta skipt sköpum í geðheilsu fólks,já og líkamlegri heilsu. Margt fólk býr eitt og á ekki marga, jafnvel enga, nána að. Nema gæludýrið sitt. Að taka það af því er hrein illska.

Ég sjálf er svo heppin að eiga hund. 7 ára Cavalier tík sem heitir Ronja. Hún hefur skipt sköpum í bata mínum. Hún er alltaf ánægð að sjá mig, kúrir mikð hjá mér. Er óendanlega sæt og alltaf til í göngutúra. Ég myndi engan veginn vera jafn dugleg að fara út í göngutúra án hennar. Á tímabili fór ég varla út úr húsi og það að hafa hana alltaf heima og hjá mér var ómetanlegt og í fullri hreinskilni sagt þá er ég ekki viss um að ég væri enn á lífi ef ekki hefði verið fyrir hana.

Gæludýr bæta heilsu svo margra og í raun fáránlegt hve strangar kröfur eru um dýrahald á Íslandi. Það ætti að auðvelda fólki að eiga dýr. Nú eru t.d komnar blokkir fyrir eldra fólk. Af hverju eru ekki sér blokkir fyrir fólk með gæludýr. Bæði nýjar og gamlar. Húsfélög gætu tekið sig til og auglýst að þeirra blokk sé gæludýravæn.

Leið mín að bata

Ég bendi á síðuna mína: Leið mín að bata fyrir þá sem vilja fræðast meira um þá vegferð mína.

Þegar ég verð stór ætla ég að verða öryrki

Sagði enginn. Aldrei.

Svo ég skil ekki alveg fordóma sem öryrkjar mæta í þjóðfélaginu.

Eins og það að verða öryrki sé val? Ég get sko alveg sagt ykkur að það var ekki efst á mínum óskalista.

Full frískt fólk eru ekki öryrkjar. Full frískt fólk vill stunda fulla vinnu og vera fullur meðlimur í þjóðfélaginu. Og gerir það.

Að vera þjakaður af líkamlegri og/eða andlegri vanlíðan er eitthvað sem enginn þráir. Hvað þá á hverjum degi, árum saman.

Það að vera þjakaður af líkamlegum og/eða andlegum verkjum er andlega og líkamlega lýjandi. Það lýjandi að margir treysta sér ekki til að vinna fullan vinnudag. Það lýjandi að flestir geta ekki lifað lífinu eins og þeir vilja.

Ég veit ekki hve oft ég hef heyrt að öryrkjar séu bara letingjar sem nenna ekki að vinna.

Að fólk með langvarandi verki séu bara aumingjar, það fá nú allir verki.

Að fólk með geðræn vandamál séu bara aumingjar, að það eigi bara að hrista þetta af sér. Ég meina það eiga allir erfiða daga andlega og líkamlega.

En það að eiga erfiða daga andlega og líkamlega er svo allt allt allt annað en það sem fólk með langvarandi líkamlega og/eða andlega vanlíðan gengur í gegnum.

Það kannast eflaust flestir við að hafa fengið í bakið á einhverjum tímapunkti í lífinu. Ímyndið ykkur að þeir bakverkir hafi verið meira og minna til staðar í 19 ár. Það kannast flestir við að hafa kviðið fyrir einhverju. Ímyndið ykkur viðvarandi kvíða í 29 ár. Það kannast flestir við að hafa dottið í þunglyndi, jafnvel íhugað að taka sitt eigið líf. Ímyndið ykkur þá líðan í 20 ár. Það kannast flestir við að verða allir lurku lamnir eftir mikla áreynslu, líða eins og það hafi verið valtað yfir ykkur. Stíf og bólgin í öllum líkamanum. Ímyndið ykkur að það gerist eftir bara meðal áreynslu. Ímyndað ykkur viðvarandi þreytu og orkuleysi. Ímyndið ykkur að vakna milljón og tíu sinnum upp á hverri nóttu.

Velkomin í mitt líf.

Ég er engan veginn að kvarta enda finnst mér líf mitt nokkuð dásamlegt í dag. Ég hef nokkuð góða stjórn á heilanum, þó ég berjist nú við hann á hverjum degi. Þá hefur hann ekki vinninginn eins og þau 20 ár sem minn stærsti draumur var að fá að þurrka út tilveru mína. Ég fer til sjúkraþjálfara á 2-4 vikna fresti sem tjónkar við bakið á mér. Ég hreyfi mig reglulega. Ég get unnið hlutastarf og myndi ekki hætta að vinna þó ég ynni milljarð í lottói. Annað en þessi 20 ár sem myrkrið var viðvarandi. Þá var næst stærsti draumur minn að geta hætt að vinna.

Við skulum sjá fyrir okkur tvær mismunandi myndir.

Önnur er af 35 ára kvenmanni sem starfar sem tölvunarfræðingur og hefur gert í 11 ár, 14 ár ef vinna á sumrin með skóla er tekin með. Sem er með góðar tekjur og hefur verið með síðustu 11 árin. Sem vinnur fullan vinnudag og hefur fullt af áhugamálum. Stundar ræktina á hverjum degi, fer í göngutúr með hundinn á hverjum degi. Hefur gengið Laugaveginn nokkrum sinnum og farið upp á Hvannadalshnúk. Elskar að sofa í tjaldi og hefur orku til að dansa tímunum saman. Sem þarf sjaldan ef nokkurn tímann að tjónka alvarlega við heilann og fer í gegnum lífið full af sjálfsöryggi.

Hin er af 35 ára kvenmanni sem gat ekki unnið með skóla á veturna og ekki á sumrin. Sem var atvinnulaus í rúmt ár eftir nám. Sem var á vinnumarkaðnum þunglynd og að drepast í bakinu í tæp 4 ár. Sem fór heim strax eftir vinnu, beint upp í rúm og var þar meira og minna fram að næsta vinnudegi. Sem var hrædd við allt og alla. Gerði nánast aldrei neitt. Hitti aldrei neinn fyrir utan maka og fjölskyldur. Sem langaði ekkert meira en að fá að deyja, og gerði að lokum tilraun til þess.

Hvor myndin hljómar betur? Hvaða manneskja myndi nokkurn tímann velja seinni myndina?

Enginn. Aldrei.

Sem betur fer er mynd mín í dag þarna mitt á milli. Ég vinn hlutastarf. Lifi lífinu lífandi. Fer í ræktina, göngutúra, sjósund, dansa, fer á allskonar viðburði og svo framvegis og framvegis. Ég haga lífi mínu eftir orku. Ég þarf allavega 9 tíma svefn að meðaltali og legg mig oft á daginn, enda vakna ég svona milljón og tíu sinnum á hverri nóttu. Um leið og ég finn þreytu læðast yfir þá veit ég að ég þarf að hvíla mig. Annars er stutt í þungu skýin sem eru alltaf við sjóndeildarhringinn. Þreyta og leiði er það versta fyrir andlegu heilsuna. Svo þó danskvöldið sé í 3 klukkutíma í viðbót þá fer ég heim ef ég finn að minn orkuskammtur er búinn.

Í mínu gamla lífi hefði heilinn stjórnað mér. Í dag tjónka ég við hann. En það tekur svakalega orku. Einn góðan veðurdag vonast ég til að hann þagni bara alveg!

En já að örorkubótum. Að fá pening fyrir að gera ekki neitt!

Vá æði!

Nema þið vitið. Líða andlega og líkamlega illa. Hver vill ekki skipta á góðu andlegu og líkamlegu heilsunni, betri launum og betri lífsgæðum og örorkubótum, andlegri og/eða líkamlegri vanlíðan?

Ef ég væri ekki að vinna væri ég með um 192 þúsund í ráðstöfunartekjur á mánuði.

Vill einhver full frískur einstaklingur fá laun fyrir að gera ekki neitt? Vilja ekki allir leggja sitt af mörkum í samfélaginu og fá laun fyrir það?

Það er algjörlega mannskemmandi að hanga heima hjá sér að gera ekki neitt. Það er alveg frábært einstaka sinnum um helgar og í sumarfríum og svona. En að gera það 365 daga á ári er ekki eitthvað sem einhver velur sér.

Svo eins fljótt og ég treysti mér til ákvað ég að fara að vinna aftur. Eyddi 2,5 ári í að vinna í sjálfri mér, andlega og líkamlega og á vissum tímapunkti treysti ég mér aftur út á vinnumarkaðinn. En bara í hlutastarf, því ég veit að fullt starf myndi draga úr mér alla orku, og orkan til að stunda áhugamál, félagslíf og sinna vinum, fjölskyldum og hundi væri enginn. Ég veit það af fenginni reynslu. Orkukvóti minn er takmarkaður.

Að fá hlutastarf þar sem menntun mín gagnast er vonlaus. Mér skilst að það sé skortur á tölvunarfræðingum. En bara ekki í hlutastarf. Veit líka alveg að það hjálpar mér ekkert þegar fólk gúglar mig og sér mína sögu á netinu. Né að ég hef verið frá tölvunarfræðigeiranum svo lengi og svo mikið breyst að ég þyrfti aðeins að endurmennta mig.

Ég vann hlutastarf á frístundaheimili í 3,5 ár sem var mjög fínt, perlaði meira en ég gerði sem barn! Eftir fyrsta veturinn þar fór ég að sækja um störf á fullu, eftir um 2,5 ár af þrotalausum umsóknum (við erum að tala um ca 1000 daga) fékk ég loks 2 starfsviðtöl og fékk seinna starfið.

En já aftur með örorkubæturnar. Við ákveðnar launatekjur á mánuði detta niður bæturnar og þá lækka tekjurnar um 60 þúsund á mánuði. S.s ég þyrfti að fá launahækkun upp á 60 þúsund á mánuði til að fá sömu ráðstöfunartekjur aftur! Hvaða rugl er það?

Ég tvöfaldaði vinnutíma minn þegar ég byrjaði í nýju vinnunni, vinn fleiri daga, fleiri klukkutíma á dag og vinn fleiri vikur á ári. Ég hækkaði líka í tímakaupi.

Vá hvað ég hef það svo mikið betur launalega séð! Æj nei alveg rétt, bæturnar lækka bara á móti svo þetta munar ekkert það miklu. Frábært.

Ég skil svo sem alveg að íslenska ríkið vilji ekki halda mér uppi og skerði bæturnar þegar tekjur mínar aukast. En samt. Af hverju mega öryrkjar ekki lifa mannsæmandi lífi? Ef ég væri fullfrískur einstaklingur og hefði verið það alla ævi þá gróflega áætlað miðað við menntum mína væri ég með tvöfalt hærri ráðstöfunartekjur á mánuði og íbúðin mín og bankareikningurinn væru talsvert stærri.

En ég skil engan veginn af hverju íslenska ríkið styður ekki betur við bakið á öryrkjum. Maður er bara einn í heiminum. Það er enginn stuðningur frá heilbrigðiskerfinu og maður þarf að sjá um allt sjálfur og finna út úr öllu sjálfur. Af hverju fær maður ekki einhvern svona sponsor sem sér um að passa upp á mann, kemur manni í allskonar hreyfingu og fræðir mann um hitt og þetta? Ég hefði sko náð bata mikið fyrr ef ég hefði ekki þurft að finna út úr öllu sjálf. Berjast fyrir hlutunum. Ég hefði bara viljað fá úthlutað aðila sem gerði fyrir mig skipulag. Heildarplan. Þennan dag klukkan þetta væri ég á HAM námskeiði, þennan dag klukkan þetta væri ég á mindfulness námskeiði, þennan dag klukkan þetta væri ég úti í göngutúr, þennan dag klukkan þetta væri ég í leikfimi tímum sérstaklega til að styrkja bak- og vefjagigtarsjúklinga, þennan dag klukkan þetta væri ég í ræktinni og svo framvegis. Og þá er ég ekki að tala um í einhvern skamman tíma eins og á Hvítabandinu og á Reykjalundi. Þar sem er margra ára biðlisti. Heldur eins lengi og fólk þarf á að halda. Getið þið ímyndað ykkur hve margir öryrkjar myndu ná bata og hve margir öryrkjar gætu aukið starfshlutfall sitt? Æj nei ég man það núna. Það vilja eiginlega engir ráða öryrkja í hlutastarf.

En hey ég kvarta ekki. Ég hef náð þeim bata sem ég hef náð og er gífurlega þakklát fyrir það og hef fulla trú á að ég muni með tímanum alltaf ná betri og betri bata.

Ég vil frekar minni íbúð, grennri bankareikning og nokkuð góða geðheilsu, en lifa í myrkrinu eins og ég gerði.

Engin höll er þess virði að tapa geðheilsunni fyrir.